Vikubyrjun 17. mars 2025

Vikan framundan
- Í dag birtir Seðlabankinn greiðslumiðlun í febrúar.
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs í febrúar.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands. Við eigum von á 0,25 prósentustiga lækkun. HMS birtir vísitölu leiguverðs og það er vaxtaákvörðun í Bandaríkjunum.
- Á fimmtudag birtir HMS mánaðarskýrslu um fasteignamarkaðinn og það er vaxtaákvörðun hjá Englandsbanka.
- Á föstudag birtir Hagstofan vísitölu launa í febrúar.
Mynd vikunnar
Verðbólga fór hæst í 10,2% í febrúar fyrir tveimur árum en hefur síðan lækkað niður í 4,2%. Við eigum von á að hún lækki áfram niður í 3,9% nú í mars. Ef við skoðum meðaltal helstu mælikvarða á verðbólguvæntingum sést að það fór hæst í 6,5% í maí 2023. Það lækkaði síðan samhliða lækkun verðbólgu og var komið niður í 3,8% í nóvember í fyrra. Þrátt fyrir að verðbólga hafi lækkað síðan í nóvember hafa verðbólguvæntingar hækkað og eru nú komnar upp í 4,0%. Það getur reynst erfitt að ná verðbólgunni niður í 2,5% verðbólgumarkmið ef verðbólguvæntingar lækka ekki fyrst og því er stýrivöxtum haldið hærra en ella.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs. Við spáum því að vísitalan hækki um 0,54% á milli mánaða og ársverðbólgan lækki úr 4,2% í 3,9%. Lækkun á ársverðbólgu á milli mánaða skýrist að mestu af mikilli hækkun á reiknaðri húsaleigu á milli mánaða í febrúar í fyrra, en sú mæling dettur núna út úr ársverðbólgunni. Eftir nokkuð öra hjöðnun síðustu tvö ár teljum við komið að kaflaskilum í baráttunni við verðbólguna og að nú hægi á hjöðnuninni. Þannig gerum við ráð fyrir að verðbólga verði nokkuð stöðug í kringum 4% næstu mánuði.
- Skráð atvinnuleysi var 4,3% í febrúar og hækkaði um 0,4 prósentustig á milli ára. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem atvinnuleysi er 0,4 prósentustigum hærra en í sama mánuði árið áður, en megnið af síðasta ári mældist um 0,2-0,3 prósentustiga aukning milli ára.
- 147 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar, 5,6% færri en í sama mánuði í fyrra. Í janúar sl. voru ferðamenn 5,8% færri en í janúar í fyrra. Janúar og febrúar í fyrra voru mjög sterkir mánuðir, en erlendum ferðamönnum fjölgaði um 6,1% á milli ár í janúar og um 13,8% í febrúar það ár.
- Íbúar landsins voru 389 þúsund í byrjun árs og fjölgaði um 5.700 manns í fyrra (1,5%).
- Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 2,8% febrúar og lækkaði úr 3,0% í janúar. Talan var lægri en búist var við. Þrátt fyrir það er alls óvíst hvaða áhrif þetta hefur á vaxtalækkunarferlið vestanhafs þar sem mikil óvissa ríkir nú um framvindu efnahagsmála þar.
- Fjármála- og efnahagsráðuneytið setti fram tillögur um uppgjör HFF-bréfa og boðaði til fundar með eigendum HFF150434 og HFF150644 þar sem atkvæðagreiðsla verður haldin um tillögurnar.
- Oculis birti uppgjör.
- Lánasjóður sveitarfélaga, Orkuveita Reykjavíkur og Reitir héldu skuldabréfaútboð, Alma íbúðafélag hélt útboð á víxlum, Íslandsbanki gaf út skuldabréf í evrum og Landsbankinn gaf út víkjandi forgangsbréf í sænskum krónum. Lánamál ríkisins tilkynntu um niðurstöðu úr viðbótarútgáfu og birtu Markaðsupplýsingar.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









