Stýrivextir voru lækkaðir um 0,5 prósentustig á síðasta fundi peningastefnunefndar þetta árið. Þeir standa í 8,5% og hafa mjakast niður um 0,75 prósentustig frá hæsta gildi. Næsti fundur nefndarinnar er ekki áætlaður fyrr en í febrúar og ef verðbólga hjaðnar í takt við spár má gera ráð fyrir að raunvextir hækki þó nokkuð þangað til. Nefndin virðist ekki óttast að taumhaldið þéttist um of, enda leggur hún áfram áherslu á að taka varfærin skref og varast að fara of hratt í vaxtalækkanir.
Í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar birti Hagstofa Íslands vísitölu neysluverðs í nóvember. Verðbólga var yfir væntingum, 4,8% en ekki 4,5% eins og við höfðum gert ráð fyrir. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu eru því strax lítillega lægri en fyrir vaxtaákvörðunina þar sem verðbólga hjaðnaði minna en sem nemur vaxtalækkuninni. Reiknuð húsaleiga hækkaði þó nokkuð í nóvember en við höfðum spáð lítils háttar lækkun. Eftir birtingu vísitölunnar birtum við uppfærða verðbólguspá til næstu þriggja mánaða sem er lítillega hærri en sú síðasta. Uppfærslan skýrist bæði af því að nóvembertalan var umfram spár og uppfærslu á spá um þróun reiknaðrar húsaleigu næstu mánuði.
Hagkerfið dróst saman um 0,5% á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt þjóðhagsreikningum sem Hagstofan birti í lok nóvember. Við bjuggumst við lítils háttar vexti en hafa ber í huga að þetta eru bráðabirgðatölur sem Hagstofan á eftir að uppfæra og því má vera að samdrátturinn sé ofmetinn. Verri afkoma þjónustuviðskipta við útlönd skýrir að stórum hluta samdráttinn á fjórðungnum, meðal annars minni útflutningur á ferðaþjónustu og aukinn innflutningur á fjármálaþjónustu. Innlend eftirspurn jókst um 0,8% á milli ára og samneysla og aukin fjármunamyndun vógu þyngst til hækkunar.
Kjarasamningsviðræður á opinberum vinnumarkaði hafa verið í fullum gangi síðustu vikur. Hjúkrunarfræðingar og læknar undirrituðu kjarasamning í nóvember og kennarar frestuðu verkfalli. Segja má að óvissa á vinnumarkaði hafi smám saman minnkað og samningarnir á opinberum markaði byggja á svipuðum grunni launahækkana og á almennum markaði. Í tilfelli hjúkrunarfræðinga fæst kjarabót ekki síst í gegnum vinnustyttingu og hækkaðar álagsgreiðslur en erfitt er að segja til um heildarumfang launahækkana áður en þróun launavísitölunnar verður ljós.
Lesa fréttabréfið í heild:
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).