Landsbankinn gefur út skuldabréf í evrum
Skuldabréfin voru seld til breiðs hóps fjárfesta á Bretlandi, meginlandi Evrópu, Norðurlöndunum og Asíu. Alls bárust tilboð fyrir tæplega 700 milljónir evra sem nemur meira en tvöfaldri umframeftirspurn, frá yfir 80 fjárfestum. Skuldabréfin eru gefin út undir Euro Medium Term Note (EMTN) skuldabréfaramma Landsbankans og verða bréfin skráð í kauphöllina á Írlandi þann 14. mars næstkomandi.
Landsbankinn mun nýta andvirði útgáfunnar til þess að fyrirframgreiða óhagkvæmari erlenda fjármögnun ásamt því að styrkja enn frekar lausafjárstöðu bankans.
Umsjónaraðilar útboðsins voru Bank of America, Barclays, Citigroup og JP Morgan.
Hreiðar Bjarnason, fjármálastjóri Landsbankans:
„Útgáfan í dag er einkar ánægjuleg. Fyrir það fyrsta eru kjörin hagstæðari en íslenskir bankar hafa séð á alþjóðlegum markaði á undanförnum árum, í öðru lagi heldur áfram að fjölga í hópi fjárfesta sem sjá tækifæri í að fjárfesta í skuldabréfum íslenskra fjármálafyrirtækja og í þriðja lagi er þetta lengsta útgáfan sem Landsbankinn hefur gefið út.
Hagstæðari kjör og mikill áhugi erlendra fjárfesta endurspegla vaxandi tiltrú þeirra á Landsbankanum og íslensku efnahagslífi. Ásættanleg kjör í alþjóðlegum samanburði gera Landsbankanum enn betur kleift að halda áfram öflugum stuðningi við íslenskt atvinnulíf.“
Ítarlegar upplýsingar um Landsbankann eru aðgengilegar fyrir fjárfesta og aðra áhugasama á landsbankinn.is/fjarfestar.