Ný útgáfa af almennum viðskiptaskilmálum
Við höfum birt nýja útgáfu af almennum viðskiptaskilmálum bankans. Skilmálarnir gilda í viðskiptum milli Landsbankans og viðskiptavina, hvort sem um er að ræða einstakling eða fyrirtæki. Auk skilmálanna gilda, eftir atvikum, ákvæði samninga, skilmála og reglna um einstakar vörur eða þjónustu sem bankinn kann að veita viðskiptavini.
Með útgáfunni eru uppfærð ýmis ákvæði skilmálanna í ljósi breyttra laga og reglna auk þess sem orðalag er skýrt, m.a. varðandi vinnslu persónuupplýsinga, framkvæmd áreiðanleikakönnunar, heimildir lögráðamanns, umboð, öryggisráðstafanir, greiðslureikninga og greiðslukort. Þá er uppfærslunni ætlað að veita viðskiptavinum nánari fræðslu um þau atriði sem þar er fjallað um.
Nýju skilmálarnir gilda frá og með 1. júní 2023 gagnvart nýjum viðskiptavinum, þ.e. þeim viðskiptavinum sem staðfesta skilmálana frá og með þeim degi. Gagnvart núverandi viðskiptavinum gilda eldri skilmálar til 31. júlí 2023 en nýju skilmálarnir frá og með 1. ágúst 2023.
Skilmálarnir eru aðgengilegir á afgreiðslustöðum bankans og á vef bankans:
Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans (ný útgáfa)
Helstu efnisbreytingar á almennum viðskiptaskilmálunum eru eftirfarandi:
- Heimilisfang bankans er uppfært (grein 1.3).
- Vinnsla persónuupplýsinga er skýrð og aukin fræðsla veitt þar að lútandi (grein 2.1). Samhliða útgáfu uppfærðra skilmála er persónuverndarstefna bankans uppfærð.
- Kveðið er nánar á um framkvæmd áreiðanleikakönnunar að því er varðar húsfélög (grein 2.3).
- Tekið er fram að lögráðamanni er heimilt að fá upplýsingar um viðskipti ófjárráða viðskiptavinar (grein 2.6).
- Ákvæði um umboð er uppfært að því er varðar breytingar, afturköllun og niðurfellingu umboðs (grein 2.7).
- Tekið er fram að viðskiptavinum beri að kynna sér leiðbeiningar og tilmæli bankans um öryggisráðstafanir og fylgja þeim (grein 2.9).
- Tekið er fram að ef viðskiptavinur fær sent einskiptis auðkenningarnúmer/-kóða til samþykktar á framkvæmd greiðslu skal hann ekki heimila greiðsluna með númerinu/kóðanum nema hafa sannreynt að um rétta fjárhæð, réttan gjaldmiðil og réttan viðtakanda sé að ræða (grein 3.1, 2. mgr. og grein 5.4, 1. mgr.).
- Afmörkun greiðslureikninga gagnvart sparireikningum og öðrum reikningum er skýrð (grein 4.1, 1. mgr.).
- Orðalag um verðtryggingu og bindingu innstæðu er uppfært í ljósi nýrra reglna Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár (grein 4.1, 3. mgr. og grein 4.6, 2. mgr.).
- Bætt er við ákvæði um boðskiptaleið fyrir framlagningu gjaldayfirlits skv. lögum um greiðslureikninga (grein 4.4).
- Sett er inn ákvæði um boðgreiðslur (grein 5.3, 3. mgr.).
- Skýrðar eru afleiðingar uppsagnar eða lokunar á korti m.t.t. greiðsludreifingar og eftirstöðva á kortareikningi (grein 5.6, 2. mgr.).
- Upplýsingar eru skýrðar um tilkynningu til bankans um óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu og hvaða skilyrði eru fyrir bótaábyrgð vegna slíkrar greiðslu (grein 6, 1. mgr.).
- Kveðið er á um að uppsögn samnings um greiðslureikning skv. lögum um greiðslureikninga fari eftir ákvæðum þeirra laga (grein 7, 1. mgr.).
- Upplýsingar um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki eru uppfærðar, m.a. um nýtt heimilisfang og vefsetur nefndarinnar (grein 7, 3. mgr.).
Ákvæði skilmálanna sem falla undir gildissvið laga um greiðsluþjónustu mynda rammasamning um greiðsluþjónustu milli viðskiptavinar og bankans í skilningi laga um greiðsluþjónustu. Núverandi viðskiptavinur hefur rétt á að tilkynna bankanum um uppsögn rammasamnings um greiðsluþjónustu fyrir 1. ágúst 2023 ef hann vill ekki samþykkja breytingarnar. Núverandi viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann bankanum ekki um annað fyrir 1. ágúst 2023.