Per­sónu­vernd barna - hvaða upp­lýs­ing­ar vinn­ur bank­inn um þig?

Allar upplýsingar um þig eða sem tengjast þér eru persónuupplýsingar, t.d. nafnið þitt, kennitalan, heimilisfang og símanúmer og jafnvel ljósmyndir af þér eða myndbönd. Persónuvernd þýðir að þú átt rétt á þínu einkalífi. Bankinn biður þig ekki um meiri upplýsingar en hann þarf.
27. janúar 2021 - Landsbankinn

Af hverju þarf bankinn persónuupplýsingar um þig?

Bankanum er skylt samkvæmt lögum að þekkja viðskiptavini sína. Þess vegna þarf hann að fá upplýsingar um nafnið þitt, aldur, hvar þú átt heima og hvernig hægt er að hafa samband við þig, t.d. ef stofnaður er reikningur í þínu nafni eða þú færð aðgang að netbanka/appi bankans. Einnig biður bankinn um afrit af skilríkjunum þínum ef þú átt gild skilríki, til dæmis vegabréf eða rafræn skilríki.

Hvernig notar bankinn persónuupplýsingarnar þínar?

Bankinn þarf mismunandi upplýsingar um þig eftir því hvaða þjónustu þú notar. Ungir viðskiptavinir bankans geta t.d. stofnað bankareikninga, fengið kort til að borga með, byrjað að spara, stofnað aðgang að netbanka og notað Landsbankaappið, allt eftir þörfum og aldri hvers og eins. Ef þú ert yngri en 13 ára þarf foreldri eða forráðamaður að stofna til viðskipta fyrir þig en eftir 13 ára aldur getur þú óskað eftir ákveðinni þjónustu án aðkomu foreldra. Bankinn notar upplýsingarnar um þig þegar það er nauðsynlegt svo þú getir notað þjónustuna eins og þér hentar. Það gilda alls konar lög um bankastarfsemi og upplýsingar þínar. Bankinn má ekki skoða eða nota upplýsingar þínar nema hafa góðu ástæðu til þess. Þær eru m.a. notaðar til þess að:

  • Kynnast þér áður en þú byrjar í viðskiptum eða hafa samband við þig síðar.
  • Leyfa þér að nota vörurnar okkar eins og bankareikning, kort, netbanka og öpp eða hjálpa þér á annan hátt ef þú óskar eftir því.
  • Fylgja lögum og reglum sem gilda um bankann og starfsemi hans til þess að tryggja öryggi þitt og upplýsinga þinna.
  • Hjálpa bankanum að búa til betri vörur og þjónustu, t.d. fyrir ungt fólk.

Bankinn notar upplýsingarnar þínar aðeins eins og hann má samkvæmt lögum og eins og þú eða foreldrar þínir hafið leyft okkur að gera. Foreldrar eða forsjáraðilar hafa umsjón með fjármálum þínum ef þú ert undir 18 ára. Í þeim tilgangi fá forsjáraðilar lesaðgang að innlánsreikningum þínum og geta óskað eftir öðrum upplýsingum um þig hvenær sem er og bankinn verður oftast að afhenda þær.

Hvaðan fær bankinn upplýsingar um þig?

Stærstur hluti af upplýsingum sem bankinn notar koma frá þér þegar þú byrjar í viðskiptum. Bankinn fær ýmsar aðrar upplýsingar um þig þegar þú notar þjónustuna okkar eins og bankareikninga, kort eða app en þá verða til meiri upplýsingar um þig, sem bankinn verður að geyma. Þegar þú borgar með korti eða með símanum þá sér bankinn í hvaða búð þú ert og hvað þú eyðir miklu en bankinn sér ekki hvað þú kaupir. Þegar þú átt bankareikning sér bankinn hvenær þú leggur inn, tekur út og hvert þú millifærir peninga. Þegar þú skoðar vefsíðu eða öpp bankans safna vefkökur upplýsingum um þig og hvað þú gerir á vefsíðunni. Ef þú ert yngri en 18 ára getur foreldri þitt eða forráðamaður einnig afhent okkur upplýsingar um þig, t.d. ef sótt er um kort eða stofnaður er bankareikningur fyrir þig. Ef þú heimsækir útibú bankans, hringir í okkur eða spjallar við okkur í netspjalli þá geymum við upptökur og efni úr öryggismyndavélum, símtali og netspjalli í stuttan tíma.

Þegar þú notar Sprotaappið safnar Landsbankinn hf. hvorki né meðhöndlar persónuupplýsingar um notendur leiksins að IP tölum undanskildum. Þau gögn sem sótt eru í gegnum leikinn („Sprotaappið“) eru eingöngu gögn til að greina og bæta leikinn og það kerfi sem hann byggist á. Meðal þeirra upplýsinga sem sóttar eru í gegnum leikinn eru: tegund tækisins sem notað er til að spila leikinn, framleiðandi tækisins, útgáfa stýrikerfis þess, staða minnis á tækinu þegar leikurinn er spilaður, upplýsingar í tengslum við notkun og hversu oft leikurinn er spilaður.

Þú átt ákveðinn rétt og getur stjórnað upplýsingunum þínum

Börn og ungt fólk eiga sama rétt og fullorðnir. Samkvæmt lögum getur þú óskað eftir því að:

  • Fá að sjá hvaða upplýsingar bankinn á til um þig og fengið þær sendar.
  • Breyta eða leiðrétta upplýsingar um þig.
  • Bankinn hætti að nota upplýsingarnar þínar af einhverri ástæðu eða mótmælt því að bankinn noti þær.
  • Upplýsingum um þig verði eytt. Bankinn getur eytt upplýsingum ef lög leyfa það.
  • Bankinn noti ekki tölvur til að taka ákvörðun um þig (bankinn notar ekki tölvur til að taka ákvarðanir um fólk sem er yngra en 18 ára).

Ef þú ert eldri en 13 ára og með rafræn skilríki getur þú beðið okkur um þessa hluti í réttindagátt Landsbankans. Ef þú ert yngri en 13 ára getur þú beðið foreldri eða forráðamann um að aðstoða þig.

Við pössum upplýsingarnar þínar og látum þig vita ef eitthvað fer úrskeiðis

Það getur verið erfitt að skilja af hverju upplýsingar eru mikilvægar og af hverju það er mikilvægt fyrir þig að passa upp á þær og stjórna þeim. Hugsaðu um eitthvað sem skiptir þig miklu máli – eins og símann þinn eða annan hlut sem þér þykir vænt um. Þú vilt ekki að einhver annar skoði þessa hluti nema þú hafir leyft það. Ef þú leyfir einhverjum að nota hlutina þína þá viltu vita hvernig þeir eru notaðir, að farið sé vel með þá og að þú fáir að vita ef eitthvað kemur fyrir hlutina. Þannig hugsar Landsbankinn um upplýsingarnar þínar því þær eru mikilvægar fyrir þig og þitt einkalíf.

Hvað eru upplýsingar um þig geymdar lengi?

Bankinn verður að geyma upplýsingar um þig og hvernig þú notar þjónustu okkar, því það eru lög sem segja okkur að gera það. Bankinn geymir upplýsingar um þig á meðan þú velur að nota vörurnar okkar, öppin eða aðra þjónustu. Þegar bankinn þarf upplýsingarnar ekki lengur þá hættir hann að nota þær eða eyðir þeim.

Stundum þarf bankinn að afhenda upplýsingar um þig til annarra. Bankinn vinnur með öðrum fyrirtækjum sem hjálpa bankanum að veita þér þjónustu. Ef þú til dæmis vilt tengja kortið þitt við símann eða úrið til að borga er nauðsynlegt að afhenda upplýsingar um kortið þitt til fyrirtækjanna sem framleiða símann eða úrið. Bankinn veitir öðrum fyrirtækjum aðgang að upplýsingum um þig ef þau hjálpa okkur að veita þér bankaþjónustu. Fyrirtæki sem býr til debetkort fyrir þig er dæmi um þannig fyrirtæki. Bankanum getur líka verið skylt að afhenda upplýsingar til opinberra aðila sem fylgjast með því að bankinn fari eftir lögum.

Viltu vita meira eða hefur þú spurningar?

Í bankanum vinnur persónuverndarfulltrúi sem fylgist með því hvað bankinn gerir við upplýsingarnar um þig. Ef þú ert eldri en 13 ára þá getur þú spurt persónuverndarfulltrúann um það hvað bankinn gerir við upplýsingarnar þínar. Ef þú ert yngri en 13 ára geta foreldrar þínir eða forráðamenn sent persónuverndarfulltrúanum okkar tölvupóst á personuvernd@landsbankinn.is

Þú gætir einnig haft áhuga á
26. nóv. 2024
Vantar þig fimmhundruðkalla?
Ertu á leiðinni með barnið í bekkjarafmæli og þarft að útvega nokkra fimmhundruðkalla í snatri? Við hjálpum þér að finna þá.
Rafræn greiðsla
20. nóv. 2024
Hvað kostar að taka skammtímalán og dreifa greiðslunum?
Til að bera saman kjör á skammtímalánum er ekki nóg að horfa á vextina eða vaxtaprósentuna eina og sér heldur þarf að taka allan kostnað inn í reikninginn, svo sem lántökugjöld og greiðslugjöld. Á lánum sem fela í sér greiðsludreifingu er algengt að kjörin jafngildi 30-40% ársvöxtum. Og það er slatti!
Fjölskylda úti í náttúru
18. nóv. 2024
Hvenær er skynsamlegt að endurfjármagna íbúðalánið?
Það er alltaf skynsamlegt að hafa á hreinu hvaða kjör eru á íbúðaláninu þínu og kanna reglulega hvort það gæti verið hagstætt að skipta um lánsform eða lánveitanda. Með því að endurfjármagna getum við oft sparað okkur háar fjárhæðir.
24. okt. 2024
Auðvelt að bera saman ávöxtun á fjárfestingum
Það er gott að fara reglulega yfir fjárfestingarnar sínar og skoða hvort við séum að fá bestu ávöxtunina sem völ er á miðað við eigin markmið og áhættuvilja.
Íbúðahús
14. okt. 2024
Hvernig virka verðtryggð lán?
Verðtryggð lán eru bundin við vísitölu neysluverðs sem er notuð til að mæla verðbólgu. Það þýðir að höfuðstóll lánsins hækkar í takt við verðbólguna hverju sinni. Ef verðbólga er mikil getur hækkunin verið umtalsverð og haft þau áhrif að greiðslubyrði verðtryggðra lána hækkar þegar líður á lánstímann.
27. sept. 2024
Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?
Þegar þú fjárfestir í eignadreifingarsjóði fjárfestir þú í vel dreifðu eignasafni. Markmið eignadreifingarsjóða er að ná ávöxtun og dreifa áhættu með virkri stýringu á fjárfestingum í íslenskum og erlendum fjármálagerningum.
Seðlabanki Íslands
4. sept. 2024
Hagstjórn á verðbólgutímum
Verðbólgan hjaðnar hægar en vonir stóðu til og þrátt fyrir hátt vaxtastig er markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu ekki í sjónmáli. Hvers vegna gengur ekki betur að ná tökum á verðbólgunni og hvað er til ráða?
Ungt fólk
29. ágúst 2024
Fyrstu kaup og viðbótarlífeyrissparnaður
Viðbótarlífeyrissparnaður er frábær leið til að safna fyrir sinni fyrstu íbúð. Hægt er að nýta hann skattfrjálst til útborgunar við kaup á fyrstu íbúð eða til að greiða niður húsnæðislán í allt að 10 ár.
13. ágúst 2024
„Hafa bankarnir í alvöru leyfi til að gera þetta?“
Hvað eru áreiðanleikakannanir í raun og veru? Hvers vegna eru bankar að spyrja allra þessara spurninga og hvað er gert við svörin? Og þarf ég virkilega að svara þessu?
Maður með síma úti í náttúrunni
17. júlí 2024
Ellí svarar yfir 1.000 spurningum á dag – hér eru þær algengustu
Í vetur tókum við í notkun nýtt spjallmenni á netspjallinu á landsbankinn.is. Reynslan hefur verið góð og í meirihluta tilfella leysir Ellí úr erindum viðskiptavina. Hjá henni fá viðskiptavinir skjót svör á öllum tímum dags og um helgar og hún eykur þannig aðgengi að bankaþjónustu. En hverjar eru algengustu spurningarnar og svörin við þeim?
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur