Svanni veitir góðum hugmyndum kvenna brautargengi
„Á hverju ári kemur mikill fjöldi kvenna fram með spennandi hugmyndir að nýjum verkefnum og fyrirtækjum. Þrátt fyrir góða viðskiptahugmynd nær eingöngu lítill hluti nýstofnaðra fyrirtækja að fjármagna sig og komast á legg. Veigamesta ástæðan fyrir stofnun Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna var sú að samkvæmt rannsóknum eru konur almennt mun ragari við að taka lán og veðsetja eigur sínar til að hrinda hugmynd sinni í framkvæmd. Mikil þörf var því á sjóði, eingöngu ætluðum konum, sem myndi veita þeim gott brautargengi,“ segir Guðrún Tinna.
Svanni er í eigu forsætisráðuneytisins, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar og á í góðu samstarfi við Landsbankann. „Það er afar dýrmætt að hafa svo traustan bakhjarl í lánastofnun sem skilur þennan viðskiptavinahóp og er reiðubúin að veita þeim lán með lánatryggingu í samstarfi við Svanna. Starfsfólk bankans er líka virkilega áhugasamt um að lesa yfir umsóknir þeirra fjöldamörgu nýju fyrirtækja sem óska eftir samstarfi og leiðbeina til dæmis um hvað betur megi fara til að umsókn verði samþykkt. Í framhaldi af lánatryggingu hefur Landsbankinn stofnað til enn frekari viðskiptasambanda við lántaka Svanna um land allt sem munu án efa halda áfram að vaxa og dafna í framtíðinni.“
Nýsköpun og atvinnusköpun haldast í hendur
Nú þegar hafa tugir fyrirtækja í meirihlutaeigu kvenna notið liðsinnis Svanna. Þar á meðal eru heilsuvöruframleiðandinn GeoSilica og fæðingarþjónustan Björkin, sem hægt er að kynna sér í myndböndunum hér að neðan. „Fyrirtækin eru afar fjölbreytt, af öllum stærðum og gerðum og hvaðanæva af landinu. Flest þeirra eru rétt að byrja en önnur hafa yfir tugmilljóna króna veltu. Nokkur dæmi eru jafnframt um fyrirtæki sem hafa fengið lán hjá okkur oftar en einu sinni og höfum við því fengið að fylgjast með þeim vaxa og dafna. Svanni hefur framkvæmt könnun hjá lánþegum sjóðsins. Þar kemur skýrt fram að hátt hlutfall lánþega telji sig ekki hafa haft aðgang að fjármagni annars staðar og að lánatrygging Svanna hafi skipt þær lykilmáli við að koma hugmynd sinni í verk. Lánin eru á bilinu þrjár til tíu milljónir og er óhætt að segja að þau geti skipt sköpum fyrir minni fyrirtæki. Hugmyndin sem lánað er fyrir verður að veruleika sem skilar verðmætaaukningu og stuðlar að atvinnusköpun. Eftir efnahagshrunið 2008 var helsta markmið Svanna að efla nýsköpun en eftir mikla stefnumótunarvinnu á síðasta ári hefur áherslan nú færst yfir á að fjölga störfum þó svo að tengingin við nýsköpun sé ennþá sterk. Það er jú svo að nýsköpun og atvinnusköpun haldast yfirleitt í hendur. Með því að breyta um áherslu teljum við okkur geta átt í samstarfi við enn fleiri fyrirtæki því að erfitt er að meta hvað er nýtt undir sólinni. Mun auðveldara er að skoða viðskiptamódel út frá því hvort líkur séu á því að verðmætaaukning eigi sér stað, sem stuðlar að atvinnusköpun.“
Verkfærakista velgengninnar
Að sögn Guðrúnar Tinnu sýna rannsóknir að konur skorti því miður oft reynslu á þeirri verkfærakistu sem hjálpar til við að forgangsraða öllum þeim smáu skrefum og ákvörðunum sem koma góðri hugmynd yfir í arðbæran rekstur. Þar megi til dæmis nefna uppsetningu viðskiptamódels, markaðsáætlunar og endurgreiðsluáætlunar. „Forsenda þess að fá fjármagn frá annað hvort lánastofnun eða fjárfestum er að geta sett hugmynd sína agað á blað og reiknað út þau mögulegu verðmæti sem henni er ætlað að skapa fyrir alla hagsmunaaðila. Í framhaldi af lánatryggingu Svanna vonum við að flest þessara fyrirtækja eigi kost á því að sækja áframhaldandi fjármögnun hjá fjárfestum og/eða lánastofnunum. Hlutverk Svanna er þannig ekki einungis að lána fé til að komast yfir í næsta áfanga, heldur einnig að hjálpa þeim gegnum umsóknarferlið - að setja hugmynd sína á blað á markvissan hátt sem höfðar til fjárfesta. Það er hverju nýju fyrirtæki bæði hollt og nauðsynlegt að fara markvisst í gegnum það ferli. Fjárfestar hafa verið ragari við að veita lán til atvinnugreina sem þeir þekkja síður til, og fyrirtækja þar sem viðskiptamódelið er ekki skýrt. Það hefur að sama skapi komið greinilega í ljós að almennt er minni þekking innan banka, lánastofnana og meðal fjárfesta á sprotafyrirtækjum í þeim atvinnugreinum sem konur kjósa sér oft á tíðum. Þó svo að greinin sé kannski minna þekkt getur möguleikinn til vaxtar og verðmætaaukningar verið alveg jafnmikill.“
Svanni auðveldar samtalið
„Starf mitt sem stjórnarformaður Svanna hefur gefið mér mjög mikið,“ segir Guðrún Tinna að lokum. „Til dæmis hef ég öðlast góða innsýn í enn fjölbreyttara atvinnulíf og sprotastarfsemi. Maður fyllist jákvæðni og bjartsýni við að sjá drifkraftinn í samfélaginu. Ég hefði ekki trúað því hversu mörg fyrirtæki í eigu kvenna eru að gera spennandi hluti um land allt. Ég finn líka að reynsla mín kemur að mjög góðum notum hjá Svanna. Ég hef unnið í bankastofnun, hef stofnað og rekið nýsköpunarfyrirtæki, ég hef setið í stjórnum lítilla og stórra fyrirtækja hér heima og erlendis, ásamt því að starfa fyrir hönd fjárfesta að kaupum og sölu á fyrirtækjum. Þannig bý ég yfir öllum þeim lykiltengingum sem þarf til að skilja umsækjendur sjóðsins, en ekki síður fjárfestana og kröfur og væntingar þeirra. Ég skil mikilvægi þess að tengja saman þessa aðila þannig að allir tali sama tungumálið. Segja má að hlutverk Svanna sé í raun og veru að auðvelda samtalið milli fyrirtækja og lánastofnana — og svo vonandi fjárfesta í framhaldinu.“
Upplýsingar um umsóknarfrest vegna lánatrygginga eru á atvinnumalkvenna.is.