Bálkakeðjutæknin er í dag þekktust fyrir að vera á bak við rafeyrinn bitcoin. Tæknina er þó hægt að nýta á mörgum öðrum sviðum, t.d. til að rekja hvort barnaþrælkun hafi komið við sögu við framleiðslu á skóm, hvort notaði bíllinn sem þú hefur hug á að kaupa hafi oft þurft að fara á verkstæði eða hvort ávöxtur sé í raun lífrænt ræktaður. Með þessu móti stuðla bálkakeðjur að auknu trausti í viðskiptum. Mikil bylting getur orðið með tilkomu þessarar tækni.
Hvernig virkar bálkakeðja?
Heitið bálkakeðja gefur ágæta vísbendingu um hvernig tæknin virkar. Bálkakeðja er sívaxandi keðja af bálkum þar sem hver bálkur geymir dulkóðuð gögn um viðskipti eða aðrar upplýsingar. Upplýsingarnar geta t.a.m. verið gengi gjaldmiðils, sjúkraskrá eða eigendasaga bíls. Þegar viðskipti hafa átt sér stað myndast bálkur sem tengist við keðjuna á viðeigandi stað.
Ein helsta nýjungin sem felst í bálkakeðjutækninni er hvar og hvernig upplýsingarnar eru geymdar. Í dag eru upplýsingar sem þessar geymdar í tiltölulega fáum tölvum. Fari viðskipti á hinn bóginn fram í gegnum bálkakeðju eru upplýsingar um þau geymdar í gríðarstóru kerfi af samtengdum tölvum. Við það verður mun erfiðara fyrir tölvuþrjóta að brjótast inn í kerfið, t.d. til að breyta upplýsingum, þar sem allar tölvur innan kerfisins hafa afrit. Þrjótarnir þyrftu því að brjótast inn í þúsundir tölva til að geta átt við upplýsingar. Að auki eru upplýsingar aðgengilegri í bálkakeðju þar sem hver tölva býr yfir afriti af keðjunni og þar með afriti af öllum upplýsingum kerfisins.
Aukið öryggi
Þessi valddreifing og samstilling gerir það að verkum að enginn einn einstaklingur, stofnun eða fyrirtæki stjórnar upplýsingunum. Ef aðili selur eign með bálkakeðjutækni fá allir innan kerfisins upplýsingar um viðskiptin. Aðeins er haldið eitt (stórt) bókhald og sú staða að bókhald stemmi ekki á milli aðila heyrir því sögunni til.
Til að auka öryggi eru bálkakeðjur dulkóðaðar. Dulkóðun (e. cryptography) er stærðfræðileg aðferð sem er m.a. notuð til að halda upplýsingum leyndum og til að auðkenna aðila. Hver sá sem stundar viðskipti í gegnum bálkakeðju fær tvo lykla: Einn persónulegan rafrænan lykil sem tryggir að einungis sá eða sú sem á viðkomandi eign geti átt viðskipti með hana og annan opinberan lykil sem lætur alla aðra í kerfinu vita þegar viðskipti eiga sér stað.

Bálkakeðjur leyfa ekki að hróflað sé við viðskiptum sem þegar hafa átt sér stað. Það gerir það m.a. að verkum að nær ómögulegt er fyrir þrjóta að breyta viðskiptum eða reyna að selja sama hlutinn aftur með sviksamlegum hætti.
Öfgar fylgja námugreftri
Í fréttum er oft fjallað um svokallaðan bitcoin-námugröft sem stundaður er í gagnaverum, m.a. á Íslandi. Námugröftur nefnist ferlið við að búa til nýjan bálk við bálkakeðjuna. Þegar tilkynnt er um viðskipti í keðjunni, byrja tölvur í kerfinu að leysa stærðfræðidæmi sem byggja á þeim viðskiptum. Tölvan sem leysir dæmið tilkynnir lausnina í kerfið og viðskiptin eru samþykkt ef engin önnur tölva á upplýsingar um að búið sé að selja eignina nú þegar. Þetta kerfi kemur því í veg fyrir að eignir séu tvíseldar. Eigandi tölvunnar sem leysir dæmið fær í verðlaun 12,5 bitcoin en fjöldi „verðlauna-bitcoina“ fer fækkandi með tímanum, ásamt því að sífellt kröftugri tölvur þarf til að leysa dæmin. Ástæðan fyrir námugreftri er að koma í veg fyrir offramboð sem gæti grafið undan verðmæti gjaldmiðilsins.
Gallinn við námugröft er í fyrsta lagi að hann skilar mestum árangri í kraftmiklum tölvum sem eru dýrar og krefjast gríðarlega mikillar raforku. Til viðmiðunar er það rafmagn sem nú er verið að nota til að grafa eftir bitcoin sambærilegt við rafmagnsnotkun Austurríkis eða rafmagnsnotkun 6,7 milljóna bandarískra heimila og þessi þörf fer vaxandi.
Nánar er fjallað um bitcoin-námugröft í öðrum pistli á Umræðunni.
Annar ókostur bálkakeðjunnar er að viðskipti í gegnum hana ganga hægt fyrir sig, miðað við það sem almenningur er vanur en um 10 mínútur getur tekið fyrir viðskipti að ganga í gegn. Þessi ókostur skýrir m.a. hvers vegna ekki er raunhæft að nota dulkóðaðan rafeyri, s.s. bitcoin við dagleg innkaup enn sem komið er.
Eru bálkakeðjur framtíðin?
Mikið hefur verið fjallað um bálkakeðjutæknina og hún að einhverju leyti verið blásin upp. Líkt og gildir um önnur fyrirbæri sem fá svona mikinn meðbyr má búast við bakslögum. Undanfarið hafa m.a. heyrst gagnrýnisraddir um að ef bálkakeðja væri í raun og veru greiðslumáti framtíðarinnar, þá ætti hún nú þegar að hafa haslað sér stærri völl en raun ber vitni.
Yfirþyrmandi væntingar til nýrrar tækni eru ekki nýjar af nálinni í tæknigeiranum. Vænta má að í ár muni mikið af starfsemi sem byggja átti á bálkakeðju verða lögð niður en hæfustu fyrirtækin á þessu sviði munu þó halda áfram að starfa. Bálkakeðjutæknin er ekki fullkomin en það þarf hún heldur ekki að vera. Hún þarf bara að vera betri en sú tækni sem býðst í dag.
Höfundur lýkur BS-námi í hagfræði við Háskóla Íslands haustið 2018 og starfar í Hagfræðideild Landsbankans.









