Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018
Afkoma Landsbankans var jákvæð um 15,4 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 samanborið við 16,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2017. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 8,8% á ársgrundvelli samanborið við 9,4% á sama tímabili árið 2017.
Hreinar vaxtatekjur voru 29,8 milljarðar króna og hækkuðu um 10,3% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 5,8 milljörðum króna og lækkuðu um 12% frá sama tímabili árið áður. Jákvæðar virðisbreytingar námu 1,6 milljarði króna á tímabilinu samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 2,1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra. Í lok september 2018 var vanskilahlutfallið 0,5%, samanborið við 1,0% á sama tíma árið 2017.
Rekstrartekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 námu 41,1 milljarði króna samanborið við 41,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 3,8 milljörðum króna samanborið við 5,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 36% lækkun. Óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum eru helsta skýring lækkunarinnar.
Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 en var 2,5% á sama tímabili árið áður.
Rekstrarkostnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 nam 17,7 milljörðum króna og stóð í stað á milli tímabila. Þar af var launakostnaður 10,8 milljarðar króna samanborið við 10,3 milljarða króna á sama tímabili árið 2017, sem er hækkun um 4,3%. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 5,5% frá sama tímabili árið 2017 og var 7,0 milljarðar króna.
Kostnaðarhlutfall fyrstu níu mánaða ársins var 45,0% samanborið við 44,7% á sama tímabili árið 2017.
Útlán jukust um 12,1% frá áramótum, eða um rúma 112,4 milljarða króna. Útlánaaukning ársins er bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 14,5% frá áramótum, eða um 87,5 milljarða króna.
Eigið fé Landsbankans var 235,9 milljarðar króna 30. september sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,8%. Landsbankinn greiddi þann 19. september sl. 9,5 milljarða króna í sérstaka arðgreiðslu. Á þessu ári hefur bankinn greitt samtals 24,8 milljarða króna í arð en alls nema arðgreiðslur bankans um 131,7 milljörðum króna frá árinu 2013. Um 99,7% af arðgreiðslum ársins renna í ríkissjóð.
Árshlutareikningur samstæðu 9M 2018
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
,,Ég er ánægð að sjá að markaðshlutdeild bankans í lok þriðja ársfjórðungs mælist með hæsta móti. Þá er einnig gleðilegt hversu vel viðskiptavinir okkar hafa tekið þeim fjölmörgu nýju stafrænu lausnum sem við höfum kynnt að undanförnu. Okkar markmið er að veita frábæra stafræna þjónustu, samhliða því að efla persónulega ráðgjöf og tengsl. Starfsfólk Landsbankans býr yfir mikilli þekkingu og við erum stolt af því að alls hafa um 90 starfsmenn bankans útskrifast sem fjármálaráðgjafar. Þessi verðmæta þekking og reynsla hefur meðal annars nýst vel í 360° ráðgjöf, alhliða fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga, sem bankinn bauð fyrst upp á árið 2015. Reynslan af 360° ráðgjöfinni hefur verið afar góð og í september kynntum við sérsniðna fjármálaráðgjöf fyrir smá og meðalstór fyrirtæki sem byggir á sömu aðferðafræði. Þessi nýja fyrirtækjaráðgjöf nefnist 360° samtal fyrirtækja og hefur verið vel tekið.
Á árinu hafa bæði útlán og innlán hjá bankanum aukist umtalsvert og í ágúst síðastliðnum styrktist fjármögnun bankans enn frekar með útgáfu fyrsta víkjandi skuldabréfsins. Þessi útgáfa er mikilvæg varða á leið bankans að yfirlýstu 10% arðsemismarkmiði en jafnframt skiptir miklu máli að árangur af rekstri verði áfram góður. Kostnaðarhlutfall bankans á fyrstu níu mánuðum ársins er 45% og í krónum talið er kostnaður áþekkur því sem hann var á sama tímabili árið 2017. Við munum áfram vinna að því að auka skilvirkni í rekstri og nýta öll tækifæri til að draga úr kostnaði.
Það sem af er ári og sér í lagi á þriðja ársfjórðungi hefur staða á verðbréfamörkuðum verið erfið en fyrir því eru ýmsar ástæður. Landsbankinn er viðskiptavaki fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki og stuðlar þannig að eðlilegri verðmyndum og seljanleika á mörkuðum fyrir íslenska fjárfesta, hvernig sem árar.
Á heildina litið er Landsbankinn í sterkri stöðu, með gott eigið fé, vel fjármagnaður og vel í stakk búinn til að takast á við breytingar í umhverfinu."
Helstu atriði úr rekstri á þriðja ársfjórðungi (3F) 2018
Rekstur:
- Hagnaður Landsbankans á 3F 2018 nam 3,8 milljörðum króna, samanborið við 4,2 milljarða króna hagnað á sama fjórðungi 2017.
- Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 6,5%, samanborið við 6,9% fyrir sama tímabil árið 2017.
- Hreinar vaxtatekjur námu 10,4 milljörðum króna í samanburði við 8,9 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2017.
- Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 89 milljónir á 3F 2018 samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 766 milljónir á sama ársfjórðungi 2017.
- Hreinar þjónustutekjur námu 1,9 milljörðum króna en þær voru 2,2 milljarðar króna á 3F 2017.
- Vaxtamunur eigna og skulda var 2,7% samanborið við 2,5% á 3F 2017.
- Laun og launatengd gjöld nema 3,2 milljörðum króna og hækka um 1,9% á milli tímabila.
- Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum lækkar um 4,9% frá sama tímabili árið áður.
- Kostnaðarhlutfall á þriðja ársfjórðungi 2018 var 45,9% samanborið við 48,7% á sama tíma árið áður.
- Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 30. september 2018 voru 948 en voru 998 á sama tíma fyrir ári.
Efnahagur:
- Eigið fé Landsbankans nam í lok september um 235,9 milljörðum króna og hefur lækkað um 4,1% frá áramótum. Skýringin er sú að Landsbankinn hefur á þessu ári greitt 24,8 milljarða króna í arð.
- Eiginfjárhlutfall alls (e. total capital ratio) þann 30. september 2018 var 24,8% en var 26,8% í lok september 2017. Það er vel umfram 20,5% lágmarks eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins.
- Heildareignir bankans námu 1.317 milljörðum króna í lok september 2018.
- Innlán viðskiptavina námu 692,7 milljörðum króna í lok september 2018 samanborið við 605,2 milljarða króna í lok árs 2017.
- Ný útlán til viðskiptavina á fyrstu níu mánuðum ársins voru um 475 milljarðar króna. Að teknu tilliti til afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta hækka heildarútlán um 112 milljarða króna á tímabilinu.
- Lausafjárstaða bankans er sterk sem fyrr, jafnt í erlendri mynt sem í íslenskum krónum, og vel umfram lágmarkskröfur eftirlitsaðila. Heildar lausafjárhlutfall (e. liquidity coverage ratio) var 154% í lok september 2018.
- Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum námu 0,5% í lok september 2018 samanborið við 0,9% í lok árs 2017.
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
9M 2018 | 9M 2017 | 3F 2018 | 3F 2017 | |
---|---|---|---|---|
Hagnaður eftir skatta | 15.393 | 16.841 | 3.780 | 4.188 |
Arðsemi eigin fjár eftir skatta | 8,8% | 9,4% | 6,5% | 6,9% |
Leiðrétt arðsemi eftir skatta * | 9,7% | 9,9% | 8,3% | 7,5% |
Vaxtamunur eigna og skulda ** | 2,7% | 2,5% | 2,7% | 2,5% |
Kostnaðarhlutfall *** | 45,0% | 44,7% | 45,9% | 48,7% |
30.09.18 | 30.09.17 | 31.12.17 | 31.12.16 | |
Heildareignir | 1.317.205 | 1.198.958 | 1.192.870 | 1.111.157 |
Útlán til viðskiptavina | 1.038.005 | 905.927 | 925.636 | 853.417 |
Innlán frá viðskiptavinum | 692.675 | 638.781 | 605.158 | 589.725 |
Eigið fé | 235.892 | 243.132 | 246.057 | 251.231 |
Eiginfjárhlutfall alls | 24,8% | 26,8% | 26,7% | 30,2% |
Fjármögnunarþekja erlendra mynta | 168% | 185% | 179% | 154% |
Heildar lausafjárþekja | 154% | 158% | 157% | 128% |
Lausafjárþekja erlendra mynta | 392% | 873% | 931% | 743% |
Vanskilahlutfall (>90 daga) | 0,5% | 1,0% | 0,9% | 1,5% |
Stöðugildi | 948 | 998 | 997 | 1.012 |
* Leiðrétt arðsemi eftir skatta = (Hagnaður eftir skatta – jákvæðar virðisbreytingar eftir skatta – skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja – hagnaður af aflagðri starfsemi eftir skatta) / meðalstaða eigin fjár.
** Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur / meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld / meðalstaða heildarskulda).
*** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).
Símafundur vegna uppgjörs
Símafundur fyrir markaðsaðila vegna uppgjörs bankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018 verður haldinn kl. 10.00, föstudaginn 26. október. Fundurinn fer fram á ensku. Skrá þarf þátttöku með því að senda tölvupóst á netfangið ir@landsbankinn.is.