Sé hlutfallið undir 15 er talið hagstæðara að kaupa. Sé hlutfallið 16-20 er betra að kaupa, ef áætlaður eignarhaldstími er langur, og sé hlutfallið hærra en 20 er talið hagstæðara að leigja. Í raun sýnir hlutfallið hversu margar ársleigur þarf til þess að kaupa eignina.
Í lok árs 2016 var meðalleiguverð þriggja herbergja íbúðar í Reykjavík nálægt 2.200 kr. á m2, eða um 220 þús. kr. fyrir 100 m2 íbúð, semkvæmt upplýsingum Þjóðskrár. Söluverð samskonar íbúðar var um 380 þúsund kr. á m2. Ársleigan var því 26.400 kr. á m2 og var kaupverðið því rúmlega 14 sinnum hærra en ársleigan. Miðað við þumalputtaregluna var hagstæðara að kaupa en leigja á þeim tíma.
Nú í apríl 2020 var leiguverð á 3ja herbergja íbúð á miðsvæði í Reykjavík komið upp í um 3.200 kr. á m2, eða um 320 þúsund kr. fyrir 100 m2 íbúð. Söluverð samsvarandi íbúðar var um 500 þús. kr. á m2. Þetta gefur ársleigu upp á 38.400 sem þýðir að kaupverðið er nú 13 sinnum hærra en ársleigan. Miðað við þetta er enn hagstæðra að kaupa í stað þess að leigja í dag en var í árslok 2016.
Eins og meðfylgjandi mynd um höfuðborgarsvæðið sýnir hefur þessi staða breyst nokkuð á síðustu árum. Hlutfallið milli ársleigu og kaupverðs þarf að breytast mikið til þess að það verði beinlínis hagstætt að leigja. Til þess að hlutfallið fari upp í 20 þyrfti kaupverð að standa í stað og leiguverð að lækka um u.þ.b. 30%.
Sé þetta hlutfall skoðað með einföldum hætti yfir lengri tíma í Reykjavík sést að síðustu ár hefur verið mun óhagstæðara að leigja en löngum áður. Þar sem kaupverð íbúða hefur hækkað meira en leiguverð vísar þróunin í þá átt að hagstæðara verði að leigja. Það er athyglisvert að eina tímabilið á undanförnum 20 árum þegar það var hlutfallslega hagstæðara að leigja en kaupa var á árunum 2005-2008. Á þeim tíma hugsuðu flestir þó meira um að kaupa en leigja.
Mynd 1
Í einföldu dæmi eins og þessu er ekki tekið tillit til kostnaðarliða. Við kaup bætast t.d. fasteignagjöld, tryggingar og fjármagnskostnaður ofan á kaupverðið, svo eitthvað sé nefnt. Við leigu gæti t.d. greiðsla í sameiginlegan hússjóð bæst við leigukostnað. Samanburðurinn vísar engu að síður markvisst í þá átt að það sé tiltölulega óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði í Reykjavík ef miðað er við kaupverð.
Mynd 2
Í samanburði við aðrar norrænar borgir er sérstaða Reykjavíkur mikil. Þetta hlutfall er miklu lægra hér sem sýnir að leiga er hlutfallslega há miðað við verð - annaðhvort er leigan hér hlutfallslega hærri eða söluverðið hlutfallslega lægra en gerist og gengur annars staðar. Stokkhólmur er hæstur þessara borga og hlutfall Stokkhólms er nokkuð hátt í alþjóðlegu tilliti.
Mynd 3
Sé litið á allan heiminn sést að mjög mikill munur er á aðstæðum hvað þetta varðar. Lægstu hlutföllin er að finna í borgum inni í landi í Bandaríkjunum, þar sem lægstu gildin eru á bilinu 3-4. Þar borgar sig örugglega að kaupa og ekki að leigja. Hæstu gildin eru í borgum í Asíu og þar er Taipei hæst með hlutfall upp á 81 sem sýnir að kaupverð er verulega hátt miðað við leiguverð og því borgar sig að leigja þar.
Nýrri grein um þetta efni er hægt að lesa hér (23. febrúar 2021)