Spá­um vaxta­lækk­un um 0,25 pró­sentu­stig

Við spáum 0,25 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga hjaðnaði um 0,4 prósentustig í febrúar en við teljum að hagvöxtur umfram væntingar og aukin neysla, lítil breyting á verðbólguvæntingum og ólga á vinnumarkaði haldi peningastefnunefnd á tánum.
Seðlabanki
13. mars 2025

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun á miðvikudaginn 19. mars. Nefndin lækkaði vexti á síðustu þremur fundum, eftir rúmt ár af óbreyttu vaxtastigi. Vextirnir standa nú í 8,0% og ef tekið er mið af liðinni verðbólgu standa raunstýrivextir í 3,8%.

Raunstýrivextir hækka örlítið með vorinu ef spár okkar standast

Verðbólga hefur verið á undanhaldi síðustu mánuði og stýrivextir hafa nokkurn veginn elt hjöðnunina frá því á haustmánuðum. Þegar peningastefnunefnd kom síðast saman, þann 5. febrúar, stóð verðbólga í 4,6%. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu voru 3,9% en nefndin lækkaði vexti um 0,5 prósentustig og tók raunstýrivextina þannig niður í 3,4%. Verðbólga hjaðnaði svo í febrúar og við það fóru raunstýrivextir aftur upp í 3,8%, þar sem þeir standa nú.  

Lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentustig myndi færa raunstýrivexti niður í 3,55% og ef verðbólga hjaðnar í takt við skammtímaspá okkar yrðu þeir 3,61% í maí þegar peningastefnunefnd kemur saman næst. Við spáum þannig þéttu taumhaldi næstu mánuði, jafnvel þótt verðbólga sé á réttri leið.

Við teljum að peningastefnunefnd verði á bremsunni gagnvart lausara taumhaldi og fyrir því eru í megindráttum þrjár ástæður:

1. Verðbólguvæntingar breytast lítið og horfur á tregbreytanlegri verðbólgu

Þótt nýjustu verðbólgutölur séu nærtækustu vísbendingar til að meta verðþrýsting eru þær langt frá því að vera þær einu. Verðbólgutölur segja til um það hvernig verðlag hefur hækkað á síðustu tólf mánuðum, en væntingar um verðbólgu gefa hugmynd um verðbólgu fram í tímann og geta einar og sér haft veruleg áhrif á verðbólguþróun. Þær hafa áhrif á verðsetningu fyrirtækja og launakröfur launafólks og því er mikið í húfi að halda þeim í skefjum. Á síðasta kynningarfundi peningastefnunefndar kom einmitt fram að þótt verðbólga hefði hjaðnað væru verðbólguvæntingar enn allt og háar.

Einn mælikvarði á væntingar er verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Samkvæmt þeim mælikvarða hafa væntingar um verðbólgu til lengri tíma verið nokkuð stöðugar síðustu mánuði og eru í kringum 4% þegar þetta er skrifað. Væntingar til skemmri tíma, 1-2 ár, eru einnig í kringum 4% en eru ívíð hærri en til dæmis í nóvember í fyrra.

Væntingar má líka meta út frá könnunum Seðlabankans, annars vegar meðal heimila og fyrirtækja og hins vegar meðal markaðsaðila. Niðurstöður úr könnun meðal heimila og fyrirtækja voru birtar í gær og væntingar heimila hækkuðu örlítið frá því á lokafjórðungi síðasta árs. Til dæmis vænta fyrirtæki þess að verðbólga verði enn 4% eftir eitt ár en heimilin telja að hún verði komin upp í 5% eftir eitt ár.

Seðlabankinn birti síðast niðurstöður úr könnun á meðal markaðsaðila í lok janúar. Samkvæmt henni höfðu væntingar til skamms tíma lítið breyst frá því í nóvember. Markaðsaðilar væntu þess að verðbólga hjaðnaði smám saman en kæmist ekki niður í markmið á næstunni. Væntingar voru um 3,6% verðbólgu eftir eitt ár, 3,3% eftir tvö ár og 3,4% að meðaltali næstu fimm árin.

Væntingar til skamms tíma ríma ágætlega við okkar verðbólguspá. Við teljum að þótt verðbólga haldi áfram að hjaðna á allra næstu mánuðum verði erfitt að ná henni niður fyrir 3,5%. Á sumarmánuðum gæti hún setið föst rétt undir 4% og í haust jafnvel aukist örlítið þegar áhrifa einskiptisliða frá síðasta hausti gætir ekki lengur.

Það hlýtur að teljast áhyggjuefni að þrátt fyrir þétt peningalegt aðhald virðast ekki vera horfur á að verðbólga komist niður í markmið í náinni framtíð.  

2. Kraftur í hagkerfinu, aukin neysla og uppsöfnuð innlán

Hagstofan birti þjóðhagsreikninga í lok febrúar og áætlar að hagvöxtur hafi verið 0,5% á síðasta ári. Seðlabankinn, auk flestra greiningaraðila, hafði búist við lítils háttar samdrætti yfir árið og krafturinn í hagkerfinu var því aðeins umfram væntingar. Þótt þjóðhagsreikningar veiti upplýsingar um fortíðina hefur sýnt sig að peningastefnunefnd grípur allar upplýsingar sem gefast til þess að meta kraftinn í hagkerfinu – eftir því sem hann virðist meiri minnkar svigrúm til vaxtalækkana, að öðru óbreyttu.

Einkaneysla jókst örlítið á seinni helmingi síðasta árs. Kortaveltugögn gáfu líka vísbendingu um aukna neyslu allt síðasta ár og áfram í upphafi þessa árs. Áfram gætu landsmenn átt inneign fyrir aukinni neyslu, að minnsta kosti hafa innlán haldið áfram að aukast og yfirdráttur er með minnsta móti.

Í ljósi þessa ætti peningastefnunefnd ekki að finna sig knúna til að slaka verulega á taumhaldi peningastefnunnar, heldur frekar að varast að kynda enn frekar undir umsvif og neyslu.

Hafa ber í huga að dagana fyrir ákvörðunina berast fleiri gögn sem skipta máli í þessu samhengi. Seðlabankinn birtir gögn um kortaveltu í febrúar á mánudaginn og HMS birtir vísitölu íbúðaverðs á þriðjudaginn.

3. Launahækkanir kennara og ólga á vinnumarkaði

Kennarar undirrituðu kjarasamning í lok febrúar eftir harða deilu við samninganefnd sveitarfélaganna. Umsamdar launahækkanir kennara eru þó nokkuð umfram hækkanir annarra hópa og samningurinn virtist strax vekja ugg meðal forsvarsmanna annarra hópa á vinnumarkaði. Umframhækkanir til kennara gætu skapað vantraust í næstu kjarasamningalotu og til skemmri tíma gætu þeir jafnvel skapað launaskrið með því að kynda undir launakröfur víðar á vinnumarkaði. Óróleiki á vinnumarkaði getur haft áhrif á verðbólguvæntingar og þar með á verðbólgu og líklega hafa samningarnir frekar þau áhrif að peningastefnunefnd stigi varlegar til jarðar en ella.

Meiri óvissa – minna skref

Peningastefnunefnd hefur haldið ágætlega á spöðunum í vaxtalækkunarferli síðustu mánaða og lækkaði vexti um 0,5 prósentustig í nóvember og febrúar, eftir lækkun um 0,25 prósentustig í október. Vaxtalækkanirnar hafa verið í takt við hjöðnun verðbólgunnar og á síðasta fundi nefndarinnar mátti skilja á máli nefndarmanna að þeim fyndist ekki liggja á að slaka á taumhaldinu.

Óvissuþættir í verðbólgu- og vaxtaþróun snúa nú ekki síst að efnahagshorfum erlendis. Sú óvissa hefur síst minnkað á síðustu vikum og fyrr í vikunni viðraði seðlabankastjóri áhyggjur af áhrifum tollastríðs á íslenskan efnahag. Þótt erfitt sé að segja til um áhrif slíkra atburða á vaxtastig hérlendis má leiða líkum að því að óvissan haldi aftur af vaxtalækkunum, frekar en að flýta þeim. Lítil lækkun í næstu viku veitir aukið svigrúm til að lækka vexti hugsanlega aftur í maí.

Í þetta sinn er vandasamara en stundum áður að spá nákvæmlega fyrir um ákvörðunina, en í ljósi alls þess sem er útlistað hér að ofan teljum við að vextir verði lækkaðir um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn.

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Niðurstaða Meginvextir
8. feb. 2023 +0,50% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS HS (+0,75%) +0,50% 6,50%
22. mars 2023
+1,00% ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS  

+1,00%

7,50%
24. maí 2023 +1,25% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+1,00%)   +1,25% 8,75%
23. ágúst 2023 +0,50% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+0,25%)   +0,50% 9,25%
4. október 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP HS (+0,25%) ÁÓP (+0,25%) óbr. 9,25%
22. nóvember 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS   óbr. 9,25%
7. febrúar 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
20. mars 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
8. maí 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS AS (-0,25%)   óbr. 9,25%
21. ágúst 2024 óbr. ÁJ, RS, TB, ÁP, HS     óbr. 9,25%
2. október 2024 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁP, HS   HS (óbr.) -0,25% 9,00
20. nóvember 2024 -0,50% ÁJ, RS, TB,  ÁÓP, HS     -0,50% 8,50%
5. febrúar 2025 -0,50% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS     -0,50% 8,00%
19. mars 2025            
21. maí 2025            
20. ágúst 2025            
8. október 2025            
19. nóvember 2025            

AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁÓP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson.
Heimild: Seðlabanki Íslands

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
13. mars 2025
Spáum verðbólgu undir 4% í mars
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% á milli mánaða í mars og að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 3,9%. Hjöðnun á milli mánaða skýrist ekki síst af töluvert minni hækkun á reiknaðri húsaleigu en fyrir ári síðan. Við gerum ekki ráð fyrir miklum breytingum á verðbólgu næstu mánuði og teljum að hún verði áfram rétt undir 4% í júní.
Flutningaskip
10. mars 2025
Vikubyrjun 10. mars 2025
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra og sömuleiðis á vöruviðskiptum í febrúar samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti í síðustu viku, eins og við var búist. Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir marsmælingu vísitölu neysluverðs, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.
Sendibifreið og gámar
7. mars 2025
Verri niðurstaða í viðskiptum við útlönd
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra, en stór hluti hans var vegna færslna sem höfðu ekki í för með sér gjaldeyrisflæði og styrktist krónan því þrátt fyrir þetta og erlend staða þjóðarbúsins batnaði.
3. mars 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 3. mars 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Peningaseðlar
3. mars 2025
Vikubyrjun 3. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,6% í 4,2% í febrúar, en við teljum að heldur muni draga úr lækkunartakti verðbólgu næstu mánuði. Hagvöxtur mældist 2,3% á fjórða ársfjórðungi 2024 og 0,6% fyrir árið í heild. Umsvif í hagkerfinu voru umfram spár, en Hagstofan færði upp hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins. Í vikunni fram undan eru nokkur uppgjör, Seðlabankinn birtir greiðslujöfnuð við útlönd og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Evrópu.
28. feb. 2025
Hagvöxtur var 0,6% í fyrra
Hagvöxtur var 0,6% árið 2024. Krafturinn í hagkerfinu var lítillega umfram flestar spár sem gerðu heldur ráð fyrir lítils háttar samdrætti. Hagvöxturinn var ekki síst drifinn áfram af aukinni fjárfestingu, bæði í atvinnuvegum og íbúðauppbyggingu.
Epli
27. feb. 2025
Verðbólga hjaðnar í 4,2%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% á milli mánaða í febrúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 4,6% í 4,2%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði, þó það hægi á lækkunartaktinum, og mælist 3,8% í maí.
Fiskveiðinet
24. feb. 2025
Vikubyrjun 24. febrúar 2025
Í vikunni birtir Hagstofan febrúarmælingu vísitölu neysluverðs og þjóðhagsreikninga fyrir lokafjórðung síðasta árs. Í síðustu viku uppfærði Hafrannsóknarstofnun ráðleggingar um loðnuafla en samkvæmt því munu íslensk skip fá um 4,6 þúsund tonn. Í síðustu viku bárust einnig gögn um greiðslukortaveltu landsmanna í janúar sem var 6,5% meiri að raunvirði en árið áður. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5% á milli mánaða í janúar, en svo mikið hefur hún ekki hækkað síðan í febrúar 2024.
Fjölbýlishús
21. feb. 2025
Íbúðaverð tók stökk í janúar
Íbúðaverð hækkaði mun meira í janúar en síðustu mánuði. Íbúðaverð hefur verið nokkuð sveiflukennt og óútreiknanlegt undanfarið en stökkið í janúar skýrist af verðhækkun á sérbýli. Íbúðum á sölu hefur fjölgað hratt síðustu mánuði og birgðatími lengst. Grindavíkuráhrifin hafa fjarað út að langmestu leyti og hækkanir á verðtryggðum vöxtum kældu markaðinn undir lok síðasta árs.
Ferðamenn á jökli
19. feb. 2025
Færri ferðamenn en meiri kortavelta 
Um 122 þúsund ferðamenn komu til landsins í janúar, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Ferðamenn voru 5,8% færri en á sama tíma í fyrra sem er á skjön við þróun síðustu mánaða, en allt frá því í júlí sl. hefur ferðamönnum fjölgað á milli ára. Þótt ferðamönnum hafi fækkað í janúar hélt kortavelta þeirra áfram að aukast. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur