Vikubyrjun 30. október 2023
Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir október.
- Á þriðjudag birtir Síminn uppgjör.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun í Bandaríkjum.
- Á fimmtudag birtir Kvika banki uppgjör. Englandsbanki tilkynnir um vaxtabreytingu.
Mynd vikunnar
Þegar vextir voru hvað lægstir voru ný íbúðalán bankanna að mestu leyti óverðtryggð á breytilegum vöxtum. Þegar vextir tóku að hækka fór fólk í auknum mæli að taka óverðtryggð lán með föstum vöxtum. Nú þegar stýrivextir eru komnir upp í 9,25% og vextir á óverðtryggðum íbúðalánum eru um eða yfir 10% liggur straumurinn aftur í verðtryggð íbúðalán, enda afborganir af verðtryggðum lánum hækkað til muna. Flest heimili taka nú verðtryggð lán með breytilegum vöxtum frekar en föstum, enda eru breytilegir vextir aðeins lægri en þeir föstu.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Hagstofan birti talnaefni um veltu samkvæmt VSK-skýrslum fyrir tímabilið júlí-ágúst. Veltan jókst nokkuð á milli ára í öllum helstu atvinnugreinum nema í framleiðslu málma. Mesta aukning milli ára var í fasteignaviðskiptum og húsaleigu, rekstri gististaða, leigu á bifreiðum og hugbúnaðargerð.
- Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu um fasteignamarkaðinn. Nýjum byggingarverkefnum hefur fækkað til muna. Milli síðustu tveggja íbúðatalninga HMS hófst bygging á aðeins 768 nýjum íbúðum, en þær voru 2575 á sama tíma í fyrra.
- Seðlabanki Evrópu hélt vöxtum óbreyttum. Þetta er í kjölfar tíu vaxtahækkana í röð. Meginvextir bankans, vextir á innlánum, verða áfram 4,0%, en þeir fóru lægst í -0,5% áður en vaxtahækkunarferlið hófst.
- Arion banki, Festi (fjárfestakynning), Íslandsbanki, Landsbankinn, Marel (fjárfestakynning), Play, Sjóvá og Skel fjárfestingarfélag birtu uppgjör.