Áhrif tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves á íslenskt tónlistarlíf verða seint ofmetin. Erlendir blaðamenn, umboðsmenn, bókarar og útgefendur hafa flykkst hingað til lands haust eftir haust til að kynnast íslenskri tónlist og íslenskir tónlistarmenn hafa þannig fengið tækifæri til að spila fyrir nýjum eyrum. Margir hafa notið góðs af en listinn yfir hljómsveitir sem slógu fyrst í gegn á Iceland Airwaves er orðinn ansi langur.
„Þetta var risastórt tækifæri því ég var ekki búin að koma mér neitt á kortið sem tónlistarkona.“GDRN
Vandað sérstaklega til verka
Allt frá árinu 2014 hefur Landsbankinn framleitt myndbönd með ungu tónlistarfólki í aðdraganda hátíðarinnar. Ár hvert hefur verið lagt upp með að festa lifandi flutning efnilegrar hljómsveitar eða tónlistarfólks á myndband og vanda sérstaklega til verka. Tónlistarfólkið hefur fengið að starfa með fagmönnum á sviði myndbandagerðar og eignast þannig gott myndefni til eigin nota. Landsbankinn, tónlistarfólkið og Iceland Airwaves hafa svo dreift myndböndunum í sameiningu.
Hlutirnir eiga það til að gerast ansi hratt
Þegar þetta er skrifað hefur Landsbankinn framleitt þrjátíu myndbönd á sex ára tímabili í tengslum við Iceland Airwaves. Á vef verkefnisins hefur orðið til skemmtilegt safn myndbanda sem sýnir ungt tónlistarfólk, sem margt er þjóðþekkt í dag, snemma á ferlinum. Í myndbandinu hér að ofan líta Margrét Rán úr hljómsveitinni Vök, Guðrún Eyfjörð (GDRN) og Huginn um öxl og fjalla um hvernig aðstæður þeirra hafa breyst á þessum stutta tíma.
Þátttakendur í L+IA hafa fengið 47 tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna og hlotið 16.
Sex ár er kannski ekki langur tími, en þegar tónlistarfólk er að stíga sín fyrstu skref eiga hlutirnir það til að gerast ansi hratt. Það sést til dæmis á því að þeir 18 einstaklingar eða hljómsveitir sem hafa tekið þátt í samstarfinu hafa fengið samtals 47 tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna frá árinu 2014 og hlotið þau 16 sinnum. Það er ánægjuleg viðurkenning á starfi þessa fjölbreytta hóps sem á vafalítið eftir að setja mark sitt enn frekar á íslenska tónlist næstu ár og jafnvel áratugi.