Lands­bank­inn hagn­að­ist um 36,5 millj­arða króna árið 2015

Hagnaður Landsbankans á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna, eftir skatta. Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 14,8% á árinu 2015, samanborið við 12,5% árið 2014.
Höfuðstöðvar Landsbankans Austurstræti 11
25. febrúar 2016 - Landsbankinn
  • Kostnaðarhlutfall Landsbankans lækkaði verulega á milli ára, tekjur jukust umtalsvert og kostnaður lækkaði.
  • Tekjur vegna virðisbreytingar útlána nema 13,5 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 14,9 milljarða króna ári fyrr.
  • Eigið fé Landsbankans nam 264,5 milljörðum króna í árslok 2015 og eiginfjárhlutfallið (CAR) var 30,4%.
  • Lagt verður til við aðalfund að greiddur verði 28,5 milljarða króna arður til hluthafa.

Ársreikningur samstæðu 2015

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Upplýsingablað

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 29,7 milljarða króna á árinu 2014. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 14,8% á árinu 2015, samanborið við 12,5% árið 2014.

Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði verulega milli ára eða úr 56% árið 2014 í 43,8% árið 2015.

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, kynnir afkomu bankans á árinu 2015 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma (04:38):

Tekjur bankans jukust töluvert frá fyrra ári vegna aukinna umsvifa og hagstæðrar þróunar á fjármálamörkuðum. Útlán jukust um 13% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn stækkaði innan við 2%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 4 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 17% á milli ára. Kemur það til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum en á sama tíma hefur kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta aukist.

Þá aukast aðrar rekstrartekjur um tæpa 6 milljarða króna vegna hagfelldrar þróunar á verðbréfamörkuðum og söluhagnaðar eigna.

Hreinar virðisbreytingar útlána skila tekjufærslu upp á 18 milljarða króna í uppgjörinu, fyrir skatta. Ástæðan er bakfærsla á eldri varúðarfærslu vegna óvissu sem var um gengistryggð lán, en er nú að baki, og vegna aukinna gæða útlána bankans. Líkt og á árinu 2014 hafa jákvæðar virðisbreytingar því töluverð áhrif á hagnað bankans en árið 2014 var tekjufærsla vegna virðisbreytinga útlána 2 milljörðum króna hærri, eða um 20 millarðar króna fyrir skatta.

Laun og annar rekstrarkostnaður lækkaði um 1,5% frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 1% en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 5%.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2015 var 48,9 milljarðar króna samanborið við 39,5 milljarða króna 2014. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, eru 13,1 milljarður króna í uppgjöri fyrir 2015 samanborið við 10,5 milljarða króna árið 2014.

Heildareignir Landsbankans hækkuðu um 20,3 milljarða á milli ára og í árslok 2015 námu eignir bankans alls 1.119 milljörðum króna. Útlán jukust um 93 milljarða króna en aukningin er að stærstum hluta vegna aukinna íbúðarlána til einstaklinga ásamt auknum lánveitingum til fyrirtækja. Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka en það var 1,8% í lok árs 2015, samanborið við 2,3% í lok árs 2014.

Í árslok 2015 voru innlán frá viðskiptavinum 559 milljarðar króna, samanborið við 551 milljarð í árslok 2014. Innlán jukust um 8 milljarða króna á árinu þrátt fyrir verulegt útflæði innlána til fjármálafyrirtækja í slitameðferð fyrir árslok 2015.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2015 var 264,5 milljarðar króna, tæplega 14 milljörðum króna hærra en í árslok 2014, þrátt fyrir að í mars 2015 hafi Landsbankinn greitt 23,7 milljarða króna í arð til hluthafa.

Eiginfjárhlutfall (CAR) Landsbankans í árslok 2015 var 30,4% og hækkaði um tæplega 1 prósentustig frá fyrra ársuppgjöri. Eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins til Landsbankans er nú 21,8%.

Lagt verður til við aðalfund, sem hefur verið færður til 14. apríl 2016, að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 1,2 krónum á hlut, eða samtals 28,5 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur tæplega 80% af hagnaði ársins 2015.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir:

„Landsbankanum gekk vel á árinu 2015 og það var góður gangur á nánast öllum sviðum. Tekjur bankans jukust töluvert frá fyrra ári og um leið lækkuðu rekstrargjöld. Dregið hefur úr óvissu og áhættu hjá bankanum. Gæði eigna hafa aukist og fjármögnun bankans hefur styrkst með betra aðgengi að innlendum og erlendum lánamörkuðum. Lausafjárstaðan er sterk auk þess sem eiginfjárstaða bankans er hlutfallslega með því hæsta sem þekkist, þrátt fyrir háar arðgreiðslur. Samþætting Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands við bankann gekk vel og styrkir Landsbankann enn frekar á landsbyggðinni.

Arðsemi eiginfjár bankans á undanförnum árum hefur verið góð og fór árið 2015 vel fram úr væntingum. Stórir og óvenjulegir liðir hafa þar haft töluverð áhrif. Þar er fyrst og fremst átt við tekjufærslur vegna virðisbreytingar útlána, en á árinu 2015 voru áhrif þeirra 13,5 milljarðar króna á hagnað eftir skatta og á árinu 2014 voru áhrifin um 14,9 milljarðar króna eftir skatta. Viðbúið er að hagnaður muni lækka töluvert á næstunni þar sem ekki er reiknað með áhrifum af þessum óvenjulegu liðum í rekstri bankans til framtíðar.

Stefna Landsbankans er að vera öflugur samherji viðskiptavina í fjármálum og að viðskiptavinir, eigendur og samfélagið allt njóti ávinnings af starfi bankans. Bankinn leggur áherslu á hagkvæman og skilvirkan rekstur og að arðsemin sé ásættanleg, þegar stórum og óvenjulegum liðum sleppir. Á sama tíma er það okkur kappsmál að veita viðskiptavinum fyrirmyndarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.

Í upphafi ársins 2015 setti Landsbankinn sér nýja og metnaðarfulla stefnu til ársins 2020. Markvisst hefur verið unnið að því að innleiða stefnuna og lagt er mat á árangurinn með reglulegum hætti. Stefnan hefur þegar skilað eftirtektarverðum árangri, bæði fyrir viðskiptavini og fyrir bankann, og þessi árangur hefur að hluta komið fram í góðu uppgjöri bankans fyrir árið 2015.“

Helstu atriði úr rekstri á 4. ársfjórðungi (4F) 2015

  • Hagnaður Landsbankans á 4. ársfjórðungi nam rúmlega 12 milljörðum króna, samanborið við 9,8 milljarða króna á 4F 2014.
  • Arðsemi eiginfjár hækkar talsvert á milli tímabila og var 18,6%, samanborið við 15,9% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 5,9 milljarða króna á 4F 2015 en þær námu 6,1 milljarði króna á 4F 2014.
  • Hreinar vaxtatekjur voru 7,3 milljarðar króna en þær námu 5,8 milljörðum króna á 4F 2014.
  • Hreinar þjónustutekjur voru 1,7 milljarðar króna en þær voru 1,6 milljarðar króna á 4F 2014.

Helstu atriði úr rekstri og efnahag árið 2015

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna, samanborið við 29,7 milljarða króna á árinu 2014.
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta hækkar, þrátt fyrir hækkun eiginfjár. Arðsemin var 14,8% samanborið við 12,5% árið 2014.
  • Hreinar vaxtatekjur hækka um 4,3 milljarða króna frá fyrra ári. Þær námu 32,3 milljörðum króna á árinu 2015 samanborið við 28 milljarða króna á árinu 2014.
  • Vaxtamunur eigna og skulda hækkar á milli ára, munurinn var 1,9% árið 2014 en 2,2% árið 2015.
  • Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 17% á milli ára, einkum vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum. Breytingar á kortamarkaði stuðluðu einnig að hækkun á þjónustugjöldum en á sama tíma hefur kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta hækkað.
  • Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 18,2 milljarða króna á árinu 2015 sem skýrist einkum af fordæmisgildi dóma sem féllu í Hæstarétti í málum nr. 34/2015 og 35/2015 og dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember 2015 og janúar 2016. Bakfærsla varúðar vegna gengislána til fyrirtækja á árinu 2015 skýrir jákvæða virðisbreytingu útlána upp á 13,8 milljarða króna.
  • Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 1% á árinu 2015, sem einkum má rekja til samningsbundinna hækkana.
  • Kostnaðarhlutfall lækkar milli ára, úr 56% árið 2014 í 43,8% árið 2015.
  • Á árinu 2015 sameinuðust Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Norðurlands Landsbankanum. Þrátt fyrir áhrif þessara samruna lækkaði rekstrarkostnaður bankans samtals um 1% á milli ára.
  • Stöðugildum í Landsbankanum fækkaði um 63 á árinu 2015 og voru 1.063 í árslok. Að teknu tilliti til samruna við önnur fjármálafyrirtæki hefur stöðugildum í Landsbankanum fækkað um 21,1% frá árinu 2011.
  • Skattar Landsbankans á árinu 2015 voru 13,1 milljarðar kr. samanborið við 10,5 milljarða kr. á árinu 2014.

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans í árslok 2015 var 264,5 milljarðar króna, tæplega 14 milljörðum króna hærra en það var í árslok 2014, þrátt fyrir að í mars 2015 hafi Landsbankinn greitt 23,7 milljarða króna í arð til hluthafa.
  • Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) er hátt og verulega umfram 21,8% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins. Eiginfjárhlutfallið var 30,4% í lok árs 2015 en var 29,5% í lok árs 2014.
  • Heildareignir bankans námu 1.119 milljörðum króna í lok árs 2015 og hækka um tæplega 2% á milli ára.
  • Landsbankinn hefur lánað 225 milljarða króna í ný útlán á árinu en vegna afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta aukast heildarútlán um samtals 93 milljarða króna og nema heildarútlán 811 milljörðum króna í lok ársins 2015.
  • Innlán viðskiptavina, fyrir utan fjármálafyrirtæki jukust um 1,4% á árinu 2015 eða um 7,6 milljarða króna.
  • Lausafjárstaða bankans er sterk sem fyrr, jafnt í erlendri mynt sem í íslenskum krónum, og er vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Lausafjárhlutfall (LCR) var 113% í lok árs 2015.
  • Gjaldeyrisjöfnuður bankans er sterkur en eignir í erlendri mynt eru um 23,8 milljörðum króna umfram skuldir í erlendri mynt.
  • Á árinu 2015 lækkar liðurinn eignir til sölu um 6,3 milljarða króna. Heildarvanskil fyrirtækja og heimila lækkuðu í 1,8% í lok árs 2015, úr 2,3% í lok árs 2014. Vanskilahlutfallið var 5,8% í lok árs 2013.
  • Á árinu 2014 seldi Landsbankinn 38% eignarhlut sinn í Valitor Holding hf. til Arion banka hf. Auk peningagreiðslu upp á 3,6 milljarða króna gerðu bankarnir með sér samkomulag um viðbótargreiðslu kaupverðs. Samkomulagið var háð þeim skilyrðum að Valitor, eða dóttufélög Valitor, fengju greiðslur frá Visa Europe vegna valréttarsamnings milli Visa Europe og Visa Inc. Valrétturinn var virkjaður undir lok árs 2015. Komið hefur fram í tilkynningu frá Visa Inc. að greiðslan fyrir Visa Europe verði í þrennu lagi. Landsbankinn hefur lagt mat á gangvirði viðbótargreiðslunnar og tekjufært 2,4 milljarða króna í ársreikning fyrir árið 2015, en nánar er gert grein fyrir tekjufærslunni í skýringu 24 í ársreikningi bankans.
Helstu niðurstöður (m. kr.) 2015 2014 4F 2015 4F 2014
Hagnaður eftir skatta 36.460
29.737 12.047 9.752
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 14,8%
12,5% 18,6% 15,9%
Leiðrétt arðsemi eftir skatta * 10,6%
7,5% 12,8% 9,2%
Vaxtamunur eigna og skulda ** 2,2%
1,9% 1,9% 1,5%
Kostnaðarhlutfall *** 43,8%
56,0% 39,1% 57,7%

  31.12.15 31.12.14 30.09.15 30.06.15
Heildareignir 1.118.658
1.098.370 1.175.804 1.172.669
Útlán til viðskiptavina 811.549
718.355 807.033 761.290
Innlán frá viðskiptavinum 559.051
551.435 624.924 621.023
Eigið fé 264.531 250.803 252.484 239.852
Eiginfjárhlutfall (CAR) 30,4% 29,5% 29,2% 28,0%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 136%
134% 120% 139%
Heildarlausafjárþekja 113% 131% 109% 119%
Lausafjárþekja erlendra mynta 360% 614% 190% 377%
Gjaldeyrisjöfnuður 23.795 20.320 22.842 19.446
Vanskilahlutfall (>90 daga) 1,8%
2,3% 2,0% 2,3%
Stöðugildi 1.063
1.126 1.092 1.088
Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
13. des. 2024
Góð kjör í útgáfu víkjandi skuldabréfa
Landsbankinn lauk í dag útboði víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar 2 (e. Tier 2).
Austurbakki
23. okt. 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 nam 26,9 milljörðum króna eftir skatta, þar af 10,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 11,7% samanborið við 10,5% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur