Alls nam greiðslukortavelta íslenskra heimila 112,7 mö. kr. í nóvember og jókst um 4,9% á milli ára, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Innanlands jókst kortavelta íslenskra heimila um 0,7% að raunvirði og erlendis um 17,4%, á föstu gengi, sé miðað við nóvembermánuð í fyrra.
Verulega aukin kortavelta erlendis
Stóraukin kortavelta Íslendinga erlendis, miðað við nóvember í fyrra, er áhugaverð í ljósi þess hversu verulega ferðum Íslendinga til útlanda fækkaði milli ára samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Kortaveltan erlendis jókst um 17,4% en ferðum fækkaði um 22,1% frá því í nóvember í fyrra. Hér spilar eflaust inn í verulega aukin netverslun á erlendum vefsíðum, en einnig hefur verið bent á að talning Ferðamálastofu sé á skjön við flutningstölur íslensku flugfélaganna, sem sýndu fjölgun utanlandsferða Íslendinga í nóvember, og ríma þannig betur við kortaveltutölur mánaðarins.
Áfram innistæða til neyslu og vaxtalækkanir í kortunum
Kortaveltan hefur aukist milli ára nær allt þetta ár, þrátt fyrir háa vexti. Heimilin virðast að jafnaði áfram hafa innistæðu til neyslu, innlán hafa aukist auk þess sem yfirdráttalán hafa ekki færst í aukana. Hugsanlega spilar enn inn í hversu mikill sparnaður safnaðist upp á tímum faraldursins, en einnig kröftugar launahækkanir síðustu ára. Þá verður forvitnilegt að fylgjast með hvort vaxtalækkanir komi til með að blása enn frekara lífi í neyslu.
Erlend kortavelta innanlands eykst töluvert
Kortavelta erlendra greiðslukorta hér á landi jókst um 6,3% á föstu verðlagi milli ára í nóvember, samkvæmt gögnum Seðlabankans. Það er nokkurn veginn í takt við býsna kröftugar ferðamannatölur sem komu í síðustu viku. Samkvæmt þeim fjölgaði erlendum ferðamönnum um 9,3% í nóvember. Séu kortaveltutölurnar leiðréttar fyrir gengi sýna þær um 14,3% aukningu milli ára.
Það sem af er ári hefur kortavelta á föstu verðlagi staðið í stað, en frá því í maí og þar til í nóvember hafði hún verið minni en á sama tíma í fyrra. Ferðaþjónustutölur fyrir október og nóvember eru því nokkuð kröftugar og sýna þó nokkurn vöxt milli ára.
Greiðslukortajöfnuður neikvæður í nóvember
Greiðslukortajöfnuður var neikvæður um 8 ma.kr. í nóvember. Það þýðir að erlend kortavelta hér á landi var 8 mö.kr. meiri en íslensk kortavelta í útlöndum. Til samanburðar var jöfnuðurinn neikvæður um 7 ma.kr. í nóvember í fyrra. Almennt er afgangur á sumrin sem snýst yfir í halla í október eða í nóvember, eins og í ár.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.