Verri nið­ur­staða í við­skipt­um við út­lönd

Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra, en stór hluti hans var vegna færslna sem höfðu ekki í för með sér gjaldeyrisflæði og styrktist krónan því þrátt fyrir þetta og erlend staða þjóðarbúsins batnaði.
Sendibifreið og gámar
7. mars 2025

Á fjórða ársfjórðungi mældist 92 ma.kr. halli af viðskiptum við útlönd samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti í gær. Þetta er verulegur viðsnúningur frá ársfjórðungnum á undan þegar afgangurinn nam 52 mö.kr.. Viðsnúningur milli þriðja og fjórða ársfjórðungs er ekki óalgengur, þar sem háannatími ferðaþjónustunnar stendur yfir á þeim þriðja. Fjórði ársfjórðungur í fyrra var aftur á móti mun verri en sami ársfjórðungi árið áður þegar 17 ma.kr. halli mældist.

Hallinn á vöruskiptum aldrei mælst jafn mikill

Hallinn á fjórða ársfjórðungi skýrist nær eingöngu af miklum halla af vöruviðskiptum sem nam 104 mö.kr. og hefur ekki mælst meiri á einum fjórðungi, svo langt sem gögn Seðlabankans ná, aftur til 1995. Af þjónustuviðskiptum var 34 ma.kr. afgangur, 10 ma.kr. halli af frumþáttatekjum og 15 ma.kr. halli af rekstrarframlögum.

Einnig halli á árinu í heild

Árið í heild kom svipað út og fjórði ársfjórðungur, þ.e. afgangur af þjónustuviðskiptum og halli af vöruviðskiptum, frumþáttatekjum og rekstrarframlögum. Alls var 117 ma.kr. halli á viðskiptum við útlönd í fyrra. Frá því að uppgangur ferðaþjónustu hófst, fyrir rúmum áratug, hefur verið viðvarandi afgangur af þjónustuviðskiptum sem dugði til að skila afgangi af viðskiptum við útlönd í heild allt fram að Covid-faraldrinum. Síðustu ár hefur svo halli af vöruviðskiptum aukist umtalsvert og þannig skilað ýmist halla, eða töluvert minni afgangi af viðskiptum við útlönd en áður.

Niðurstaðan fyrir árið í heild í fyrra var mun verri en árið áður, eða 117 ma.kr. halli í stað 36 ma.kr. afgangs 2023. Hér lögðust allir fjórir undirliðir viðskiptajafnaðar á eitt, hallinn á vöruskiptajöfnuði jókst milli ára og afgangurinn af þjónustujöfnuði minnkaði. Í stað afgangs af frumþáttatekjum mældist halli, og hallinn af rekstrarframlögum jókst. Munar mestu um viðsnúninginn á frumþáttatekjum.

Meiri innflutningur og áföll í útflutningsgreinum

Halli af vöru- og þjónustuviðskiptum var um 52 ma.kr í fyrra, en 6,6 ma.kr afgangur árið áður. Stóru útflutningsgreinarnar urðu nær allar fyrir skakkaföllum í fyrra. Loðnubrestur í sjávarútvegi, orkuskerðingar til álframleiðslu og neikvæð áhrif eldgosa á ferðaþjónustu. Á móti var mikill kraftur í öðrum vöruútflutningi þar sem útflutningur á eldisfiski og lyfjum og lækningavörum jókst töluvert á árinu.

Innflutningur jókst á árinu, bæði vöru- og þjónustuinnflutningur. Aukin fjárfesting, sérstaklega á lokafjórðungi ársins, kallaði á töluverðan innflutning á fjárfestingarvörum. Innflutningur á tölvubúnaði jókst verulega í desember í tengslum við fjárfestingu í gagnverum. Sú þróun hefur haldið áfram inn á þetta ár, en samkvæmt bráðabirgðatölum um vöruviðskipti í febrúar jókst innflutningur á fjárfestingavörum um tæp 140% milli ára. Þá hefur innflutningur á þjónustu aukist verulega síðustu ár, sérstaklega viðskiptaþjónustu, á sama tíma og hægt hefur á útflutningi slíkrar þjónustu.

Halli á frumþáttatekjum

Sem fyrr segir er það einna helst viðsnúningur í frumþáttatekjum sem skýrir lakari niðurstöðu í ár en í fyrra. Til frumþáttatekna teljast fjármagnstekjur og gjöld og launagreiðslur milli landa. Alls mældist 90 ma.kr. viðsnúningur milli ára, þar af var 68 ma.kr. breyting milli ára vegna þess að tap innlendra dótturfélaga í eigu erlenda aðila árið 2023 snerist í hagnað 2024. Tap þessara fyrirtækja kemur til hækkunar á frumþáttatekjum en hagnaður til lækkunar.

Afgangur af fjármagnsjöfnuði

Alls var 140 ma.kr. afgangur af fjármagnsjöfnuði í fyrra. Um 90 ma.kr. afgangur var á gjaldeyrisvarasjóði sem skýrist af því að ríkisjóður gaf út 750 milljóna evru skuldabréf í mars í fyrra, en ríkissjóður leggur andvirði þess inn í gjaldeyrisvarasjóðinn hjá Seðlabankanum. Tilsvarandi upphæð kemur til frádráttar í verðbréfum þannig að þetta, eitt og sér, hefur ekki áhrif á fjármagnsjöfnuð í heild. Það varð 51 ma.kr. afgangur af verðbréfum í heild sem skýrist af kaupum erlendra aðila á innlendum hluta- og skuldabréfum.

Kaup JBT á Marel flækist fyrir

Í fréttatilkynningunni tók Seðlabankinn fram að enn væri nokkur óvissa vegna „uppgjörs á sölu innlends iðnfyrirtækis til erlendra aðila“. Hér er líklegast átt við kaup JBT á Marel. Þetta sést í því að skekkjuliðurinn er óvenju hár núna, um 176 ma.kr. Seðlabankinn tekur fram að líkur séu á að tölurnar verði endurskoðaðar. Það myndi hafa áhrif á fjármagnsjöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins en ekki á viðskiptajöfnuð.

Krónan styrktist þrátt fyrir þetta

Þrátt fyrir þennan halla styrktist krónan á móti evrunni á árinu. Í upphafi árs stóð evran í 150,5 en í lok árs 143,9. Krónan veiktist hins vegar á móti Bandaríkjadal sem kostaði 136,2 í upphafi árs en 138,2 í lok árs. Hér á landi er virk verðmyndun á evru en gengi annarra gjaldmiðla, þar á meðal Bandaríkjadals, er reiknað út frá verði á evru og verði þess gjaldmiðils í evrum.

Þessi mótsögn milli hagtalna um viðskipti við útlönd og gengi krónunnar í fyrra skýrist meðal annars af því að viðskiptum fylgir ekki alltaf samsvarandi gjaldeyrisflæði. Hallann í fyrra má meðal annars rekja til mikils innflutnings á tölvum í tengslum við fjárfestingu í gagnaverum. Þær fjárfestingar eru erlendar, þar sem erlent fyrirtæki kaupir tölvubúnað erlendis sem fluttur er til Íslands til að reka gagnaver, og ættu því ekki að hafa áhrif á gengi krónunnar. Hluti af viðskiptahallanum skýrist einnig af hagnaði álfyrirtækjanna, sem kemur til lækkunar á frumþáttatekjum, en þetta er fyrst og fram reiknuð stærð og ekkert gjaldeyrisflæði þar á bakvið.

Erlend staða þjóðarbúsins batnaði á fjórðungnum

Í lok árs 2024 var hrein erlend staða þjóðarbúsins 1.960 ma.kr. sem samsvarar 43% af vergri landsframleiðslu. Hrein staða batnaði um 515 ma.kr. á síðasta ári, eða sem nemur 11,2% af VLF. Erlendar eignir jukust um 720 ma.kr. (15,6% af VLF) og skuldir jukust um 205 ma.kr.  (4,5% af VLF). Þetta er næst mesta hreina erlenda staða sem hlutfall af VLF sem mælst hefur, en í lok fjórða ársfjórðungs 2021 mældist hrein erlend staða 43,6% af VLF. En eins og kom fram að ofan er enn nokkuð óvissa í upplýsingum sem að Seðlabankinn hefur um lokauppgjör vegna kaupa JBT og Marel þannig að þessar tölur gætu átt eftir að breytast.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
1. apríl 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 1. apríl 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Hús í Reykjavík
31. mars 2025
Vikubyrjun 31. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,2% í 3,8% í mars. Lækkun á verðbólgu skýrist að langstærstum hluta af því að reiknuð húsaleiga hækkaði minna en í sama mánuði í fyrra. Undirliggjandi verðbólga hjaðnaði líka sem sést á því að VNV án húsnæðis og allar kjarnavísitölur lækkuðu á milli mánaða. Fjármálastöðugleikanefnd telur fjármálakerfið standa traustum fótum en segir mikla óvissu í alþjóðamálum geta reynt á viðnámsþrótt þjóðarbúsins.
27. mars 2025
Verðbólga mælist undir 4%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,37% á milli mánaða í mars, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar úr 4,2% í 3,8% og er komin undir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, í fyrsta skipti frá því í lok árs 2020. Verðmælingin var nokkuð góð en við teljum að á næstunni hægi á hjöðnuninni.
Fasteignir
24. mars 2025
Vikubyrjun 24. mars 2025
Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn í síðustu viku. Ákvörðunin var í takt við væntingar. Vísitala íbúðaverðs hélst nokkurn veginn óbreytt á milli mánaða í febrúar. Til samanburðar hækkaði verðið mun meira í febrúar í fyrra, um tæp 2%. Kortavelta landsmanna innanlands hélt áfram að aukast á milli ára í febrúar en jókst þó aðeins minna en undanfarna mánuði.
Ferðamenn
17. mars 2025
Vikubyrjun 17. mars 2025
Við búumst við að peningastefnunefnd lækki vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn. Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs og við spáum því að verðbólga lækki úr 4,2% í 3,9%. Atvinnuleysi var 4,3% í febrúar og hækkaði um 0,4 prósentustig á milli ára. 147 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar, 5,6% færri en í sama mánuði í fyrra.
Seðlabanki
13. mars 2025
Spáum vaxtalækkun um 0,25 prósentustig
Við spáum 0,25 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga hjaðnaði um 0,4 prósentustig í febrúar en við teljum að hagvöxtur umfram væntingar og aukin neysla, lítil breyting á verðbólguvæntingum og ólga á vinnumarkaði haldi peningastefnunefnd á tánum.
13. mars 2025
Spáum verðbólgu undir 4% í mars
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% á milli mánaða í mars og að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 3,9%. Hjöðnun á milli mánaða skýrist ekki síst af töluvert minni hækkun á reiknaðri húsaleigu en fyrir ári síðan. Við gerum ekki ráð fyrir miklum breytingum á verðbólgu næstu mánuði og teljum að hún verði áfram rétt undir 4% í júní.
Flutningaskip
10. mars 2025
Vikubyrjun 10. mars 2025
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra og sömuleiðis á vöruviðskiptum í febrúar samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti í síðustu viku, eins og við var búist. Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir marsmælingu vísitölu neysluverðs, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.
3. mars 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 3. mars 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Peningaseðlar
3. mars 2025
Vikubyrjun 3. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,6% í 4,2% í febrúar, en við teljum að heldur muni draga úr lækkunartakti verðbólgu næstu mánuði. Hagvöxtur mældist 2,3% á fjórða ársfjórðungi 2024 og 0,6% fyrir árið í heild. Umsvif í hagkerfinu voru umfram spár, en Hagstofan færði upp hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins. Í vikunni fram undan eru nokkur uppgjör, Seðlabankinn birtir greiðslujöfnuð við útlönd og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Evrópu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur