Vikubyrjun 10. febrúar 2025
Vikan framundan
- Í dag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í janúar.
- Á þriðjudag birtir Ferðamálastofa brottfarir frá Keflavíkurflugvelli í janúar.
- Á miðvikudag birta Arion banki og Kvika banki uppgjör. Þann dag verða birtar verðbólgutölur í Bandaríkjunum.
- Á fimmtudag birta Eik, Heimar og Íslandsbanki uppgjör.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna febrúarmælingar vísitölu neysluverðs.
Mynd vikunnar
Þegar talað er um taumhald peningastefnu er oftast átt við raunstýrivexti, þ.e. hverjir stýrivextir eru að teknu tilliti til verðbólgu. Einfaldasta leiðin er að horfa á muninn á stýrivöxtum og liðinni verðbólgu, þ.e. 12 mánaða verðbólgu. Önnur og ekki síðri leið til að meta raunstýrivexti er að horfa á muninn á stýrivöxtum og verðbólguvæntingum. Miðað við liðna verðbólgu eru raunstýrivextir eftir síðustu vaxtalækkun, 3,4% en sé miðað við meðaltal nokkurra mælikvarða á verðbólguvæntingar eru raunstýrivextir eftir ákvörðunina aðeins hærri, eða 4,1%. Á fundi vegna vaxtaákvörðunar í síðustu viku kom fram í máli seðlabankastjóra að ekki stæði til að létta á þessu taumhaldi enda gengi þetta að hans mati vel. Hann bætti við að vaxtalækkunarferlið væri að einhverju leyti drifið áfram af áframhaldandi lækkun verðbólgu. Því gerum við ráð fyrir að á næstu misserum verði vextir lækkaðir sem nemur hjöðnun verðbólgu og verðbólguvæntingum, ekki mikið meira.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði vexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru því 8,0%. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar, en við spáðum 0,5 prósentustiga lækkun. Samstaða var í nefndinni, en allir nefndarmenn studdu ákvörðunina. Samkvæmt yfirlýsingunni er útlit fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu næstu mánuði, en þó væri enn verðbólguþrýstingur sem kallaði á „áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar“. Þessi mál og fleiri voru rædd í hlaðvarpi sem við tókum upp í kjölfar ákvörðunarinnar.
- Samhliða vaxtaákvörðuninni birti SÍ Peningamál með uppfærðri hagspá. Bankinn hækkaði verðbólguspá sína fyrir árið í ár lítillega. Spáin færðist úr 4,1% á fyrsta ársfjórðungi og 3,2% á öðrum í 4,2% á þeim fyrsta og 3,5% á öðrum, sé miðað við spá bankans frá því í nóvember. Seðlabankinn lækkaði aðeins hagvaxtarspá sína fyrir árið 2025, úr 1,9% í 1,6%. Breyting á spánni fyrir árið 2025 skýrist af því að bankinn gerir nú ráð fyrir minni vexti einkaneyslu og neikvæðara framlagi utanríkisviðskipta, en aftur á móti kröftugri fjárfestingu.
- Hlutfall lausra starfa á íslenskum vinnumarkaði var 1,6% á 4. ársfjórðungi í fyrra og hefur ekki verið lægra síðan á 4. ársfjórðungi 2020.
- Verðbólga á evrusvæðinu hækkaði úr 2,4% í 2,5%. Englandsbanki lækkaði vexti um 0,25 prósentustig.
- Festi (fjárfestakynning), Sjóvá og SKEL birtu uppgjör. Eik og Eimskip birtu stjórnendauppgjör. Sýn birti afkomuviðvörun. Icelandair og Play birtu flutningstölur.
- Eik gaf út nýjan skuldabréfaflokk, Arion banki hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum ásamt skiptiútboði, Lánamál ríkisins héldu útboð ríkisbréfa.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).