Í Bankastræti er ekkert bankaútibú lengur og í allri miðborg Reykjavíkur er bara eitt útibú eftir. Það hvernig við sýslum með peningana okkar hefur breyst hratt og fyrir áratug stefndi hraðbyri í að Ísland yrði alfarið reiðufjárlaust. En frá árinu 2008 hefur seðlamagn í umferð aukist stöðugt og langt umfram verðbólgu.
Kortaþjóðin
Íslendingar hafa tekið greiðslukortum af öllum sortum opnum örmum og kortanotkun hefur aukist nánast viðstöðulaust síðan debetkortin voru kynnt til sögunnar fyrir tveimur áratugum.
Við greiðum með korti að meðaltali rúmlega einu sinni á dag og segjumst sjálf nota kort þrisvar sinnum oftar en reiðufé. Norðmenn eru eina þjóðin sem kemst nálægt Íslendingum hvað þetta varðar.
Íslendingar eiga reyndar heimsmet í kortanotkun og við erum ekki feimin við að nota kort í smæstu viðskiptum. Að því leyti leikur reiðufé í rauninni algjört aukahlutverk. Eftirspurn eftir reiðufé var lengi vel í góðu samræmi við þetta og dróst saman um árabil - allt fram til haustsins 2008 þegar hún stórjókst á nýjan leik.
Hvaðan kemur allt þetta reiðufé?
Fyrir fjármálahrunið árið 2008 var reiðufé bara lítið brot af heildarveltu peninga í landinu eða undir 3% af landsframleiðslu. Haustið 2008 tvöfölduðust seðlar og mynt í umferð. Fólk treysti beinhörðum peningum betur þegar það gaf á bátinn. Síðan þá hefur staðan batnað og traustið á fjármálakerfin aukist. Samt hefur aðeins um fimmtungur þess fjár sem tekið var út haustið 2008 skilað sér til baka.
![](/library/Images/Hvernig-notum-vid-peninga-i-dag/samy minimarkt.jpg)
Notkun reiðufjár í viðskiptumReiðufé í umferð var stöðugt um áratugi meðan notkun þess minnkaði stöðugt. Eftir fjármálahrunið jókst eftirspurn eftir reiðufé gífurlega.
Þetta heyrir sögunni til. Í dag nota næstum allir netbanka og um leið hefur hlutverk útibúsins breyst. Heimsóknir í banka eru færri og snúast um stærri hluti sem krefjast umræðu og ráðgjafar eins og lántökur, íbúðakaup eða lífeyrissparnaður.
Reiðuféð er líka nánast horfið úr útibúunum. Seðlarnir sem bætast við á hverju ári koma lítið við þar enda greiða fáir reikninga eða millifæra hjá gjaldkerum.
Þessi þróun er alls ekki séríslensk. Hin Norðurlöndin eru langt komin með að gera fjármálakerfin sín alveg rafræn og sömu sögu má segja víða um heim. Í Noregi og Svíþjóð eru flest bankaútibú reiðufjárlaus, sem hefur ekki bara dregið úr kostnaði heldur líka glæpum. Bankarán í Svíþjóð heyra nánast sögunni til. Staðan á Íslandi er þannig hliðstæð nágrönnum okkar nema þegar kemur að eftirspurn eftir reiðufé.
Langflestir Íslendingar segjast samt vera á móti því að reiðufé verði tekið endanlega úr notkun.