Spá­um áfram­hald­andi hjöðn­un í fe­brú­ar: Úr 4,6% í 4,3%

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,98% á milli mánaða í febrúar og að verðbólga hjaðni úr 4,6% í 4,3%. Við búumst við áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,7% í maí.   
Litríkir bolir á fataslá
13. febrúar 2025

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,98% á milli mánaða í febrúar og að ársverðbólga lækki úr 4,6% í 4,3%. Janúarútsölur ganga jafnan til baka í febrúar og mars sem skýrir að stórum hluta þá hækkun sem við gerum ráð fyrir á vísitölu neysluverðs í febrúar. Einnig gerum við áfram ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki, þrátt fyrir óvænta lækkun í janúar, og að flugfargjöld til útlanda hækki í mánuðinum. Hækkun á vísitölunni í febrúar yrði þó töluvert minni en hún var í febrúar fyrir ári og hefur því áhrif til lækkunar á ársverðbólgu í mánuðinum, gangi spáin eftir.

Útsölulok hafa mest áhrif á febrúarmælinguna 

Samkvæmt mælingu Hagstofunnar lækkaði verð á fötum og skóm aðeins um 6,9% í janúar síðastliðnum. Janúarútsölur á fötum og skóm hafa að meðaltali skilað um 10,6% verðlækkun frá árinu 2012 og má því segja að útsölurnar í ár hafi verið frekar lélegar og í raun lélegustu útsölur á tímabilinu fyrir utan á árinu 2021, þegar Covid-faraldurinn stóð sem hæst. Útsölur á heimilisbúnaði voru í takt við meðaltal síðustu ára, þar sem liðurinn lækkaði um 4,6%. Janúarútsölur á fötum og skóm ganga svo alla jafna til baka í febrúar og mars. Það er þó misjafnt hversu mikið þær ganga til baka í hvorum mánuði fyrir sig. Í fyrra gengu útsölurnar að stórum hluta til baka strax í febrúar og verðhækkun í mars var því minni. Við gerum í þessari spá ráð fyrir að verð á fötum og skóm hækki um 5% í febrúar og svo um 2% í mars, þ.e. svipaðri þróun og sást í fyrra. Janúarútsölur á húsgögnum og heimilisbúnaði ganga yfirleitt alltaf alveg til baka í febrúar við gerum einnig ráð fyrir því nú. 

Húsnæðiskostnaður eykst minna en í fyrra 

Á síðasta ári gerði Hagstofan þá breytingu að taka inn verðbreytingar á sorphreinsun, holræsum og köldu vatni í vísitölu neysluverðs í febrúar, en ekki í janúar. Í febrúar í fyrra hækkuðu þessi gjöld töluvert, sérstaklega sorphreinsun. Miðað við þær gjaldskrárbreytingar sem birtar hafa verið fyrir árið í ár er ekki útlit fyrir eins mikla hækkun á þessum gjöldum nú og fyrir ári. Alls gerum við ráð fyrir að þessi gjöld hækki að meðaltali um 3,5% á milli mánaða í febrúar. 

Reiknuð húsaleiga lækkaði í janúar, í fyrsta sinn frá því Hagstofan tók upp nýja aðferð við mælingar á þeim lið. Lækkunin kom okkur nokkuð á óvart, en þó hafa nýjustu skammtímamælikvarðar um leigu- og íbúðamarkaðinn sýnt lækkun á milli mánaða. Þetta gæti verið merki um kólnun á markaðnum sem gæti leitt til minni hækkana á reiknaðri húsaleigu á næstunni. Við viljum þó ekki lesa of mikið í stakar mælingar, enda ekki langt síðan nýja aðferðin var tekin upp og ekki komin skýr mynd á hvernig þær mælingar þróast í takt við aðra mælikvarða fyrir íbúða- og leiguverð. Í síðustu spám höfum við gert ráð fyrir 0,6% mánaðarhækkun en lækkum nú spána örlítið, eða í 0,5% til næstu mánaða.  

Matur og drykkjarvara hækkar 

Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur verð á mat og drykkjarvörum nú hækkað um rétt rúmlega 0,2% á milli janúar og febrúar. Þá segir á vef verðlagseftirlitsins að heilsudagar í byrjun mánaðar dragi niður mánaðarbreytingar en leiðandi vísitala, sem á að sýna þróun nýjustu verðbreytinga hefur hækkað um rúmlega 0,6% á milli mánaða. Heilsudögum var lokið þegar verðsöfnunarvika Hagstofunar hófst og því finnst okkur líklegra að leiðandi vísitalan gefi betri mynd af breytingu á milli mánaða í febrúar. Við tökum einnig tillit til þess að gengið hefur veikst lítillega og spáum því að verð á mat og drykkjarvörum hækki um 0,7% í febrúar. 

Flugfargjöld til útlanda hækka í febrúar 

Verð á flugfargjöldum til útlanda sveiflast töluvert mikið á milli mánaða, en sveiflurnar eru að miklu leyti árstíðabundnar. Flugfargjöld hækka yfirleitt í desember, lækka svo í janúar og hækka svo aftur í febrúar. Þó það séu til undantekningar á þeirri þróun, þá gerum við ráð fyrir nokkuð hefðbundinni árstíðarsveiflu og að flugfargjöld til útlanda hækki um 4,5% hækkun nú. Páskarnir hafa einnig töluverð áhrif á flugfargjöld og þar sem páskanir byrjuðu í mars í fyrra hafði það áhrif til hækkunar á flugfargjöldum í bæði mars og apríl. Í ár eru páskarnir í seinni hluta apríl og við gerum því ekki ráð fyrir eins miklum hækkunum í mars, en á móti meiri hækkunum á flugfargjöldum í apríl.   

Spá um þróun VNV í febrúar 2025

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 15,4% 0,7% 0,11%
Áfengi og tóbak 2,6% 0,4% 0,01%
Föt og skór 3,7% 5,0% 0,18%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,5% 1,0% 0,09%
Reiknuð húsaleiga 20,0% 0,5% 0,10%
Húsgögn og heimilisbúnaður 4,9% 4,9% 0,23%
Heilsa 4,1% 0,0% 0,00%
Ferðir og flutningar (annað) 3,8% 0,5% 0,02%
- Kaup ökutækja 6,4% 0,2% 0,01%
- Bensín og díselolía 3,7% 0,6% 0,02%
- Flugfargjöld til útlanda 1,9% 4,5% 0,08%
Póstur og sími 1,6% 0,1% 0,00%
Tómstundir og menning 11,0% 1,0% 0,11%
Menntun 0,9% 0,0% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,3% 0,1% 0,01%
Aðrar vörur og þjónusta 5,2% 0,1% 0,01%
Alls 100,0%   0,98%

Spáum 3,7% verðbólgu í maí

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,98% í febrúar, 0,44% í mars, 0,69% í apríl og 0,25% í maí. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 4,3% í febrúar, 3,9% í mars, hækkar svo í 4,1% í apríl en lækkar svo í 3,7% í maí. Hjöðnun verðbólgu næstu mánuði er ekki síst vegna þess að stórir hækkunarmánuðir á reiknaðri húsaleigu detta út næstu mánuði. Lítils háttar hækkun á ársverðbólgu í apríl skýrist að hluta af að páskarnir falla nú á apríl með tilsvarandi hærri verði á flugfargjöldum til útlanda. Spáin er aðeins hærri en síðasta spá sem við birtum í kjölfar birtingar janúarmælingar á vísitölunni. Munar þar mestu um að verðmæling okkar á bensíni og verðmæling ASÍ á matarkörfunni voru hærri en við áttum von, auk þess sem við erum núna að gera ráð fyrir aðeins veikari gengi. 

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Seðlabanki Íslands
10. feb. 2025
Vikubyrjun 10. febrúar 2025
Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 0,5 prósentustig í síðustu viku. Í þessari viku koma tölur um skráð atvinnuleysi og fjölda brottfara frá Leifsstöð auk þess sem Hagstofan framkvæmir verðkannanir vegna vísitölu neysluverðs. Uppgjörstímabilið í Kauphöllinni er síðan enn í fullum gangi.
3. feb. 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 3. febrúar 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flutningaskip
3. feb. 2025
Aukinn halli af vöruviðskiptum í fyrra
Halli af vöruviðskiptum jókst í fyrra, en ekki með sama hraða og síðustu tvö ár þar á undan. Að það hægi á aukningunni gæti verið merki um að jafnvægi sé að aukast í hagkerfinu, en á móti kemur að innflutningsverðmæti hafa aldrei verið meiri sem gæti verið merki um aukin umsvif.
Seðlabanki Íslands
3. feb. 2025
Vikubyrjun 3. febrúar 2025
Verðbólga lækkaði á milli mánaða í janúar, úr 4,8% í 4,6%. Við eigum von á að Seðlabankinn lækki vexti um 0,5 prósentustig á miðvikudaginn. Fyrstu uppgjör fyrir árið 2024 komu í síðustu viku, en uppgjörstímabilið heldur áfram í þessari viku.
30. jan. 2025
Spáum vaxtalækkun um 0,5 prósentustig
Við spáum 0,5 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga mældist 4,6% í janúar. Hún hjaðnaði í takt við spá okkar og hefur þokast niður um 0,5 prósentustig frá síðustu vaxtaákvörðun. Hægt hefur á íbúðaverðshækkunum og verðbólguvæntingar virðast stöðugri en áður. Laun hafa hækkað mun minna en áður og vinnumarkaður hefur leitað í eðlilegra horf.  
Fasteignir
30. jan. 2025
Verðbólga hjaðnar áfram
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,27% á milli mánaða í janúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 4,8% í 4,6%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og verði 3,9% í apríl.
Íbúðahús
27. jan. 2025
Vikubyrjun 27. janúar 2025
Í vikunni birtast verðbólgutölur fyrir janúar. Við eigum von á að verðbólga hjaðni og mælist 4,6%. Í síðustu viku birtist vísitala íbúðaverðs fyrir desember sem sýndi lækkun upp á 0,6% á milli mánaða. Vísitala leiguverðs sýndi einnig lækkun á milli mánaða, um 0,9%.
Bakarí
24. jan. 2025
Stöðugri vinnumarkaður og minna skrið launahækkana
Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 6,6% árið 2024. Á síðustu mánuðum hefur hægt verulega á launahækkunum, bæði vegna minni kjarasamningsbundinna hækkana en síðustu ár og minna launaskriðs. Kaupmáttur hefur því sem næst staðið í stað og óhætt að segja að staðan á vinnumarkaði styðji nú mun betur við verðstöðugleika en áður.
20. jan. 2025
Vikubyrjun 20. janúar 2025
Kortaveltutölur sem komu í síðustu viku voru nokkuð sterkar og sýndu að kortavelta heimilanna jókst nokkuð á milli ára í desember. Það voru tvö uppgjör í síðustu viku, Hagar og Ölgerðin, en fjárhagsár þessa tveggja félaga er, ólíkt öðrum félögum í kauphöllin, ekki hið sama og almanaksárið. Í vikunni fram undan fáum við vísitölur íbúðaverðs og leiguverðs frá HMS.
20. jan. 2025
Kortavelta landsmanna í sókn allt síðasta ár
Kortavelta landsmanna var alls 4,2% meiri á síðasta ári en árið 2023 og jókst milli ára alla mánuði ársins, miðað við fast verðlag og gengi. Telja má líklegt að Seðlabankinn fylgist vel með neyslustiginu í vaxtalækkunarferlinu og reyni að koma í veg fyrir að uppsafnaðar innistæður hrúgist út í neyslu. Neysla ferðamanna hér á landi mældist aðeins 1% meiri í fyrra en árið áður sé miðað við fast verðlag.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur