Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um verð­bólgu und­ir 4% í mars

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% á milli mánaða í mars og að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 3,9%. Hjöðnun á milli mánaða skýrist ekki síst af töluvert minni hækkun á reiknaðri húsaleigu en fyrir ári síðan. Við gerum ekki ráð fyrir miklum breytingum á verðbólgu næstu mánuði og teljum að hún verði áfram rétt undir 4% í júní.
13. mars 2025

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% á milli mánaða í mars og að ársverðbólga lækki úr 4,2% í 3,9%. Við gerum ráð fyrir að janúarútsölur á fötum og skóm klárist nú í mars og að sá liður hafi mest áhrif á hækkun vísitölunnar á milli mánaða. Við gerum ráð fyrir að reiknuð húsaleiga þróist með svipuðum hætti og síðustu mánuði og spáum 0,5% hækkun í mars. Í mars í fyrra hækkaði reiknuð húsaleiga mikið, um 2,1%, og gangi spá okkar eftir hefur sá liður því mest áhrif til lækkunar á ársverðbólgu.

Útsölur ganga alveg til baka í mars

Janúarútsölurnar gengu minna til baka í febrúar en við höfðum spáð, en þær ganga jafnan til baka í febrúar og mars, þó misjafnt sé hversu mikið í hvorum mánuði. Í janúarútsölum lækkaði verð á fötum og skóm um tæplega 7%, samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Í febrúarspánni gerðum ráð fyrir því að verð á fötum og skóm myndi hækka um 5% og svo aftur um 2% í mars. Verð á fötum og skóm hækkaði í reynd aðeins um 2% í febrúar og við gerum því ráð fyrir að liðurinn hækki um 5% nú í mars.

Minni hækkun á reiknaðri húsaleigu mest áhrif til lækkunar á ársverðbólgu

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,4% í febrúar eftir að hafa lækkað í janúar, í fyrsta sinn frá því Hagstofan tók upp nýja aðferð við mælingar á þeim lið. Við gerum ráð fyrir að liðurinn hækki um 0,5% á milli mánaða næstu mánuði, sem er nokkurn veginn í takt við þróunina frá því að ný aðferðafræði var tekin upp. Í mars í fyrra hækkaði reiknuð húsaleiga aftur á móti um 2,1% og hækki hann einungis um 0,5% nú, mun sá liður hafa mest áhrif á lækkun ársverðbólgu í mánuðinum.

Erfitt hefur verið að greina skýra fylgni á milli mánaðarbreytinga á liðnum og annarra skammtímamælikvarða tengdra íbúðaverði frá því Hagstofan tók upp hina nýju aðferð. Það tengist því að hluta að breyting á milli mánaða á reiknaðri húsaleigu fylgir nú breytingu á meðalverði allra gildra markaðsleigusamninga á þeim tíma sem vísitalan er reiknuð. Samningar sem gerðir hafa verið í mánuðinum fram að þeim tíma sem vísitalan er reiknuð eru því teknir með í útreikninga Hagstofunnar. Þeir samningar hafa aftur á móti ekki komið inn í mælingar á vísitölu leiguverðs sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun reiknar og birtir. Skammtímabreytingar á liðnum verða því áfram háðar nokkurri óvissu, en á móti hefur liðurinn sveiflast aðeins minna á milli mánaða með nýju aðferðinni.

Verð á mat og drykkjarvörum hækkar

Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur verð á mat og drykkjarvörum nú hækkað um 0,45% á milli febrúar og mars. Mælingar ASÍ ná yfir allan mánuðinn, en Hagstofan mælir verð í einni fyrir fram ákveðinni verðsöfnunarviku í hverjum mánuði. Tilboðsdagar, eins og voru í byrjun febrúar, sem falla fyrir utan verðsöfnunarvikuna hafa því áhrif á mælingar ASÍ en koma ekki inn í mælingar Hagstofunnar. Það skýrir eflaust skekkjuna í síðasta mánuði, en mælingar Hagstofunnar fyrir febrúar sýndu 1,1% hækkun en mæling ASÍ aðeins 0,67%. Almennt hafa mælingar verðlagseftirlits ASÍ þó verið nokkuð nálægt mælingum Hagstofunnar á matarkörfunni og spáum við því nú 0,5% hækkun á mat og drykkjarvörum milli mánaða sem er nokkuð nálægt könnun ASÍ.

Flugfargjöld til útlanda hækka minna í mars en meira í apríl

Flugfargjöld til útlanda sveiflast töluvert á milli mánaða, en sveiflurnar eru að miklu leyti árstíðabundnar. Í fyrra lentu páskarnir á milli mars og apríl það sem hafði þau áhrif að flugfargjöld hækkuðu nokkurn veginn til jafns í mars og apríl,  um u.þ.b. 10% í hvorum mánuði. Í ár eru páskarnir alfarið í apríl og því gerum við ráð fyrir aðeins minni hækkun frá febrúar og að flugfargjöld hækki um 4,9% í mars. Á móti gerum við ráð fyrir meiri hækkun í apríl, eða um tæplega 20%.

Spá um þróun VNV í mars 2025

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 15,4% 0,5% 0,07%
Áfengi og tóbak 2,6% -0,1% 0,00%
Föt og skór 3,8% 5,0% 0,18%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,4% 0,3% 0,03%
Reiknuð húsaleiga 19,9% 0,5% 0,10%
Húsgögn og heimilisbúnaður 4,9% -0,4% -0,02%
Heilsa 4,1% 0,5% 0,02%
Ferðir og flutningar (annað) 3,9% 0,2% 0,01%
- Kaup ökutækja 6,4% 0,5% 0,03%
- Bensín og díselolía 3,7% -0,9% -0,03%
- Flugfargjöld til útlanda 2,0% 4,9% 0,09%
Póstur og sími 1,6% -0,5% -0,01%
Tómstundir og menning 10,9% 0,2% 0,02%
Menntun 0,9% 0,0% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,3% 0,6% 0,03%
Aðrar vörur og þjónusta 5,2% 0,6% 0,03%
Alls 100,0%   0,54%

Verðbólga nokkuð stöðug í kringum 4% næstu mánuði

Eftir nokkuð öra hjöðnun síðustu tvö ár teljum við komið að kaflaskilum í baráttunni við verðbólguna og að það hægi á hjöðnun hennar. Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% í mars, 0,74% í apríl, 0,32% í maí og 0,49% í júní. Gangi spáin eftir verður verðbólga nokkuð stöðug í kringum 4% næstu mánuði og mælist 3,9% í mars, 4,1% í apríl og 3,9% í bæði maí og júní. Lítils háttar hækkun á ársverðbólgu í apríl skýrist sem fyrr segir að hluta til af því að páskarnir falla nú alveg í apríl, með tilsvarandi hækkun á flugfargjöldum til útlanda. Spáin er mjög svipuð síðustu spá sem við birtum í kjölfar birtingar Hagstofunnar á febrúarmælingu VNV. Við gerum ráð fyrir aðeins hærra verði á matarkörfunni og á húsnæðisliðnum án reiknaðrar húsleigu. Á móti er spáin aðeins lægri fyrir verð á bensíni og díselolíu.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Paprika
10. apríl 2025
Spáum 4% verðbólgu í apríl
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,77% á milli mánaða í apríl og að verðbólga hækki úr 3,8% í 4,0%. Hækkunin á milli mánaða skýrist meðal annars af tímasetningu páskanna í ár.
9. apríl 2025
Hagspá til 2027: Ágætis horfur en allt getur breyst
Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagvöxtur verði 1,4% í ár og 2,1% á næsta ári. Hagkerfið hefur kólnað eftir kröftugt vaxtarskeið fyrstu árin eftir Covid-faraldurinn og við teljum að nú fari það hægt af stað á ný.
Royal exchange
7. apríl 2025
Vikubyrjun 7. apríl 2025
Í síðustu viku kynnti Bandaríkjaforseti umfangsmikla tolla á allan innflutning til landsins, þ. á m. 10% tolla á vörur frá Íslandi, sem hafa þegar tekið gildi. Fundargerð peningastefnunefndar var birt og þar kemur fram að nefndin taldi svigrúm til 0,25 eða 0,50 prósentustiga vaxtalækkunar við síðustu vaxtaákvörðun. Samkvæmt nýrri ríkisfjármálaáætlun er markmið ríkisstjórnarinnar að tryggja hallalausan ríkisrekstur árið 2027.
1. apríl 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 1. apríl 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Hús í Reykjavík
31. mars 2025
Vikubyrjun 31. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,2% í 3,8% í mars. Lækkun á verðbólgu skýrist að langstærstum hluta af því að reiknuð húsaleiga hækkaði minna en í sama mánuði í fyrra. Undirliggjandi verðbólga hjaðnaði líka sem sést á því að VNV án húsnæðis og allar kjarnavísitölur lækkuðu á milli mánaða. Fjármálastöðugleikanefnd telur fjármálakerfið standa traustum fótum en segir mikla óvissu í alþjóðamálum geta reynt á viðnámsþrótt þjóðarbúsins.
27. mars 2025
Verðbólga mælist undir 4%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,37% á milli mánaða í mars, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar úr 4,2% í 3,8% og er komin undir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, í fyrsta skipti frá því í lok árs 2020. Verðmælingin var nokkuð góð en við teljum að á næstunni hægi á hjöðnuninni.
Fasteignir
24. mars 2025
Vikubyrjun 24. mars 2025
Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn í síðustu viku. Ákvörðunin var í takt við væntingar. Vísitala íbúðaverðs hélst nokkurn veginn óbreytt á milli mánaða í febrúar. Til samanburðar hækkaði verðið mun meira í febrúar í fyrra, um tæp 2%. Kortavelta landsmanna innanlands hélt áfram að aukast á milli ára í febrúar en jókst þó aðeins minna en undanfarna mánuði.
Ferðamenn
17. mars 2025
Vikubyrjun 17. mars 2025
Við búumst við að peningastefnunefnd lækki vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn. Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs og við spáum því að verðbólga lækki úr 4,2% í 3,9%. Atvinnuleysi var 4,3% í febrúar og hækkaði um 0,4 prósentustig á milli ára. 147 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar, 5,6% færri en í sama mánuði í fyrra.
Seðlabanki
13. mars 2025
Spáum vaxtalækkun um 0,25 prósentustig
Við spáum 0,25 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga hjaðnaði um 0,4 prósentustig í febrúar en við teljum að hagvöxtur umfram væntingar og aukin neysla, lítil breyting á verðbólguvæntingum og ólga á vinnumarkaði haldi peningastefnunefnd á tánum.
Flutningaskip
10. mars 2025
Vikubyrjun 10. mars 2025
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra og sömuleiðis á vöruviðskiptum í febrúar samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti í síðustu viku, eins og við var búist. Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir marsmælingu vísitölu neysluverðs, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.