Svanni veit­ir góð­um hug­mynd­um kvenna braut­ar­gengi

 „Svanni eflir konur í fyrirtækjarekstri og gerir þeim kleift að framkvæma góðar hugmyndir. Þannig stuðlar hann að nýsköpun og blómlegu atvinnulífi,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, stjórnarformaður Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna. Landsbankinn er bakhjarl sjóðsins sem hefur opnað fyrir umsóknir.
Guðrún Tinna Ólafsdóttir
18. janúar 2021

„Á hverju ári kemur mikill fjöldi kvenna fram með spennandi hugmyndir að nýjum verkefnum og fyrirtækjum. Þrátt fyrir góða viðskiptahugmynd nær eingöngu lítill hluti nýstofnaðra fyrirtækja að fjármagna sig og komast á legg. Veigamesta ástæðan fyrir stofnun Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna var sú að samkvæmt rannsóknum eru konur almennt mun ragari við að taka lán og veðsetja eigur sínar til að hrinda hugmynd sinni í framkvæmd. Mikil þörf var því á sjóði, eingöngu ætluðum konum, sem myndi veita þeim gott brautargengi,“ segir Guðrún Tinna.

Svanni er í eigu forsætisráðuneytisins, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar og á í góðu samstarfi við Landsbankann. „Það er afar dýrmætt að hafa svo traustan bakhjarl í lánastofnun sem skilur þennan viðskiptavinahóp og er reiðubúin að veita þeim lán með lánatryggingu í samstarfi við Svanna. Starfsfólk bankans er líka virkilega áhugasamt um að lesa yfir umsóknir þeirra fjöldamörgu nýju fyrirtækja sem óska eftir samstarfi og leiðbeina til dæmis um hvað betur megi fara til að umsókn verði samþykkt. Í framhaldi af lánatryggingu hefur Landsbankinn stofnað til enn frekari viðskiptasambanda við lántaka Svanna um land allt sem munu án efa halda áfram að vaxa og dafna í framtíðinni.“

Nýsköpun og atvinnusköpun haldast í hendur

Nú þegar hafa tugir fyrirtækja í meirihlutaeigu kvenna notið liðsinnis Svanna. Þar á meðal eru heilsuvöruframleiðandinn GeoSilica og fæðingarþjónustan Björkin, sem hægt er að kynna sér í myndböndunum hér að neðan. „Fyrirtækin eru afar fjölbreytt, af öllum stærðum og gerðum og hvaðanæva af landinu. Flest þeirra eru rétt að byrja en önnur hafa yfir tugmilljóna króna veltu. Nokkur dæmi eru jafnframt um fyrirtæki sem hafa fengið lán hjá okkur oftar en einu sinni og höfum við því fengið að fylgjast með þeim vaxa og dafna. Svanni hefur framkvæmt könnun hjá lánþegum sjóðsins. Þar kemur skýrt fram að hátt hlutfall lánþega telji sig ekki hafa haft aðgang að fjármagni annars staðar og að lánatrygging Svanna hafi skipt þær lykilmáli við að koma hugmynd sinni í verk. Lánin eru á bilinu þrjár til tíu milljónir og er óhætt að segja að þau geti skipt sköpum fyrir minni fyrirtæki. Hugmyndin sem lánað er fyrir verður að veruleika sem skilar verðmætaaukningu og stuðlar að atvinnusköpun. Eftir efnahagshrunið 2008 var helsta markmið Svanna að efla nýsköpun en eftir mikla stefnumótunarvinnu á síðasta ári hefur áherslan nú færst yfir á að fjölga störfum þó svo að tengingin við nýsköpun sé ennþá sterk. Það er jú svo að nýsköpun og atvinnusköpun haldast yfirleitt í hendur. Með því að breyta um áherslu teljum við okkur geta átt í samstarfi við enn fleiri fyrirtæki því að erfitt er að meta hvað er nýtt undir sólinni. Mun auðveldara er að skoða viðskiptamódel út frá því hvort líkur séu á því að verðmætaaukning eigi sér stað, sem stuðlar að atvinnusköpun.“

Verkfærakista velgengninnar

Að sögn Guðrúnar Tinnu sýna rannsóknir að konur skorti því miður oft reynslu á þeirri verkfærakistu sem hjálpar til við að forgangsraða öllum þeim smáu skrefum og ákvörðunum sem koma góðri hugmynd yfir í arðbæran rekstur. Þar megi til dæmis nefna uppsetningu viðskiptamódels, markaðsáætlunar og endurgreiðsluáætlunar. „Forsenda þess að fá fjármagn frá annað hvort lánastofnun eða fjárfestum er að geta sett hugmynd sína agað á blað og reiknað út þau mögulegu verðmæti sem henni er ætlað að skapa fyrir alla hagsmunaaðila. Í framhaldi af lánatryggingu Svanna vonum við að flest þessara fyrirtækja eigi kost á því að sækja áframhaldandi fjármögnun hjá fjárfestum og/eða lánastofnunum. Hlutverk Svanna er þannig ekki einungis að lána fé til að komast yfir í næsta áfanga, heldur einnig að hjálpa þeim gegnum umsóknarferlið - að setja hugmynd sína á blað á markvissan hátt sem höfðar til fjárfesta. Það er hverju nýju fyrirtæki bæði hollt og nauðsynlegt að fara markvisst í gegnum það ferli. Fjárfestar hafa verið ragari við að veita lán til atvinnugreina sem þeir þekkja síður til, og fyrirtækja þar sem viðskiptamódelið er ekki skýrt. Það hefur að sama skapi komið greinilega í ljós að almennt er minni þekking innan banka, lánastofnana og meðal fjárfesta á sprotafyrirtækjum í þeim atvinnugreinum sem konur kjósa sér oft á tíðum. Þó svo að greinin sé kannski minna þekkt getur möguleikinn til vaxtar og verðmætaaukningar verið alveg jafnmikill.“

Svanni

Svanni auðveldar samtalið

„Starf mitt sem stjórnarformaður Svanna hefur gefið mér mjög mikið,“ segir Guðrún Tinna að lokum. „Til dæmis hef ég öðlast góða innsýn í enn fjölbreyttara atvinnulíf og sprotastarfsemi. Maður fyllist jákvæðni og bjartsýni við að sjá drifkraftinn í samfélaginu. Ég hefði ekki trúað því hversu mörg fyrirtæki í eigu kvenna eru að gera spennandi hluti um land allt. Ég finn líka að reynsla mín kemur að mjög góðum notum hjá Svanna. Ég hef unnið í bankastofnun, hef stofnað og rekið nýsköpunarfyrirtæki, ég hef setið í stjórnum lítilla og stórra fyrirtækja hér heima og erlendis, ásamt því að starfa fyrir hönd fjárfesta að kaupum og sölu á fyrirtækjum. Þannig bý ég yfir öllum þeim lykiltengingum sem þarf til að skilja umsækjendur sjóðsins, en ekki síður fjárfestana og kröfur og væntingar þeirra. Ég skil mikilvægi þess að tengja saman þessa aðila þannig að allir tali sama tungumálið. Segja má að hlutverk Svanna sé í raun og veru að auðvelda samtalið milli fyrirtækja og lánastofnana — og svo vonandi fjárfesta í framhaldinu.“

Upplýsingar um umsóknarfrest vegna lánatrygginga eru á atvinnumalkvenna.is.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
28. nóv. 2024
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Myndlistarsýning
17. ágúst 2023
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Sýningin Hringrás er úrval verka úr listasafni Landsbankans. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur