Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,77% á milli mánaða í apríl og að ársverðbólga hækki úr 3,8% í 4,0%. Við erum þó ekki að gera ráð fyrir auknum verðbólguþrýstingi, heldur skýrist hækkunin frekar af því að páskarnir voru fyrr á ferðinni í fyrra og höfðu áhrif á flugfargjöld bæði í mars og apríl, en í ár gerum við ráð fyrir að páskaáhrifin á flugfargjöld komi öll fram nú í apríl. Við þetta má bæta að janúarútsölur á fötum og skóm hafa dregist lengur en áður og er verð á þessum vörum enn lægra en það var fyrir útsölurnar. Við gerum ráð fyrir því að útsöluáhrifin gangi nú að fullu til baka. Við gerum ráð fyrir að verðbólga lækki aftur í maí og mælist þá 3,7%.
Páskahækkanir á flugfargjöldum til útlanda
Flugfargjöld til útlanda sveiflast töluvert á milli mánaða, en sveiflurnar eru að miklu leyti árstíðabundnar. Í fyrra lentu páskarnir á milli mars og apríl sem hafði þau áhrif að flugfargjöld hækkuðu nokkurn veginn jafn mikið í mars og apríl, um u.þ.b. 10% í hvorum mánuði. Í ár eru páskarnir alfarið í apríl, enda hækkuðu flugfargjöld til útlanda töluvert minna í mars í ár en í fyrra, eða um 3%. Á móti gerum við ráð fyrir meiri hækkun nú í apríl, eða um rúmlega 21%, sem mun hafa mestu áhrifin á hækkun vísitölu neysluverðs á milli mánaða.
Útsöluáhrif af fötum og skóm varað óvenju lengi
Janúarútsölurnar gengu minna til baka en við höfðum spáð, bæði í febrúar og mars, en þær ganga jafnan til baka yfir þá mánuði, þó misjafnt sé hversu mikið í hvorum mánuði fyrir sig. Í janúar lækkaði verð á fötum og skóm um tæplega 7%, hækkaði svo um 2% í febrúar og 2,4% í mars. Verð á fötum og skóm er því ennþá lægra en það var í desembermælingu Hagstofunnar. Við gerum ráð fyrir því að liðurinn hækki um 3% nú í apríl og að verð á fötum og skóm verði því aðeins hærra en það var áður en útsölurnar byrjuðu.
Síðasti stóri hækkunarmánuður fyrir reiknaða leigu í bili dettur út
Reiknuð húsaleiga hækkaði mun minna í mars en árið áður, eða um 0,5% í stað 2,1%. Áhrif reiknaðrar húsaleigu vó því mjög þungt til lækkunar á ársverðbólgu í marsmánuði, eða um 0,3 prósentustig. Verðbólga hefur lækkað um 3 prósentustig síðustu 12 mánuði, eða úr 6,8% verðbólgu í mars í fyrra í 3,8% verðbólgu í mars síðastliðnum. Þar af hefur framlag húsnæðisliðarins til lækkunar á ársverðbólgu verið 1,5 prósentustig, eða helmingurinn af hjöðnun verðbólgunnar síðustu 12 mánuði.
Í apríl í fyrra hækkaði reiknuð húsaleiga um 1,7% á milli mánaða og við spáum því að liðurinn hækki um 0,5% nú í apríl. Gangi spáin eftir mun liðurinn því aftur hafa töluverð áhrif til lækkunar á ársverðbólgu. Þetta er síðasti stóri hækkunarmánuðurinn sem dettur út úr 12 mánaða taktinum og því útlit fyrir að framlag húsnæðisliðarins til lækkunar á ársverðbólgu verði minna næstu mánuði þar á eftir. Hagstofan tók upp nýja aðferðafræði við mælingar á reiknaðri húsaleigu í júní í fyrra og hafa mælingar á liðnum sveiflast á þrengra bili en með fyrri aðferðinni og meðalhækkunin verið um 0,5% á milli mánaða.
Verð á mat og drykkjarvörum hækkar áfram
Við spáum 0,4% hækkun á verði á mat og drykkjarvöru og styðjumst þar m.a. við mælingar verðlagseftirlits ASÍ. Samkvæmt þeim hefur verð á mat og drykkjarvöru nú hækkað um svipað hlutfall. Mælingar ASÍ ná þó yfir allan mánuðinn, en Hagstofan mælir verð í einni fyrir fram ákveðinni verðsöfnunarviku í hverjum mánuði.
Spá um þróun VNV í apríl 2025
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 15,4% | 0,4% | 0,07% |
Áfengi og tóbak | 2,6% | 0,3% | 0,01% |
Föt og skór | 3,7% | 3,0% | 0,11% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,4% | 0,3% | 0,02% |
Reiknuð húsaleiga | 19,9% | 0,5% | 0,10% |
Húsgögn og heimilisbúnaður | 4,9% | 0,6% | 0,03% |
Heilsa | 4,1% | 0,3% | 0,02% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,9% | 0,5% | 0,02% |
- Kaup ökutækja | 6,2% | -0,4% | -0,03% |
- Bensín og díselolía | 3,6% | -0,7% | -0,03% |
- Flugfargjöld til útlanda | 2,4% | 21,5% | 0,42% |
Póstur og sími | 1,6% | 0,5% | 0,01% |
Tómstundir og menning | 10,8% | 0,0% | 0,00% |
Menntun | 0,9% | 0,0% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,3% | 0,3% | 0,01% |
Aðrar vörur og þjónusta | 5,2% | 0,4% | 0,02% |
Alls | 100,0% | 0,77% |
Verðbólga nokkuð stöðug í kringum 4% næstu mánuði
Eftir nokkuð öra hjöðnun síðustu tvö ár teljum við komið að kaflaskilum í baráttunni við verðbólguna og að það hægi á hjöðnun hennar. Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,77% í apríl, 0,29% í maí, 0,48% í júní og 0,17% í júlí. Gangi spáin eftir verður verðbólga 4,0% í apríl, 3,7% í bæði maí og júní, og 3,4% í júlí. Samkvæmt nýbirtri langtímaspá okkar mun verðbólga svo hækka örlítið aftur eftir júlímánuð og enda árið í 3,8%. Það skýrist ekki síst af því að í ágúst og september detta miklar lækkanir út úr 12 mánaðar taktinum sem orsökuðust af því að gjöld nokkurra háskóla voru felld niður og skólamáltíðir í grunnskólum voru gerðar gjaldfrjálsar.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









