Landsbankinn hefur fengið uppfært UFS- áhættumat frá Sustainalytics og heldur bankinn sér í flokknum hverfandi áhætta með einkunnina 9,9 á skala sem nær upp í 100. Þetta þýðir að Sustainalytics telur hverfandi áhættu á að Landsbankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS-þátta).
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans:
„Við erum gríðarlega stolt af því að halda okkur í lægsta áhættuflokki Sustainalytics. Landsbankinn er leiðandi banki. Við lítum á það sem meginhlutverk okkar að veita því samfélagi sem við störfum í frábæra alhliða bankaþjónustu á samkeppnishæfum kjörum. Til að bankinn sé leiðandi er grundvallaratriði að reksturinn sé traustur til lengri tíma og að bankinn sé í stakk búinn til að mæta mögulegum sveiflum og áföllum. Það er hvergi mikilvægara en í því litla landi sem við búum að leiðandi fyrirtæki hlúi að fleiri þáttum í umhverfi sínu en snúa að kjarnastarfsemi og taki þátt í að efla og stækka íslenskt samfélag. Leiðandi fyrirtæki skilja ekki eftir sig sviðna jörð heldur stuðla að sjálfbærni hjá sér og öðrum. Leiðandi fyrirtæki búa vel að starfsfólki sínu. Við höfum náð mjög góðum árangri undanfarin ár og það skiptir okkur máli hvernig það er gert. Við erum alltaf með augun á rekstrinum og afkomunni, en líka á viðskiptavinum, starfsfólki, þátttöku okkar í samfélaginu og áhrifum á umhverfi.“
Nánar um áhættumat Sustainalytics
UFS-áhættumat metur áhættu og áhættustýringu fyrirtækis í tengslum við umhverfismál og félagslega þætti, auk stjórnarhátta. Aðferðafræðin metur umfang mikilvægrar UFS-áhættu sem áhættustýring fyrirtækis nær ekki til. Því meiri áhætta sem fellur utan áhættustýringarramma fyrirtækis, því hærra er áhættumatið.
Sustainalytics hefur nú mælt UFS-áhættu fyrirtækja í tæpa þrjá áratugi og er meðal þeirra alþjóðlegu matsfyrirtækja sem fjárfestar horfa helst til þegar UFS-áhætta fyrirtækja er skoðuð.