Langtímalán frá NIB í tengslum við nýbyggingu bankans
Landsbankinn hefur samið við Norræna fjárfestingarbankann (NIB) um lán til 15 ára að fjárhæð 40 milljónir Bandaríkjadala (5,8 milljarðar króna) í tengslum við nýbyggingu bankans við Austurbakka í Reykjavík. Gert er ráð fyrir því að húsið fái framúrskarandi einkunn samkvæmt BREEAM-vottunarkerfinu og fellur lánveitingin undir fjármögnunarramma tengdum umhverfisskuldabréfum NIB.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, segir: „Við höfum sett okkur skýr og metnaðarfull markmið í umhverfismálum. Í öllu hönnunar- og byggingarferli hússins höfum við haft það að markmiði að það fái framúrskarandi einkunn í BREEAM-vottunarkerfinu. Með þeirri ákvörðun stuðlum við að minni mengun á framkvæmdar- og rekstrartíma byggingarinnar. Um leið höfðum við þann möguleika í huga að framúrskarandi umhverfiseinkunn gæfi okkur kost á að fjármagna húsið með hagkvæmari hætti en annars væri í boði. Það er ánægjulegt að sú hefur orðið raunin með samkomulaginu við NIB, en frá árinu 2015 höfum við unnið með þeim að þremur vel heppnuðum verkefnum og er þessi samningur til marks um það mikla traust sem hefur myndast í samstarfinu.“
Nýbygging Landsbankans er alls um 16.500 fermetrar. Bankinn mun nýta rúmlega 10.000 fermetra en íslenska ríkið hefur keypt svonefnt Norðurhús byggingarinnar sem er alls um 6.000 fermetrar. Alþjóðlega BREEAM-vottunarkerfið snýr m.a. að umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góðri orkunýtingu og vatnssparnaði, vali á umhverfisvænum byggingarefnum og lágmörkun ýmiskonar mengunar frá byggingunni.
Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu aðildarlandanna átta: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna.