Vikubyrjun 2. desember 2024
Vikan framundan
- Á morgun birtir Seðlabankinn tölur um viðskiptajöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar og yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar.
- Á föstudag verða síðan birtar atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum.
Mynd vikunnar
Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar dróst landsframleiðsla saman um 0,5% að raunvirði á þriðja ársfjórðungi og um 1,0% fyrstu níu mánuði ársins. Innlend eftirspurn jókst á milli ára, aðallega vegna aukinnar samneyslu og íbúðafjárfestingar. Bæði útflutningur og innflutningur drógust saman á milli ára, en framlag utanríkisverslunar var til lækkunar á hagvexti sem skýrir að landsframleiðsla hafi dregist saman þótt innlend eftirspurn hafi aukist á milli ára. Munar hér mestu um samdrátt í ferðaþjónustu.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli mánaða í nóvember og lækkaði ársverðbólga úr 5,1% í 4,8%. Nóvembermæling VNV var hærri en við áttum von á, en við spáðum 0,13% lækkun á vísitölunni á milli mánaða og að ársverðbólga myndi lækka í 4,5%. Helsta ástæða spáskekkjunnar er reiknuð húsaleiga sem hækkaði á milli mánaða, en við áttum von á smávægilegri lækkun.
- Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 64,5 ma.kr. á þriðja fjórðungi í ár, en þriðji ársfjórðungur er jafnan sá fjórðungur sem kemur best út. Þetta er þó 6,1 ma.kr. lakari niðurstaða en á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins var 8,1 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustu, sem er 52,7 ma.kr. minna afgangur en á sama tímabili í fyrra.
- Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 4,1% á milli ára í október. Samhliða birtingu gistinótta tilkynnti Hagstofan að unnið er að endurskoðun á skiptingu gistinótta eftir þjóðernum og mun Hagstofan því ekki birta skiptingu gistinótta í Íslendinga og erlendra ríkisborgara á meðan unnið er að endurskoðun. Hugsanlega hafa gistinætur Íslendinga verið ofmetnar og gistinætur erlendra gesta að sama skapi vanmetnar í áður birtum gögnum.
- Verðbólga á evrusvæðinu var 2,3% í nóvember og hækkaði úr 2,0% í október. Aukin verðbólga var í samræmi við væntingar og skýrist ekki af auknum verðbólguþrýstingi heldur af grunnáhrifum, en mikil lækkun á orkuverði fyrir ári síðan datt út úr ársverðbólgunni. Það er því ólíklegt að þetta verði til þess að hægja á vaxtalækkunum hjá Seðlabanka Evrópu, en næsti vaxtaákvörðunardagur er 12. desember næstkomandi.
- Ísfélagið og Vátryggingafélag Íslands birtu uppgjör fyrir 3. ársfjórðung.
- Amaroq tilkynnti um gullfund úr fyrstu rannsóknarborunum í Nanoq og fyrstu framleiðslu á gulli í Nalunaq. Eik tilkynnti um samkomulag um helstu skilmála vegna kaupa á Festingu, framkvæmd nýrrar endurkaupaáætlunar og breytingar á arðgreiðslustefnu. Festi gerði sátt við Samkeppniseftirlitið. Hagar gengu frá kaupum á P/F SMS í Færeyjum. Síminn tilkynnti um framkvæmd endurkaupaáætlunar.
- Íslandsbanki hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum. Iceland Seafood, Kaldalón og Síminn héldu útboð í víxlum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).