Gulleggið - Skemmtilegur stökkpallur fyrir frumkvöðla
Gulleggið er ætlað ungum frumkvöðlum sem eru að stíga sín fyrstu skref og vilja fá aðstoð við að móta hugmyndir sínar og koma þeim í framkvæmd,“ segir Edit Ómarsdóttir verkefnastjóri hjá Icelandic Startups, sem stendur fyrir keppninni. „Gulleggið hefur verið haldið árlega frá árinu 2008, og hefur nú þegar reynst íslenskri nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi gríðarleg lyftistöng. Fjöldi farsælla fyrirtækja hefur sprottið upp úr þessum frjóa jarðvegi og náð verulega góðum árangri. Þar má nefna Meniga, Controlant, Pay Analytics og Róró sem framleiðir Lúlla dúkkuna sem stuðlar að bættum svefni ungbarna.“
Undanfarin ár hefur markvisst verið ýtt undir skapandi hugsun innan háskóla- og framhaldsskólasamfélagsins, að sögn Editar. „Eftir hrunið 2008 fór nýsköpun að blómstra og menn gerðu sér grein fyrir mikilvægi hennar við sköpun nýrra starfa og tækifæra. Þegar samfélagið lendir í krísu þarf að hugsa í lausnum. Þökk sé nútímatækni erum við ekki einangruð hér á Íslandi. Áhugavert er hversu mörg íslensk fyrirtæki hafa alþjóðleg umsvif. Keppni af þessu tagi hefur þannig verulega þýðingu. Ofantalin fyrirtæki eru góð dæmi um það og skapa nú dýrmæt störf sem koma efnahagslífinu til góða.“
Ómetanleg endurgjöf
Edit tekur fram að öllum sé velkomið að taka þátt. „Þó svo að hún sé fyrst og fremst miðuð við námsfólk er ekki gerð krafa um að allir meðlimir teymisins séu það. Misjafnt er líka hversu langt á veg viðskiptahugmyndir keppenda eru komnar. „Flestar eru enn í kollinum á þeim! Gulleggið er vettvangur til að móta þær betur og keyra í gang. Þar gefst tækifæri til að hitta reynslumikla mentora og fá ómetanlega endurgjöf. Reyndar þarf ekki einu sinni að vera með hugmynd til að taka þátt. Hægt er að skrá sig og fá tækifæri til að stökkva inn í teymi og nýta sína sérþekkingu. Þannig er að teymi geta verið einsleit – til að mynda allir úr tölvunarfræði en hins vegar vantar markaðsfræðing eða hönnuð.“
Tíu teymi keppa til úrslita ár hvert. Hópurinn í ár er óvenjufjölbreyttur og öflugur að sögn Editar. „Matur, umbúðir, hugbúnaður – keppnishugmyndirnar ná yfir afar breitt svið. Eitt teymanna er að þróa lífplast úr iðnaðarhampi og örverum og annað vinnur að flögum sem verða að skyri þegar þeim er blandað út í vatn. Einnig má nefna hugbúnað sem hjálpar fólki að tileinka sér umhverfisvænni lífsstíl.“
Þann 16. október munu teymin tíu fá tækifæri til að kynna hugmyndir sínar fyrir dómnefnd sem samanstendur af bakhjörlum og samstarfsaðilum. Sigurliðið fær eina milljón króna í verðlaun til að móta hugmyndina áfram. Einnig er fjöldi aukaverðlauna í boði.
Mikil viðurkenning og hvatning
Sjálf tók Edit þátt í Gullegginu árið 2019, ásamt Helgu Margréti Ólafsdóttur og Hafdísi Sæland, sem allar koma úr tölvunarfræði. Hugmynd þeirra gengur út á að gera dómsal í sýndarveruleika fyrir þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis. Þær komust í topp 10 og fengu auk þess viðurkenningu fyrir bestu stafrænu lausnina. Hugmynd þeirra er enn á góðu flugi, en meistaranemi í sálfræði við HR vinnur nú að rannsóknum á þessari nýstárlegu tækni. „Þessi góði árangur hafði verulega þýðingu fyrir okkur. Þarna var komin viðurkenning á því að við værum með eitthvað í höndunum sem samfélagið þarfnaðist. Ég horfði til þeirra fyrirtækja sem hafa lent í topp 10 og eru í dag meðal flottustu fyrirtækja landsins – án þess þó að hafa borið sigur úr býtum. Það er stórkostlegt að vera hluti af þessum hópi.“
Frá Gullegginu 2019
Tengslamyndun og lyftukvöld
Þátttaka í Gullegginu veitir frumkvöðlum fjölmörg tækifæri til að efla tengslanetið, hvort sem þeir komast í úrslit eður ei. „Áður en úrslitahópurinn er valinn fara fram vinnusmiðjur þar sem þátttakendur hitta reynslumikið fólk úr atvinnulífinu. Gulleggið væri jú ekki til nema með tilkomu bakhjarla og samstarfsaðila. Svo einfalt er það. Þeir færa fram sína reynslu og þekkingu bæði sem mentorar og fyrirlesarar. Þátttakendur fræðast meðal annars um gerð rekstraráætlana og hugverkaréttindi. Einnig fá þau þjálfun í að móta og kynna hugmyndir sínar. Allir eru boðnir og búnir til þessa að lyfta undir frumkvöðlastarf, enda er það atvinnulífinu svo mikilvægt.“
Á svokölluðum lyftukvöldum fá þátttakendur það krefjandi verkefni að kynna hugmynd sína á 60 sekúndum. „Pælingin er sú að ef þú hittir fjárfesti í lyftu þarftu að geta rakið hugmyndina þína á þessari stuttu leið. Í ár kom Covid-19 í veg fyrir lyftukvöldið en við dóum ekki ráðalaus. Við gáfum hverju teymi frjálsar hendur til að kynna sína hugmynd í myndbandi á Facebook. Útkoman var bæði skemmtileg og fjölbreytt.“
Vegna veirunnar skæðu misstu keppendur einnig af tækifærinu að hitta mentora og fyrirlesara augliti til auglitis. „Í staðinn fara fundir þeirra fram gegnum fjarfundabúnað. Það veitir frumkvöðlum á landsbyggðunum tækifæri til að taka þátt í fyrsta sinn sem er auðvitað hið besta mál. Við erum þakklát fyrir að hafa get nýtt okkur tæknina á þennan hátt og haldið keppnina á netinu.“
Vinnusmiðjur 2020
Vegna Covid-19 fóru vinnusmiðjurnar fram á netinu í ár
Lærdómur út í lífið
„Það skemmtilegasta við Gulleggið er að maður kynnist svo mörgu frábæru fólki, bæði þátttakendum, mentorum og fyrirlesurum – tengslanetið stækkar svo ótrúlega mikið. Tækifærin sem myndast í kjölfar keppninnar eru gríðarleg. Þetta er mjög góður stökkpallur fyrir frumkvöðla og hugmyndir þeirra til þess að koma sér á framfæri og ég tala nú ekki um reynsluna sem þú færð og allan lærdóminn sem þú tekur út í lífið. Sem frumkvöðull þá setur þú á þig marga mismunandi hatta, þú ert allt í senn stjórnandi, sérð um fjármálin, ráðningar, forritar og fleira. Þú þarft að geta tekist á við hinar ýmsu áskoranir sem geta verið miserfiðar. En það er líka það sem er svo ótrúlega skemmtilegt, allur þessi hraði og öll þessi hlutverk sem þú tekur að þér. Þetta er eitt skemmtilegasta tímabil sprotafyrirtækis og frumkvöðullinn þarf að sýna mikla þrautseigju og þolinmæði. Maður heyrir oft frumkvöðla tala um hversu mikið þau sakna þessa tímabils.”
Að lokum hvetur Edit fólk til að vera ófeimið að taka þátt í Gullegginu lumi það á góðri hugmynd. „Algengt er að fólk sé hikandi við að opinbera snjalla hugmynd svo að henni verði ekki stolið. En málið er að um leið og hugmynd er viðruð byrjar hún að mótast betur og í ljós kemur hvort hún sé áhugaverð eða ekki. Ef ekkert er varið í hana sparar maður sér tíma og fjármuni. Hlutirnir gerast ekki nema þú framkvæmir þá. Annars verður bara einhver annar fyrri til. Það er um að gera að bara fara af stað. Ekki láta neitt stöðva sig.“
Úrslit Gulleggsins voru birt 18. október 2020.