Krón­an styrkt­ist á síð­asta ári

Krónan styrktist á móti evru en veiktist aðeins á móti Bandaríkjadal á árinu 2024. Árið var nokkuð rólegt á millibankamarkaði með gjaldeyri þar sem velta dróst saman og minna var um flökt.
Pund, Dalur og Evra
17. janúar 2025

Það er óhætt að segja að gengi krónunnar hafi verið frekar stöðugt í fyrra. Í upphafi árs kostaði evra 150,5 kr. Gengið breyttist lítið á fyrstu sjö mánuðum ársins og evran sveiflaðist í kringum 150 kr.  Í ágúst veiktist krónan svo og evran fór hæst í 153,3 kr. Veikingin gekk til baka, og gott betur, og í lok árs stóð evran í 143,9 kr.

Krónan styrktist umfram væntingar í lok árs

Undir lok árs styrktist krónan meira en við höfðum búist við. Í hagspá sem við gáfum út í apríl gerðum við ráð fyrir að evran myndi kosta 148 kr. í lok árs og í október gerðum við ráð fyrir að evran myndi enda árið í 149 kr. Raunin varð sem fyrr segir tæplega 144 kr. Bandaríkjadalur styrktist á móti evru með þeim afleiðingum að krónan styrktist ekki á móti Bandaríkjadal. Hér á landi er virk verðmyndun á evru en gengi annarra gjaldmiðla er reiknað út frá verði á evru og verði þess gjaldmiðils í evrum.

Alls lækkaði gengisvísitalan, þ.e. krónan styrktist, um 3,8% í fyrra. Munar þar mestu um að verð á evru lækkaði um 4,4%, en evran og danska krónan (sem er beintengd evrunni) er helmingur gengisvísitölunnar. Bandaríkjadalur styrktist og verð á honum hækkaði um 1,5%. Af öðrum gjaldmiðlum má nefna að verð á norsku krónunni lækkaði og það sama má segja um sænsku krónuna, Kanadadollar og svissneska frankann en verð á sterlingspundi stóð nokkurn veginn í stað.

Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri dróst saman á milli ára

Á millibankamarkaði með gjaldeyri eru stóru viðskiptabankarnir þrír (Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn) og Seðlabanki Íslands. Á markaðnum fara fram viðskipti með evrur gegn greiðslu í íslenskum krónum. Alls var veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri 216 ma.kr. (1.454 m.evra) í fyrra. Veltan dróst saman um 10% á milli ára og hefur ekki verið lægri síðan 2019. Þess ber þó að geta að velta á millibankamarkaði segir ekki alla söguna varðandi umfang viðskipta með gjaldeyri hér á landi. Almennt reyna viðskiptabankarnir að para saman kaup og sölu á gjaldeyri hjá viðskiptavinum sínum og fara aðeins út á markað ef misræmi myndast í viðskiptunum. Þannig fer stór hluti gjaldeyrisviðskipta aðeins fram innanhúss og ratar ekki út á millibankamarkað.

Seðlabanki grípur inn á gjaldeyrismarkaði þegar hann sér ástæðu til. Seðlabankinn var mjög virkur á síðari hluta uppgangsára ferðaþjónustunnar, árin 2012-2017. Þá keypti hann gjaldeyri í stórum stíl sem gerði honum kleift að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð. Á meðan heimsfaraldurinn reið yfir seldi Seðlabankinn hluta af þessum gjaldeyri til að milda áhrif lokunar landsins. Síðustu tvö ár hefur veltan nær eingöngu skýrst af viðskiptum á milli viðskiptabankanna. Seðlabankinn greip aðeins eitt sinn inn á markaðinn í fyrra, en í febrúar keypti hann erlendan gjaldeyri fyrir 9,2 ma.kr. til að mæta innflæði vegna kaupa erlends aðila á ríkisskuldabréfum í útboði.

Krónan sveiflaðist með minnsta móti í fyrra

Eins og kom fram hér að ofan var krónan tiltölulega stöðug í fyrra. Meðalflökt var 3,9% og hefur ekki verið minna síðan árið 2016.

Almennt sveiflast krónan minna á móti evru en öðrum gjaldmiðlum. Skýrist það bæði af að evran er stærsta myntin í utanríkisviðskiptum og einnig sá gjaldmiðill sem verslað er með á millibankamarkaði. Það var einnig raunin í fyrra, þ.e. flökt á verði evru (og dönsku krónunnar) var nokkuð minna en flökt í myntum annarra helstu viðskiptalanda okkar.

Loðna og ferðamenn gætu styrkt krónuna frekar í ár

Það verður forvitnilegt að fylgjast með þróun á gjaldeyrismarkaði í ár. Krónan endaði árið sterkari en spár gerðu ráð fyrir. Vísbendingar eru um að það hafi ræst úr stöðu utanríkisviðskipta og nýjustu gögn Ferðamálastofu sýna að fleiri ferðamenn komu til landsins í fyrra en spár gerðu ráð fyrir, eða 2,26 milljónir. Við spáðum því að fjöldinn yrði 2,2 milljónir. Loðnubrestur setti þó svip sinn á fyrri hluta ársins og ekki hefur verið gefinn út loðnukvóti fyrir árið í ár. Eflaust skýrist á næstu dögum hvort af loðnuveiðum verður, með tilheyrandi áhrifum á utanríkisviðskipti og gengi krónunnar. Þar að auki gæti innflæði í fjárfestingar hér á landi á árinu haft áhrif til styrkingar krónunnar.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Fasteignir
24. mars 2025
Vikubyrjun 24. mars 2025
Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn í síðustu viku. Ákvörðunin var í takt við væntingar. Vísitala íbúðaverðs hélst nokkurn veginn óbreytt á milli mánaða í febrúar. Til samanburðar hækkaði verðið mun meira í febrúar í fyrra, um tæp 2%. Kortavelta landsmanna innanlands hélt áfram að aukast á milli ára í febrúar en jókst þó aðeins minna en undanfarna mánuði.
Ferðamenn
17. mars 2025
Vikubyrjun 17. mars 2025
Við búumst við að peningastefnunefnd lækki vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn. Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs og við spáum því að verðbólga lækki úr 4,2% í 3,9%. Atvinnuleysi var 4,3% í febrúar og hækkaði um 0,4 prósentustig á milli ára. 147 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar, 5,6% færri en í sama mánuði í fyrra.
Seðlabanki
13. mars 2025
Spáum vaxtalækkun um 0,25 prósentustig
Við spáum 0,25 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga hjaðnaði um 0,4 prósentustig í febrúar en við teljum að hagvöxtur umfram væntingar og aukin neysla, lítil breyting á verðbólguvæntingum og ólga á vinnumarkaði haldi peningastefnunefnd á tánum.
13. mars 2025
Spáum verðbólgu undir 4% í mars
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% á milli mánaða í mars og að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 3,9%. Hjöðnun á milli mánaða skýrist ekki síst af töluvert minni hækkun á reiknaðri húsaleigu en fyrir ári síðan. Við gerum ekki ráð fyrir miklum breytingum á verðbólgu næstu mánuði og teljum að hún verði áfram rétt undir 4% í júní.
Flutningaskip
10. mars 2025
Vikubyrjun 10. mars 2025
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra og sömuleiðis á vöruviðskiptum í febrúar samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti í síðustu viku, eins og við var búist. Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir marsmælingu vísitölu neysluverðs, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.
Sendibifreið og gámar
7. mars 2025
Verri niðurstaða í viðskiptum við útlönd
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra, en stór hluti hans var vegna færslna sem höfðu ekki í för með sér gjaldeyrisflæði og styrktist krónan því þrátt fyrir þetta og erlend staða þjóðarbúsins batnaði.
3. mars 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 3. mars 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Peningaseðlar
3. mars 2025
Vikubyrjun 3. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,6% í 4,2% í febrúar, en við teljum að heldur muni draga úr lækkunartakti verðbólgu næstu mánuði. Hagvöxtur mældist 2,3% á fjórða ársfjórðungi 2024 og 0,6% fyrir árið í heild. Umsvif í hagkerfinu voru umfram spár, en Hagstofan færði upp hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins. Í vikunni fram undan eru nokkur uppgjör, Seðlabankinn birtir greiðslujöfnuð við útlönd og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Evrópu.
28. feb. 2025
Hagvöxtur var 0,6% í fyrra
Hagvöxtur var 0,6% árið 2024. Krafturinn í hagkerfinu var lítillega umfram flestar spár sem gerðu heldur ráð fyrir lítils háttar samdrætti. Hagvöxturinn var ekki síst drifinn áfram af aukinni fjárfestingu, bæði í atvinnuvegum og íbúðauppbyggingu.
Epli
27. feb. 2025
Verðbólga hjaðnar í 4,2%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% á milli mánaða í febrúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 4,6% í 4,2%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði, þó það hægi á lækkunartaktinum, og mælist 3,8% í maí.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur