Vikubyrjun 24. febrúar 2025

Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Hagstofan veltu skv. VSK-skýrslum og Alvotech og Iceland Seafood birta uppgjör.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs fyrir febrúar. Við spáum því að verðbólga lækki í 4,3%. Hagstofan birtir líka vöru- og þjónustuviðskipti fyrir lokafjórðung síðasta árs. Brim og Nova klúbburinn birta uppgjör.
- Á föstudag birtir Hagstofan þjóðhagsreikninga fyrir lokafjórðung síðasta árs og þar með fyrir allt síðasta ár.
Mynd vikunnar
Hafrannsóknarstofnun hefur uppfært ráðleggingar um loðnuafla úr engum afla í 8,6 þúsund tonn. Loðnuafli skiptist alla jafna milli Íslands, Grænlands, Færeyja og Noregs í samræmi við samninga milli þessara þjóða. Af þessari úthlutun munu íslensk skip fá um 4,6 þúsund tonn í sinn hlut. Restin fer til Færeyja og Grænlands. Enginn samningur er nú í gildi milli Íslands og Noregs, og Norðmenn hafa því ekki heimild til að stunda loðnuveiðar í íslenskri lögsögu. Úthlutunin er því ekki upp á marga fiska og varla hægt að tala um loðnuvertíð, sem verður sú minnsta frá upphafi. Telja má ljóst að aflinn muni ekki hafa teljandi áhrif á útflutningstölur á árinu. Ekkert var veitt af loðnu á síðasta ári en árið 2023 voru veidd 326 þúsund tonn. Árið 2009 fannst heldur engin loðna og stefndi í loðnubrest, en þá gaf ráðherra út rannsóknarkvóta upp á 15 þúsund tonn.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Kortavelta landsmanna var 6,5% meiri í janúar síðastliðnum en í janúar í fyrra, leiðrétt fyrir gengi og verðlagi. Innanlands jókst kortaveltan um 3,4% að raunvirði, en erlendis jókst hún um 18,4%, að teknu tilliti til gengis. Aukning kortaveltu erlendis er í takt við töluverða fjölgun utanlandsferða Íslendinga í mánuðinum en þær voru 22% fleiri en í janúar í fyrra. Erlend kortavelta innanlands jókst einnig í janúar, þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fækkað.
- Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5% á milli mánaða í janúar. Hækkunin er nokkuð meiri en síðustu mánuði og hefur vísitalan ekki hækkað svo mikið síðan í febrúar 2024. Hækkunin skýrist af 3,7% hækkun á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu á milli mánaða. Verð á sérbýli sveiflast mun meira en á fjölbýli, enda bæði töluvert færri og fjölbreytilegri eignir en fjölbýlisíbúðir og segja því minna um undirliggjandi verðþróun. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mældist 10,4% í janúar sem er nokkur hækkun frá því í desember, þegar árshækkunin mældist 7,7%.
- Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,25% í janúar og lækkaði annan mánuðinn í röð. Síðustu 6 mánuði hefur hún aðeins hækkað um 0,2%. Árshækkun vísitölu leiguverðs mælist nú 12% og lækkar úr 12,6% árshækkun í desember.
- Seðlabankinn birti fundargerð peningastefnunefndar. Nefndin var sammála um að lækka vexti og ræddi hvort það ætti að lækka þá um 0,25 eða 0,5 prósentustig. Seðlabankastjóri lagði til 0,5 punkta lækkun sem var samþykkt af öllum nefndarmeðlimum.
- Launavísitala í janúar 2025 hækkaði um 3,1% á milli mánaða, sem er í takt við umsamdar áfangahækkanir á stærstum hluta vinnumarkaðar.
- Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Landsbankans á TM.
- Norræni fjárfestingabankinn (NIB) gaf út græn skuldabréf í íslenskum krónum.
- Play, Síminn og Sýn birtu uppgjör.
- Lánamál ríkisins og Hagar héldu víxlaútboð. Íslandsbanki hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum, Reykjavíkurborg hélt skuldabréfaútboð og Lánamál ríkisins hélt útboð á nýjum flokki ríkisbréfa.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









