Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 23. mars 2022, samþykkti að greiða 14.409 milljónir króna í arð til hluthafa. Arðgreiðslan samsvarar um 50% af hagnaði ársins 2021. Einnig var samþykkt sérstök arðgreiðsla að fjárhæð 6.141 milljón króna. Samtals greiðir bankinn því 20.550 milljónir króna í arð á árinu. Heildararðgreiðslur bankans frá 2013-2022 nema þar með 166,7 milljörðum króna.
Aðalfundur bankans var haldinn með rafrænum hætti og var sendur út frá fundarsal bankans í Austurstræti 11.
Á fundinum flutti Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, skýrslu bankaráðs fyrir árið 2021 og Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, fjallaði um rekstur, stefnu og starfsemi bankans. Ársreikningur fyrir liðið starfsár var samþykktur, sem og tillögur um starfskjarastefnu og um kjör bankaráðsmanna. Fundurinn kaus ríkisendurskoðanda sem endurskoðanda bankans en ríkisendurskoðandi hefur í samræmi við heimildir sínar til að útvista verkefnum tilnefnt endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers til að annast endurskoðun ársreikninga bankans fyrir árið 2022.
Eftirtalin voru kjörin aðal- og varamenn í bankaráð fram að næsta aðalfundi:
Aðalmenn:
- Helga Björk Eiríksdóttir (formaður)
- Berglind Svavarsdóttir
- Elín H. Jónsdóttir
- Guðbrandur Sigurðsson
- Guðrún Blöndal
- Helgi Friðjón Arnarson
- Þorvaldur Jacobsen
Varamenn:
- Sigríður Olgeirsdóttir
- Sigurður Jón Björnsson