Dýr­grip­ir varð­veitt­ir úr véla­safni Lands­bank­ans

Ólöf Vignisdóttir, safnafræðingur, tók að sér að leggja mat á varðveislugildi gripa í vélasafni Landsbankans. Í safninu voru gripir með mikið varðveislugildi, s.s. rúmlega 110 ára gamall peningakassi en einnig vélar og tæki sem eru til í fjölda eintaka víða um heim. Í þessari grein segir Ólöf frá vélasafninu og aðferðunum sem var beitt við grisjunina.
Búðarkassi úr vélasafni Landsbankans
19. apríl 2017 - Ólöf Vignisdóttir

Sumarið 2016 gerði Landsbankinn samning við Þjóðminjasafn Íslands um að safnið færi yfir vélasafn bankans og legði fram tillögur um hvaða muni skyldi varðveita hjá opinberum söfnum eða viðurkenndum áhugasamtökum. Vélasafn bankans varð til fyrir tilstuðlan nokkurra bankamanna sem höfðu ástríðu fyrir varðveislu tæknisögunnar og höfðu forgöngu um að varðveita gripi sem bankinn var hættur að nota. Töluvert magn gripa hafði safnast saman í gegnum tíðina og bankinn vildi í senn grisja vélasafnið og tryggja varðveislu muna sem hafa varðveislugildi.

Ég fékk þetta áhugaverða verkefni og vann það sem starfsmaður Þjóðminjasafnsins. Sérfræðingar safnsins komu að verkinu og ég studdist einnig mjög við upplýsingar um íslenska safngripi í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi. Til að fá yfirsýn yfir safneignina byrjuðum við á að gera heildstæðan lista yfir gripina. Alls voru 600 gripir í safneigninni en í mörgum tilfellum var í raun um sama gripinn að ræða, þ.e. vélar sem voru til í mörgum svipuðum eða samskonar eintökum. Sem dæmi má nefna að það voru yfir 120 ritvélar í safneigninni en mikið er til af samskonar ritvélum í öðrum söfnum landsins.

Söfn velja gripi eftir söfnunarstefnu

Söfn þurfa að vanda vel til valsins á gripum sem þau ætla að varðveita til framtíðar. Einstakir gripir sem falla undir söfnunarstefnu viðkomandi safns eru varðveittir en fjöldaframleiddir gripir með enga sérstaka sögu eða varðveislugildi eru grisjaðir út, þ.e. þeim er fargað eða þeir gefnir til nytjaverslana. Ekki er talin þörf á að varðveita gripi í mörgum eintökum og ekki er heldur talin þörf á að mörg söfn varðveiti sambærilega gripi. Ef ekki er gætt að þessu er hætt við að geymslur safna fyllist hratt. Það er ákveðin kúnst að finna út hvaða gripi á að varðveita. Um leið þarf að fara varlega í að grisja svo að merkilegir munir glatist ekki.

Auk þess að styðjast við gögn í Sarpi sendi ég erindi til safna um allt land til að fá þeirra álit. Eftir að búið var að skoða safneign innanlands voru safneignir fyrir utan landsteinana einnig kannaðar en þannig var vélasafnið sett í alþjóðlegt samhengi. Fljótt kom í ljós að óhætt var að grisja vélasafnið verulega. Niðurstaða mín var að leggja til að nokkrir dýrgripir úr vélasafninu yrðu varðveittir og hér á eftir fer umfjöllun um nokkra þeirra.

Vélar úr vélasafni Landsbankans

Vélar úr vélasafni Landsbankans

1. Smith & Corona rafmagnsritvél. Vél þessi var framleidd í Bandaríkjunum árið 1953. Umboðsaðili var Samband íslenskra samvinnufélaga.

2. Rofa ferðaritvél. Þýsk vél frá því um 1905. Hún er gott dæmi um vélar frá þessu tímabili. (Tækniminjasafn Austurlands)

3. National peningakassi. Keyptur til landsins af Sápuhúsinu í Austurstræti árið 1907. (Borgarsögusafn Reykjavíkur)

4. Blickensderfer ritvél. Vél þessi var framleidd í Bandaríkjunum í kringum 1893. Þessi vél er einn af fyrstu vísum kúluritvéla.(Skógasafn)

5. ADDI 7 reiknivél. Vél þessi var framleidd í Bandaríkjunum um 1895. Strimill er á vélinni sem varla hefur verið algengt á þessum tímum. Vélin er handknúin með sveif. (Skógasafn)

Merkir gripir úr safni Ernst J.O. Westlund

Tækni hefur átt stóran þátt í því að móta bankastarfsemi, bæði innan bankans og þjónustu bankans við viðskiptavini. Margar merkustu vélarnar í vélasafninu tilheyra þó safni sem ekki tengist starfsemi bankans. Hér er um að ræða vélasafn vélfræðingsins Ernst Josef Ossian Westlund (1897-1970) en Landsbankinn og Seðlabankinn keyptu safnið árið 1983. Westlund var fyrsti vélfræðingurinn hérlendis sem fékkst við viðgerðir á fíngerðum vélum og skrifstofutækjum. Westlund var fæddur í Limhamn í Svíþjóð. Hann var prentari að mennt og kom hingað til að starfa í Ísafoldarprentsmiðju árið 1920. Þar vann hann uns hann stofnaði „Ritvélaverkstæðið“ árið 1922 og var það fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar hér á landi.

Af lýsingu Morgunblaðisins 12. mars 1931 var verkstæði Westlunds í Þingholtsstræti hálfgerður töfraheimur: „Þegar maður kemur inn úr dyrunum hringja klukkur um alt húsið, hátt og lágt. Það minnir mann á einhverja leynikrá í skuggahverfum stórborga …. Þar eru alls konar vjelar eftir Westlunds-patenti, sem gera alskonar verk á augnabliki, hreifill úr gömlu bifhjóli, sem látinn er reka alskonar iðju, gaslampi sem bræðir alskonar málm, búinn til úr gömlum ljósmyndavjelarfæti …“.

Westlund var með umboð fyrir NCR-skrifstofuvélar og er merki fyrirtækisins í gluggunum

Miðstræti 12

Westlund var með umboð fyrir NCR-skrifstofuvélar og er merki fyrirtækisins í gluggunum.

Steingrímur Westlund, sonur Ossian, rak verkstæðið með föður sínum og tók við rekstrinum eftir hans dag. Hann er hér til vinstri á myndinni.

Verkstæði Westlunds

Steingrímur Westlund, sonur Ossian, rak verkstæðið með föður sínum og tók við rekstrinum eftir hans dag. Hann er hér til vinstri á myndinni.

Westlund var sannkallaður vélameistari. Honum var margt annað til lista lagt en hann sýndi m.a. sjónhverfingar á skemmtunum bæjarbúa. Gekk hann þá undir nafninu D‘Nultsewo (O. Westlund afturábak). Svo góður lásasmiður var Westlund að sagt var að ekki væri til sá peningaskápur sem hann gæti ekki opnað.

Margar af þeim vélum úr vélasafni Landsbankans sem verða framvegis varðveittar á söfnum eru úr vélasafni Westlunds. Má þar nefna annan af fyrstu National peningakössunum sem fluttir voru til landsins árið 1907 en hann var notaður í Sápubúðinni í Austurstræti í Reykjavík. Kassinn hefur nú verið gefinn til varðveislu á Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Elstu ritvélarnar í safni bankans frá 1890

Þegar Landsbankinn tók til starfa árið 1886 voru hjálpartækin ekki mörg og penninn mikilvægasta vinnutækið. Þetta átti eftir að taka breytingum fljótt og eru elstu ritvélarnar í vélasafni bankans frá 1890. Fljótlega bættust við vélar sem mátti nota til útreikninga, þ.e. maskínur sem hægt var að nota til samlagningar og frádráttar og voru þær nefndar samlagningarvélar, t.d. ADDI 7 reiknivél sem mynd er af hér að ofan. Síðar bættust við margföldunarvélar en það var ekki fyrr en upp úr miðri 20. öld að reiknivélar sem gátu allt í senn, lagt saman, dregið frá, margfaldað og deilt, litu dagsins ljós.

Ökuskírteini Westlunds

Ökuskírteini Westlunds 

Ökuskírteini Ossian Westlund frá árinu 1920.

Varla er eitt komið í gang fyrr en komin er gagnger breyting

Í Bankablaðinu árið 1957 segir um tæknivæðingu banka: „Bankarnir eru fljótir að tileinka sér það sem nýtt kemur og eru ótrauðir að leggja í breytingar sem miða til bóta. Segja má að breytingar í skrifstofutækni séu svo örar síðustu árin að vert sé eitt vel komið í gang þegar komin er gagnger breyting.“ Eru það orð að sönnu, því þegar Ísafjarðarútibúið opnaði í nýju og glæsilegu húsnæði árið 1958 vakti sérstaka athygli hversu tæknivætt það var. Þar voru t.d. fyrstu gjaldkeravélar bankans. Með þeim varð allt bókhald í útibúinu rafrænt og handskrifaðar reikningsútskriftir heyrðu sögunni til. Þessar bókhaldsvélar voru notaðar í bankanum allt til ársins 1985.

Rafreiknideild Landsbanks var stofnuð árið 1966 og ári síðar var tekið í notkun nýtt og fullkomið vélabókhald sem unnið var í IBM vél 360/20 . Þessi tölva var í notkun til ársins 1981. Daglegar færslur voru lesnar inn í kerfið með gataspjöldum og færðust af þeim á segulbönd sem voru hið endanlega geymsluform fyrir allar upplýsingar. Starfsmenn bankans nefndu tölvuna Kölska vegna þess að taktföst bankhljóð komu úr tölvunni þegar hún var að vinna úr gögnunum. Þess má geta að tölvan var fyrst 16 kb og var síðan stækkuð í 24 kb. Þetta má bera saman við snjallsíma sem gjarnan eru með 16 gígabæta minni sem er um það bil 700 sinnum stærra en var í þessari fyrstu tölvu bankans. Þessi tölva fyllti heilt herbergi og var mjög dýr fjárfesting. Vélabókhaldið jók hins vegar afköst og öryggi auk þess sem geymsla á gögnum varð hagkvæmari.

Árið 1974 tók svo Reiknistofa bankanna (RB) til starfa og var henni ætlað að annast öll þau verkefni er hagkvæmt þótti að tekin yrðu til rafreiknivinnslu í bönkunum. Árið eftir var tekin í notkun beinlínutenging frá útibúinu á Húsavík til RB. Þá gátu starfsmenn sent gögn eftir hvern vinnudag og fengið viðeigandi gögn til að vinna úr strax daginn eftir. Reiknistofa bankanna varð meginstoð í tækniþróun bankans og er enn.

Vélar í vélasafni Landsbankans

Vélar úr vélasafni Landsbankans

6. Burroughs US90 reiknivél. Innflutt af H. Benediktsson. (Byggðasafn Vestfjarða)

7. Einkaþjónn. Árið 1989 tók Landsbankinn í notkun fyrsta sjálfsafgreiðsluprentarann fyrir reikningsyfirlit. Til þess að nýta Einkaþjóninn þurfti aðeins að nota debetkort og PIN númer. Helstu aðgerðir sem í boði voru eru eftirfarandi: Yfirlit yfir einkareikninga og tékkareikninga, yfirlit yfir sparireikninga, yfirlit yfir erlenda gjaldeyrisreikninga og gengiskráning dagsins. (Landsbankinn)

8. Alpina ritvél. Framleiðsluland: Sviss. (Byggðasafn Vestfjarða)

9. 7 IBM 3741 gagnaskráningarvél (diskettuvél). Hinn 1. október 1976 var útibú Landsbankans á Húsavík tengt með fjarvinnslu við Reiknistofu bankanna og var það fyrsta bankaútibúið hér á landi sem tengt var með slíkum hætti. Að loknum ítarlegum athugunum sem hófust árið 1975 var tekin á leigu IBM 3741 gagnaskráningarvél með útbúnaði til símsendinga svo og IBM 3715 prentari. Vélunum var komið fyrir í útibúinu á Húsavík og samskonar vélum í húsakynnum Reiknistofu bankanna. (Landsbankinn)

Fyrsti hraðbankinn tekinn í notkun 1984

Þróun fjarskiptatækninnar kom að góðum notum í bankastarfi og bankinn nýtti sér hana í vöruþróun. Fyrsti hraðbankinn var tekinn í notkun árið 1984 og hann lagði grunninn að frekari sjálfsafgreiðslu viðskiptavina. Einkaþjónninn, sem er á mynd að ofan, kom í gagnið árið 1989 en hann var útstöð í beinlínuafgreiðslukerfinu og þar gátu viðskiptavinir prentað sjálfir út reikningsyfirlit með því að nota debetkort og PIN-númer.

Stefna bankans var að stuðla að aukinni sjálfsafgreiðslu og hún jókst mjög hratt á 10. áratug 20. aldar. Þá varð notkun greiðslukorta almenn og viðskiptavinir fengu aðgang að hraðbönkum og netbanka. Árið 1998 var farið að huga að nýjum afgreiðslukerfalausnum, svokölluðum framlínukerfum. Viðmótið keyrir á útstöð hjá hverjum gjaldkera fyrir sig og talar við einn afgreiðslukjarna. Afgreiðslukjarninn talar við gagnagrunn í útibúinu og sinnir samskiptum við Reiknistofu bankanna í gegnum miðlægan búnað. Á vissan hátt má segja að þar með ljúki áþreifanlegri vélasögu bankans því með þessu kerfi var áherslan færð frá vélunum yfir í hugbúnað og netvæðingu.

Vélasafn Landsbankans varðveitir mikið úrval gripa sem varpa ljósi á banka- og tæknisögu Íslands og sömuleiðis á verslunar- og viðskiptasögu þjóðarinnar. Fjögur söfn munu nú taka við alls 42 gripum úr vélasafninu: Borgarsögusafnið í Reykjavík, Byggðasafn Vestfjarða, Tækniminjasafn Austurlands og Skógasafn. Þá ætlar bankinn að varðveita 22 gripi og Skýrslutæknifélagið 9 gripi. Ég tel til fyrirmyndar að Landsbankinn hafi lagt í þessa rannsóknarvinnu til að koma sögulega mikilvægum gripum í framtíðarvarðveislu. Þessir gripir hafa mikið sögulegt gildi og þá verður að varðveita.

Þú gætir einnig haft áhuga á
2. jan. 2025
Listin sem rólegur þátttakandi í lífinu
Dagatal Landsbankans fyrir árið 2025 er skreytt myndum af vatni og ólíkum birtingarmyndum þess í daglegu lífi okkar. Við settumst niður með myndlistarmanninum á bak við verkin, Stefáni Óla Baldurssyni eða Stebba Mottu, og fengum hans innsýn í ferlið, verkin og vatnið.
Barn í jólaglugga
9. des. 2024
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
28. nóv. 2024
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur