Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% á milli mánaða í desember og verðbólga mælist áfram 4,8%. Við spáðum örlítið minni hækkun, eða 0,35% á milli mánaða og að verðbólga myndi lækka í 4,7%. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu meira en við höfðum spáð og húsgögn og heimilisbúnaður hækkuðu í stað þess að lækka eins og við spáðum. Á móti kemur að húsnæði án reiknaðrar húsaleigu hækkaði nokkuð minna en við spáðum sem skýrist bæði af því að greidd húsaleiga hækkaði minna en við spáðum, en einnig spáðum við hækkun á rafmagnsverði en raunin varð sú að rafmagn lækkaði í verði á milli mánaða.
Framlag húsnæðis lækkar enn
Líkt og síðustu mánuði lækkar framlag reiknaðrar húsaleigu, sem endurspeglar kostnað við að búa í eigin húsnæði, til ársverðbólgu. Það skýrist af því að síðustu mánuði hefur liðurinn hækkað minna en í sama mánuði fyrra árs. Þrátt fyrir það er húsnæði engu að síður enn sá þáttur sem vegur þyngst til ársverðbólgu, þó framlag þess fari minnkandi.
Frá því í september hefur verðbólga hjaðnað um 0,6 prósentustig og þar af má skýra 0,5 prósentustig með minna framlagi reiknaðrar húsaleigu. Verðbólga án húsnæðis hefur á hinn bóginn lítið breyst frá því í september og mælist nú aftur 2,8% eins og þá. Við gerum ráð fyrir að á næstu mánuðum þróist reiknuð húsaleiga með svipuðum hætti og síðustu mánuði.
Helstu liðir vísitölunnar
- Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,3% á milli mánaða (0,04% áhrif), aðeins umfram okkar spá um 0,2%.
- Húsnæði án reiknaðrar leigu hækkaði um 0,2% milli mánaða (0,02% áhrif) en við spáðum 0,7% hækkun. Minni hækkun en við spáðum skýrist af minni hækkun á greiddri leigu og lækkun á rafmagnsverði í desember.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,5% á milli mánaða (+0,09% áhrif), en við spáðum 0,6% hækkun.
- Föt og skór hækkuðu um 0,5% milli mánaða (+0,02% áhrif). Við höfðum spáð 1,0% hækkun.
- Flugfargjöld til útlanda höfðu mest áhrif á vísitöluna til hækkunar, en liðurinn hækkaði um 8,0% á milli mánaða (+0,14% áhrif). Þetta var nokkuð meiri hækkun en við gerðum ráð fyrir, en við spáðum 3,5% hækkun milli mánaða.
- Verð á nýjum bílum lækkaði um 0,3% (-0,02% áhrif) á milli mánaða. Eftirspurn eftir bílum hefur dregist saman sem sést meðal annars á því að innflutningur á fólksbílum það sem af er ári er aðeins um helmingurinn af því sem hann var á sama tíma í fyrra. Þá hefur velta samkvæmt VSK-skýrslum hjá fyrirtækjum í sölu, viðgerðum og viðhaldi á bílum dregist saman um 23% að raunvirði á fyrstu tíu mánuðum ársins.
Eigum enn von á að verðbólga hjaðni
Við gerum nú ráð fyrir að vísitala neysluverðs lækki um 0,24% í janúar, hækki síðan um 0,81% í febrúar og 0,55% í mars. Gangi spáin eftir verður ársverðbólga 4,7% í janúar, 4,1% í febrúar og 3,9% í mars. Spáin er nokkurn veginn óbreytt frá síðustu spá sem við birtum í síðustu verðkönnunarviku, og í nýjustu verðbólgumælingunni er fátt sem breytir verðbólguhorfum næstu mánuði. Gangi þessi spá eftir þykir okkur líklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans telji sig geta haldið vaxtalækkunarferlinu áfram þótt líklega verði vextir ekki lækkaðir nema um 0,25 prósentustig í febrúar.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.