Ég fer alltaf yfir ákveðin atriði þegar nýtt ár gengur í garð sem gætu nýst einhverjum sem vill setja sér sparnaðarmarkmið fyrir árið 2023. Sumt á listanum er litað af því að ég á íbúð og er í föstu starfi en flest er þetta eitthvað sem mögulega fleiri geta tileinkað sér í markmiðasetningu.
Hver er fastur kostnaður í hverjum mánuði?
Ég byrja á að taka saman kostnað sem er fastur í hverjum mánuði, hlutina sem ég kemst ekki hjá því að borga. Undir það falla reikningar vegna síma, nettengingar, afborgana af lánum, trygginga o.fl. Þennan kostnað er auðvelt að áætla fyrir komandi ár. Það er líka mikilvægt að yfirfara þessa kostnaðarliði öðru hverju og kjörið að gera það í byrjun árs. Það er til dæmis gott að fara yfir tryggingarnar, símann og netið og fá tilboð í þessa kostnaðarliði hjá þeim fyrirtækjum sem bjóða upp á þjónustuna. Það tekur enga stund og getur margborgað sig. Eins er gott að fara yfir lán, ganga úr skugga um að þau séu á hagstæðum kjörum og setja sér markmið um að greiða þau niður.
Mér finnst líka gott að kortleggja stór útgjöld sem ekki verður komist hjá á komandi ári, t.d. vegna framkvæmda á íbúðarhúsnæði eða greiðslu skólagjalda og gera mér grein fyrir hvort ég geti notað sparnaðinn í að greiða útgjöldin eða hvort ég þurfi að taka lán.
Hver er neyslan í hverjum mánuði?
Eins og aðrir á ég það til að missa yfirsýnina yfir hvert peningarnir fara. Til að sjá betur í hvað peningarnir fara byrja ég á að skoða færslurnar mínar. Ég skoða hvað ég eyði miklu í nauðsynjar og óþarfa og mynda mér síðan skoðun á því sem ég þarf og því sem mig langar í.
Ég geng úr skugga um að ég sé ekki enn að borga fyrir áskriftir á kreditkortinu sem ég er hætt að nota. Einnig er gott að skoða hversu mikið fer í skyndibita. Gæti ég eldað oftar eða nýtt mér tilboð? Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hve miklu er eytt í lúxusvörur, fatnað og snyrtivörur annars vegar og nauðsynjar hins vegar.
Því næst set ég mér viðmið um hvað ég ætla að eyða miklu í neyslu í hverjum mánuði á nýju ári. Auðvitað stenst það ekki alltaf en það er gott að hafa eitthvað til að miða við. Ég passa mig á að vera raunsæ og geri líka ráð fyrir skemmtilegu hlutunum.
Hvað get ég lagt mikið til hliðar í hverjum mánuði?
Þegar ég hef séð hver fastur kostnaður og eyðsla í neyslu er set ég mér markmið um hvað ég ætla að leggja mikið til hliðar í hverjum mánuði. Því minna sem fer í daglegan, valkvæðan óþarfa eða í afborganir á lánum, því meira get ég lagt til hliðar.
Hvert ætla ég að setja spariféð mitt?
Það er góð regla að láta sparnaðinn liggja inni á reikningum sem bera hærri vexti. Það er auðvelt að stofna sparnaðarreikninga í appinu og netbankanum. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvar spariféð er ávaxtað sem best, hvort sem það er á innlánsreikningum, í sjóðum eða öðrum verðbréfum. Ég byrja nýtt ár á að kynna mér þessi mál til að ganga úr skugga um að sparnaðurinn sé geymdur þar sem ég fæ sem mest fyrir peninginn fyrir þá áhættu sem ég er tilbúin að taka.
Svo þarf ekki að geyma allt á sama stað! Þá er til dæmis hægt að setja sér markmið um að setja einhvern hluta af sparnaðinum í hverjum mánuði í sjóði með því t.d. að stofna áskrift í appinu eða netbankanum.
Hvernig er hægt að ávaxta sparnað í verðbólgu?
Get ég aukið tekjurnar mínar?
Ef mig langar að ná að leggja meira til hliðar en tekjurnar leyfa er oft hægt að finna leiðir til þess. Sumir hafa tíma og tækifæri til að vera með tekjur frá fleiri en einum stað. Þau sem eiga íbúð geta skoðað að skrá hana á Airbnb þegar farið er í frí. Önnur leið til að afla sér aukatekna er að vinna hlutastarf, til dæmis um helgar eða einhver kvöld í mánuði við það að þjálfa, þrífa eða þjóna svo fátt eitt sé nefnt. Svo er kannski mögulegt að semja um kauphækkun í núverandi starfi.
Annað sem er gott að hafa bak við eyrað
- Förum inn á appið a.m.k. einu sinni í viku til að hafa tilfinningu fyrir því hvert peningarnir eru að fara og hvað við erum búin að eyða miklu.
- Til þess að gera sér enn betur grein fyrir hvað hlutir kosta og hvers virði þeir eru er gott að hugsa hvað hlutir sem við kaupum okkur kosta í vinnu. Hvað ertu lengi að vinna þér inn fyrir nýja símanum eða nýju skónum?
- Ef þú ert ekki með viðbótarlífeyrissparnað skaltu ekki láta annað ár líða án þess að kynna þér málið og sækja um. Viðbótarlífeyrissparnaður er í raun launahækkun sem getur hjálpað þegar þig langar að eignast íbúð. Það er líka hægt að nota hann til að greiða íbúðalánið hraðar niður.
- Verum upplýst um réttindi hjá stéttarfélögunum okkar. Mörg stéttarfélög veita til dæmis styrki til náms, íþrótta- eða tómstundaiðkunar.
- Skoðum hvort hægt sé að selja föt eða húsgögn sem við erum hætt að nota.
- Setjum okkur markmið um það að læra meira um peninga á hverju ári.
Margt af þessu eru gömul og góð ráð, en aldrei er góð vísa of oft kveðin!
Höfundur starfar í deildinni Viðskiptalausnir einstaklinga sem er á Einstaklingssviði Landsbankans.