Fjöldi nýjunga í stafrænni þjónustu
Sjaldan eða aldrei hafa orðið jafnmiklar breytingar á þjónustu Landsbankans og á árinu 2018. Bankinn kynnti þá um 20 nýjungar í stafrænni þjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Fjölmörg erindi sem áður kröfðust heimsóknar í útibú er nú hægt að leysa í sjálfsafgreiðslu hvenær sem viðskiptavinum hentar. Í ársskýrslunni er m.a. fjallað um þessar nýjungar, s.s. nýtt Landsbankaapp, kortaapp bankans sem gerir viðskiptavinum kleift að greiða með símanum, rafrænt greiðslumat og rafrænt lánaumsóknarferli.
Mesta markaðshlutdeild og ánægðari viðskiptavinir
Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2018. Markaðshlutdeild Landsbankans á bankamarkaði hefur aukist jafnt og þétt og er sú mesta á landinu, fimmta árið í röð. Hlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mælist nú 37,8% og 34% á fyrirtækjamarkaði. Ánægja með þjónustuna mælist hærri en fyrr, traust til bankans hefur vaxið og kannanir Gallup sýna að viðskiptavinir Landsbankans eru líklegri til að mæla með sínum banka en viðskiptavinir annarra banka.
Í ársskýrslunni er umfjöllun um fjölbreytta þjónustu bankans við einstaklinga og fyrirtæki um allt land, stefnu bankans og markmið. Fjallað er um samfélagsábyrgð, mannauðs- og jafnréttismál og stuðning bankans við samfélagið. Þar er sömuleiðis umfjöllun um fjármál og fjármögnun bankans, áhættustjórnun og ýmislegt fleira.
Ársskýrslan eingöngu rafræn frá 2015
Ársskýrsla Landsbankans hefur eingöngu verið gefin út á rafrænu formi frá árinu 2015. Markmiðið með rafrænni útgáfu er að auka gagnsæi og auðvelda almenningi og öðrum hagsmunaaðilum að kynna sér rekstur og starfshætti bankans. Útgáfukostnaður er lægri og útgáfan umhverfisvænni.