Vikubyrjun 24. mars 2025

Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og gefur út fjármálastöðugleikaskýrslu. Sama dag verða birtar verðbólgutölur í Bretlandi og Alvotech birtir uppgjör.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs í mars en við spáum því að verðbólga hjaðni í 3,9%. Ísfélagið birtir uppgjör.
- Á föstudag birtir Seðlabankinn Hagvísa og Amaroq birtir uppgjör.
Mynd vikunnar
Þótt hægt hafi á verðhækkunum á íbúðamarkaði var veltan þó nokkur í byrjun árs. Til dæmis voru undirritaðir um 30% fleiri kaupsamningar í janúar á þessu ári en janúar í fyrra. HMS fjallar um það í nýrri mánaðarskýrslu að íbúðum sem teknar hafa verið af sölu fari hratt fjölgandi og voru þær í janúar og febrúar í ár um helmingi fleiri en á sama tíma síðastliðin tvö ár. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins komu 38% fleiri nýjar íbúðir inn á markaðinn en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir hátt vaxtastig virðist því enn vera líf á íbúðamarkaðinum, bæði á eftirspurnar- og framboðshliðinni.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Seðlabankinn lækkaði vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudag. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, lækka því úr 8,00% í 7,75%. Allir nefndarmenn studdu þessa ákvörðun. Ákvörðunin kom ekki á óvart og var í takt við okkar spá. Yfirlýsingin var nokkurn veginn óbreytt frá síðustu yfirlýsingu en nú talar nefndin einnig um að „við bætist mikil óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum“.
- Vísitala íbúðaverðs hélst nokkurn veginn óbreytt á milli mánaða í febrúar, hækkaði um aðeins 0,09%. Að þessu sinni hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og sérbýli á landsbyggðinni en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu og fjölbýli á landsbyggðinni lækkaði. Árshækkun vísitölunnar lækkaði úr 10,4% í 8,4%, en árshækkun hefur sveiflast á bilinu 7,5% til 11% síðan í maí í fyrra eftir að hafa farið lægst í 0,8% í júlí 2023.
- Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1% í febrúar eftir að hafa lækkað tvo mánuði í röð. Gildi vísitölunnar núna í febrúar er svipað og í nóvember 2024. Árshækkun vísitölu leiguverðs mælist nú 11,4%.
- Seðlabankinn birti gögn um greiðslukortaveltu í febrúar. Kortavelta heimila jókst um 3% að raunvirði á milli ára. Innanlands var kortavelta landsmanna nokkurn veginn jafnmikil og í febrúar í fyrra, þótt febrúar hafi verið degi styttri en í fyrra. Kortavelta erlendis jókst um 14,1%. Þá jókst erlend kortavelta innanlands lítillega í febrúar, þrátt fyrir að ferðamönnum hafa fækkað um rúmlega 5%.
- Launavísitala í febrúar 2025 er nánast óbreytt frá fyrri mánuði. Launavísitalan hefur hækkað um 9,0% síðastliðna tólf mánuði.
- HMS birti mánaðarskýrslu um fasteignamarkaðinn.
- Seðlabanki Bandaríkjanna hélt vöxtum óbreyttum í 2%. Í yfirlýsingu kemur fram að óvissa um efnahagshorfur hafi aukist en vísbendingar bendi þó til áframhaldandi umsvifa í efnahagskerfinu. Ákvörðunin var í takt við væntingar.
- Englandsbanki hélt vöxtum óbreyttum eftir 0,25% lækkun í febrúar, vextir eru nú 4,5%. Í yfirlýsingu kemur fram að hjöðnun verðbólgu hafi gengið vel, en óvissa sé mikil.
- Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) samþykkti að taka til afgreiðslu umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT03. Alvotech keypti þróunarstarfsemi sænsks líftæknifyrirtækis.
- Ölgerðin lauk sölu á víxlum. Reykjavíkurborg lauk skuldabréfaútboði. Landsbankinn gaf út víkjandi forgangsbréf í norskum krónum og hélt útboð sértryggðra skuldabréfa ásamt skiptiútboð. Lánamál ríkisins birtu niðurstöður í útboði ríkisvíxla.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









