Vikubyrjun 4. nóvember 2024
Vikan framundan
- Á morgun birtir Eimskip uppgjör og forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum.
- Á miðvikudag birta Kvika banki, Heimar og Sýn uppgjör.
- Á fimmtudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og Englandsbanka.
- Á föstudag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í október.
Mynd vikunnar
Uppsafnaður halli á vöruskiptum við útlönd var 280 ma. kr. á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er mjög svipað og á sama tímabili í fyrra, samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2021 sem hallinn eykst ekki verulega á milli ára á tímabilinu. Þessi halli var viðbúinn, en síðustu ár hefur verið viðvarandi halli á vöruviðskiptum en að sama skapi ríflegur afgangur af þjónustuviðskiptum. Að hallinn aukist ekki á milli ára gæti verið merki um að hagkerfið fari kólnandi. Við gerum ráð fyrir halla á vöruskiptum í ár, líkt og fyrri ár, en smávægilegum afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum í heild.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,28% á milli mánaða í október og við það hjaðnaði verðbólga úr 5,4% í 5,1%. Hjöðnun verðbólgunnar var í samræmi við spá okkar, en við spáðum 0,27% hækkun á milli mánaða. Breyting stakra undirliða var í nokkrum tilfellum þó nokkuð ólík spá okkar: Matarkarfan og flugfargjöld til útlanda hækkuðu meira en við bjuggumst við en reiknuð húsaleiga hækkaði mun minna. Samhliða birtingu VNV tilkynnti Hagstofan að kílómetragjald yrði tekið inn í vísitöluna. Við væntum áframhaldandi hjöðnunar verðbólgu næstu mánuði og að verðbólga verði komin niður í 4,0% í janúar á næsta ári.
- Gistinóttum á hótelum fækkaði um 1,3% á milli ára í september. Fækkunin skýrist af 3,4% fækkun gistinótta erlendra ferðamanna, en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 9,7%. Gistinóttum á öllum tegundum gististaða fjölgaði um 4,1% á milli ára, þrátt fyrir að gistinóttum á hótelum hafi fækkað.
- Vinnumálastofnun barst engin tilkynning um hópuppsögn í september, annan mánuðinn í röð.
- Hagvöxtur mældist 2,8% á milli ársfjórðunga á þriðja ársfjórðungi í Bandaríkjunum. Vöxturinn var aðeins minni en búist var við. Það urðu einungis til 12 þúsund ný störf í október í Bandaríkjunum, sem er minnsta fjölgun starfa frá því að Biden tók við sem forseti, og spila hér inn í bæði fellibylur og verkföll. Hagvöxtur á evrusvæðinu var einungis 0,4% á milli fjórðunga á þriðja ársfjórðungi.
- Arion banki, Eik, Festi (fjárfestakynning), Marel (fjárfestakynning) og Nóva birtu uppgjör.
- Heimar seldi fasteignir, Reitir keypti fasteignir, það slitnaði upp úr samrunaviðræðum SKEL og Samkaupa, SKEL birti tilkynningu vegna 3. ársfjórðungs og Íslandsbanki tilkynnti um áframhald endurkaupaáætlunar.
- Eik stækkaði skuldabréfaflokk. Orkuveita Reykjavíkur gaf út nýjan ramma fyrir fjármögnun fjárfestingarverkefna samstæðunnar.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).