Spá­um 4,7% verð­bólgu í des­em­ber

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,35% á milli mánaða í desember og að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,7%. Flugfargjöld til útlanda og húsnæðisliðurinn hafa mest áhrif til hækkunar í mánuðinum. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,9% í mars á næsta ári.
Flugvél
9. desember 2024

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,35% á milli mánaða nú í desember og að ársverðbólga lækki úr 4,8% í 4,7%. Við eigum von á að verðlag þróist með nokkuð svipuðum hætti og síðast í desembermánuði, en mest áhrif til hækkunar á milli mánaða hafa flugfargjöld til útlanda og húsnæðisliðurinn.

Reiknuð húsaleiga í aðalhlutverki næstu mánuði

Í síðasta mánuði gerðum við ráð fyrir því að reiknuð húsaleiga myndi lækka á milli mánaða. Þvert á okkar spá hækkaði liðurinn nokkuð, eða um 0,9%. Við byggðum spána meðal annars á því að stór hluti leigusamninga sem teknir eru með í útreikningi Hagstofunnar eru vísitölutengdir með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, sem er vísitala neysluverðs með tveggja mánaða töf. Í nóvember var því septembermæling vísitölunnar notuð og sýndi hún 0,24% lækkun á milli mánaða. Í hverjum mánuði eru einnig gerðir nýir leigusamningar eða eldri samningar uppfærðir og líklegast að þeir samningar hafi áhrif til hækkunar á meðalleiguverði.

Við höfum litið til þróunar á leiguvísitölu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem vísbendingu um hvernig nýir samningar gætu haft áhrif á útreikning Hagstofunnar í hverjum mánuði, en það hefur ekki reynst vel hingað til. Það skýrist líklega helst af því að Hagstofan notar alla gilda samninga sem gerðir eru fram að þeim tímapunkti sem útreikningurinn fer fram, þannig að samningar sem voru gerðir fyrri hluta nóvembermánaðar voru teknir með í nóvembermælingu Hagstofunnar. Vísitala HMS byggir aftur á móti á breytingu á meðalverði nýrra samninga síðustu tveggja mánaða, og fyrir nýjustu vísitölu HMS voru samningar sem gerðir voru í nóvember því ekki með í þeirri mælingu. Í mælingu Hagstofunnar eru því komnir inn samningar sem eru ekki komnir í vísitölu HMS.

Það verður því óhjákvæmilega áfram einhver óvissa um hvernig þessi liður breytist á milli mánaða, að minnsta kosti þangað til komin er meiri reynsla á þróunina. Við spáum því að nú í desember og næstu mánuði muni reiknuð leiga hækka um 0,6% (+0,12% áhrif) á milli mánaða sem er í takt við þróunina frá því að ný aðferðafræði var tekin upp.

Matarkarfan hækkar lítillega

Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur verð á mat og drykkjarvörum hækkað um rétt rúmlega 0,2% það sem af er desember. Mælingar hjá verðlagseftirliti ASÍ hafa verið mjög nálægt mælingum Hagstofunnar síðustu mánuði svo við gerum ráð fyrir að mánaðarhækkunin verði í samræmi við það nú í desember.

Flugfargjöld til útlanda hækka og bensínverð lækkar

Flugfargjöld til útlanda sveiflast verulega í samanburði við marga aðra liði vísitölunnar. Sveiflurnar eru árstíðabundnar og flugfargjöld hækka nær alltaf á milli mánaða í desember. Við gerum ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda hækki um 3,5% á milli mánaða (+0,06% áhrif). Samkvæmt verðkönnun okkar stendur verð á bensíni og díselolíu í stað á milli mánaða í desember. Við teljum að bensín hækki um 5% um áramót vegna hækkana opinberra gjalda.

Spá um desembermælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 14,9% 0,2% 0,03%
Áfengi og tóbak 2,3% 0,1% 0,00%
Föt og skór 3,8% 1,0% 0,04%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,8% 0,7% 0,07%
Reiknuð húsaleiga 20,0% 0,6% 0,12%
Húsgögn og heimilisbúnaður 5,6% -0,3% -0,02%
Heilsa 4,0% 0,2% 0,01%
Ferðir og flutningar (annað) 3,8% 0,1% 0,00%
- Kaup ökutækja 6,7% 0,2% 0,01%
- Bensín og díselolía 3,2% 0,0% 0,00%
- Flugfargjöld til útlanda 1,8% 3,5% 0,06%
Póstur og sími 1,6% 0,0% 0,00%
Tómstundir og menning 9,9% 0,0% 0,00%
Menntun 0,9% 0,0% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,1% 0,1% 0,00%
Aðrar vörur og þjónusta 6,6% 0,3% 0,02%
Alls 100,0%   0,35%

Spáum 3,9% verðbólgu í mars á næsta ári

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,35% í desember, lækki um 0,22% í janúar, hækki um 0,80% í febrúar og um 0,57% í mars. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 4,7% í desember, 4,6% í janúar, 4,1% í febrúar og 3,9% í mars. Lækkun ársverðbólgu í febrúar skýrist að miklu leyti af hækkunum á sorphirðugjöldum í febrúar í ár sem detta út úr ársverðbólgunni og af því að í ár gengu janúarútsölurnar hraðar til baka en venjulega, þ.e. hækkunin í febrúar var meiri en venjulega en hækkunin í mars var minni en venjulega. Í mars koma grunnáhrif frá reiknaðri húsaleigu síðan til lækkunar á ársverðbólgu, en óvenju mikil hækkun í mars í ár dettur þá út.

Spáin er lítillega hærri en síðasta spá sem við birtum. Skýringin liggur meðal annars í hækkun á kolefnisgjaldi á eldsneyti, sem hækkar nokkuð umfram önnur gjöld á eldsneyti. Bensínverð hækkar um 5% í janúar samkvæmt okkar útreikningum. Nýtt gjald á nikótínvörur um áramótin hefur einnig smávægileg áhrif. Þá var verðmæling okkar á raforku til heimila núna í desember hærri en við gerðum áður ráð fyrir. Þar að auki gerum við nú ráð fyrir aðeins meiri hækkun á reiknaðri húsaleigu.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Pund, Dalur og Evra
17. jan. 2025
Krónan styrktist á síðasta ári
Krónan styrktist á móti evru en veiktist aðeins á móti Bandaríkjadal á árinu 2024. Árið var nokkuð rólegt á millibankamarkaði með gjaldeyri þar sem velta dróst saman og minna var um flökt.
Ský
13. jan. 2025
Vikubyrjun 13. janúar 2025
Atvinnuleysi var að meðaltali 3,5% árið 2024, líkt og við spáðum í október. Komur erlendra ferðamanna til Íslands á árinu voru lítillega fleiri en við bjuggumst við, eða tæplega 2,3 milljónir, og desembermánuður var sá fjölmennasti frá upphafi. Í síðustu viku gáfum við út verðbólguspá og gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,6% í janúar.
Fataverslun
9. jan. 2025
Spáum 4,6% verðbólgu í janúar
Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,32% á milli mánaða í janúar og að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,6%. Við búumst við áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,7% í apríl.
6. jan. 2025
Vikubyrjun 6. janúar 2025
Í vikunni birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í desember og birtar verða tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum. Einnig fara fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir mælinguna fimmtudaginn 30. janúar.
2. jan. 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 2. janúar 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flugvöllur, Leifsstöð
19. des. 2024
Verðbólga stendur í stað á milli mánaða
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% á milli mánaða í desember, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga stendur því í stað í 4,8%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og verði komin niður í 3,9% í mars.
Símagreiðsla
17. des. 2024
Kröftug kortavelta í aðdraganda jóla 
Kortavelta landsmanna færist enn í aukana þrátt fyrir hátt vaxtastig. Innlán heimila hafa vaxið og yfirdráttur ekki aukist. Erlendir ferðamenn hér á landi eyða líka þó nokkuð fleiri krónum en á sama tíma í fyrra. 
Greiðsla
16. des. 2024
Munu lægri vextir leiða til meiri neyslu?
Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferlið í október með 25 punkta lækkun og fylgdi því eftir með 50 punkta lækkun í nóvember. Þetta gerði bankinn rétt fyrir mestu neyslutíð ársins, með öllum sínum tilboðsdögum og jólainnkaupum.
Flutningaskip við Vestmannaeyjar
16. des. 2024
Vikubyrjun 16. desember 2024
Í vikunni fáum við vísitölur íbúðaverðs og leiguverðs frá HMS og vísitölu neysluverðs frá Hagstofunni en við gerum ráð fyrir lítilsháttar hjöðnun verðbólgu úr 4,8% í 4,7%. Um 9,3% fleiri erlendir ferðamenn komu til landsins í nóvember en á sama tíma í fyrra og skráð atvinnuleysi var 0,3 prósentustigum meira en það var í nóvember í fyrra. Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Sviss lækkuðu vexti í síðustu viku og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og Englandsbanka í þessari viku.
Ferðamenn á jökli
12. des. 2024
Aldrei fleiri ferðamenn í nóvembermánuði
Um 162.000 ferðamenn komu til landsins í nóvember, samkvæmt talningu ferðamálastofu. Ferðamenn voru 9,3% fleiri en á sama tíma í fyrra og hafa aldrei verið fleiri í nóvembermánuði. Gagnavandamál voru áberandi í ár og tölur um fjölda ferðamanna, erlenda kortaveltu og gistinætur útlendinga hafa allar verið endurskoðaðar á árinu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur