Í huga margra, sérstaklega af yngri kynslóðinni, eru kaup á fyrstu íbúð nánast óyfirstíganlegt verkefni, enda er húsnæðisverð hátt. Yfirleitt er aðeins hægt að fá 85% af kaupverði íbúða að láni og afganginn þarf að útvega með öðrum hætti, annað hvort með því að spara eða fá aðstoð frá ættingjum eða öðrum.
Óhætt er að fullyrða að ein hagstæðasta leiðin til að spara fyrir útborgun í íbúð er að nota viðbótarlífeyrissparnað. Ekki er nóg með að slíkan sparnað er hægt að nota skattfrjálst til að greiða inn á íbúð heldur fæst líka framlag frá vinnuveitanda sem aðeins skilar sér ef launþeginn er skráður í viðbótarlífeyrissparnað. Skráning í slíkan sparnað jafngildir í raun kauphækkun. Það sem gerir viðbótarlífeyrissparnaðinn svona einstaklega góða sparnaðarleið er því tvennt. Annars vegar að enginn skattur er greiddur af þeim hluta launanna sem renna inn í viðbótarlífeyrissparnaðinn ef hann er nýttur til að kaupa íbúð. Hins vegar vegna þess að launagreiðandinn leggur til verulegan hluta af upphæðinni sem sparast. Í raun má því segja að bæði ríkið og vinnuveitandinn hjálpi til við íbúðarkaupin.
Hægt að safna fyrst og borga svo inn á lán
Einstaklingar sem ekki hafa áður keypt íbúð geta notað viðbótarlífeyrissparnað sinn til að safna fyrir útborgun eða nýta greiðslu inn á lán sem tryggð eru með veði í íbúðinni sem keypt er. Báða kostina má nýta á tíu ára tímabili. Þannig er mögulegt að safna fyrir útborgun í t.d. fimm ár og greiða svo inn á húsnæðislán í önnur fimm ár. Einnig er heimilt að safna fyrst, kaupa íbúð og greiða inn á lán, selja íbúðina, safna viðbótarlífeyrissparnaði og kaupa nýja íbúð innan árs frá því að fyrri íbúðin var seld.
Umsókn og ráðstöfun
Fyrsta skrefið til að safna fyrir íbúð með þessum hætti er að skrá sig í viðbótarlífeyrissparnað. Þegar svo kemur að úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum vegna kaupa á fyrstu íbúð þarf að senda rafræna umsókn um slíka ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar hjá ríkisskattstjóra innan tólf mánaða frá undirritun kaupsamnings. Sama gildir um ráðstöfun iðgjalda inn á húsnæðislán.
Viðbótarlífeyrissparnaður til húsnæðiskaupa
Einstaklingar mega nýta 500.000 krónur af viðbótarlífeyrissparnaði sínum á ári skattfrjálst til útborgunar í fyrstu íbúð en hjón og sambýlisfólk geta nýtt samtals eina milljón króna. Um er að ræða allt að 4% af launum frá launþega eða að hámarki 333.000 kr. og 2% frá launagreiðanda eða að hámarki 167.000 kr. Hámarksheimildin á því tíu ára tímabili sem heimildin gildir nemur því fimm milljónum króna hjá einstaklingi og tíu milljónum króna hjá hjónum og sambúðafólki. Til að fullnýta heimildina þurfa mánaðarlaun einstaklings að nema a.m.k. 694.000 krónum; í tilviki hjóna eða sambúðarfólks þurfa mánaðarlaun hvors aðila að nema a.m.k. 694.000 krónum.
Viðbótarlífeyrissparnaður greiddur inn á lán
Sambærilegar reglur gilda þegar viðbótarlífeyrissparnaður er nýttur skattfrjálst til greiðslu inn á lán. Þannig má nýta sparnaðinn í allt að tíu ár til að greiða inn á húsnæðislán sem tryggð eru með veði í fyrstu íbúð viðkomandi.
Reglubundinn sparnaður færir þig hraðar að markinu
Fyrir marga duga framangreindar leiðir um nýtingu viðbótarlífeyrissparnaðar til húsnæðiskaupa e.t.v. skammt. Hjá mörgum verður viðbótarlífeyrissparnaðurinn aldrei annað en hluti þeirrar fjárhæðar sem safna þarf í útborgun fyrstu íbúðar og því er nauðsynlegt að huga að öðrum sparnaði samhliða. Með því að leggja reglulega fyrir, samhliða viðbótarlífeyrissparnaði, myndast samlegðaráhrif sem geta stytt tímann sem það tekur að safna fyrir íbúð umtalsvert. Með forsjálni, skipulagningu og viðbótarframlagi verður draumurinn um eigið húsnæði kannski ekki svo fjarlægur eftir allt saman.
Ólafur Páll Gunnarsson er framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins.