Aldrei fleiri ferðamenn í nóvembermánuði
Ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 9,3% á milli ára í nóvember og þeir hafa aldrei verið fleiri í nóvembermánuði. Annan mánuðinn í röð er slegið fjöldamet, en síðastliðinn októbermánuður var einnig sá fjölmennasti frá upphafi. Það sem af er ári hefur ferðamönnum fjölgað um tæplega 2% frá fyrra ári. Í hagspánni okkar frá því í október gerðum við ráð fyrir því að ferðamenn á árinu í heild yrðu um 2,2 milljónir og er útlit fyrir að sú spá gangi eftir og í raun gott betur. Fjöldi ferðamanna gæti slagað upp í 2,3 milljónir á árinu ef fjöldatölur í desember verða í takt við síðustu tvo mánuði.
Eldgosin á Reykjanesi höfðu töluverð áhrif á ferðaþjónustuna í ár
Árið í ferðaþjónustu litaðist að miklu leyti af eldgosunum á Reykjanesi. Rýming Grindavíkurbæjar og hraunflæði inn í bæinn fékk töluverða athygli í erlendum fjölmiðlum. Sú umfjöllun hafði eflaust nokkur áhrif á bókanir ferðamanna til landsins um vorið sem mátti sjá í samdrætti í ferðaþjónustu á öðrum ársfjórðungi á flesta mælikvarða. Á þriðja fjórðungi sýndu helstu mælikvarðar aftur á móti vöxt á milli ára og sama má segja um þær tölur sem borist hafa fyrir lokafjórðung ársins. Ferðamönnum hefur fjölgað töluvert á milli ára í október og nóvember og kortaveltutölur fyrir október sýndu 5,4% aukningu á milli ára á föstu verðlagi.
Verður næsta ár venjulegt ár í ferðaþjónustu?
Við spáðum nokkrum vexti í ferðaþjónustu á næsta ári. Vöxturinn sem við spáum byggist ekki síst á því að næsta ár verði meira og minna „venjulegt ár“ í ferðaþjónustunni, þ.e.a.s. að engin meiriháttar áföll muni hafa áhrif á þróunina eins og í ár. Það gefur samt auga leið að þegar gagnauppfærslur eru jafn miklar og raun ber vitni verður erfitt að rýna í stöðuna fram á við. Þótt staðan í dag sé enn nokkuð óljós sýnist okkur árið heilt yfir hafa verið þokkalegt í ferðaþjónustu og mögulega betra en á horfðist í upphafi þegar áhrif eldgosanna á Reykjanesi höfðu sem mest áhrif á bókunarstöðu.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.