Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var umsjónaraðili með söluferli og ráðgjafi við sölu á Freyju
Eigendur sælgætisgerðarinnar Freyju og Langasjávar ehf. hafa komist að samkomulagi um kaup Langasjávar á K-102 ehf. sem á dótturfélagið Freyju að fullu og einnig fasteignir sem tengjast rekstrinum. Kaupin eru háð hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var umsjónaraðili með söluferli K-102 ehf. og ráðgjafi seljenda.
Freyja er fjölskyldufyrirtæki í eigu Ævars Guðmundssonar og fjölskyldu. Freyja er elsta starfandi sælgætisgerð á Íslandi og þar starfa um 50 manns. Hún var stofnuð árið 1918 og er eitt þekktasta vörumerki landsins.
Í sameiginlegri tilkynningu frá Freyju og Langasjó sagði Ævar Guðmundsson, stjórnarformaður Freyju: „Eftir yfir 40 ára uppbyggingu okkar fjölskyldunnar á Freyju er fyrirtækið komið á mjög góðan stað en jafnframt með gríðarlega mörg ónýtt tækifæri í augsýn. Sérstaklega í vöruþróun og stöðugum vexti í útflutningi eftir 15 ára vinnu við að byggja upp viðskiptatengsl. Því finnst mér þetta góður tími til að hefja nýjan kafla í lífinu og koma fyrirtækinu í hendur á traustum eigendum. Mér er umhugað um fjölskylduleg gildi og að koma vel fram við starfsfólkið mitt og þess vegna líður mér mjög vel með að setja Freyju í hendur fjölskyldufyrirtækisins Langasjávar sem ég veit að hefur líðan starfsfólksins í forgrunni.“
Langisjór er móðurfélag fyrirtækja í framleiðslu og dreifingu á matvælum og sinnir einnig útleigu og uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar ehf. eru Alma íbúðafélag hf., Brimgarðar ehf., Mata hf., Matfugl ehf., Salathúsið ehf. og Síld og fiskur ehf. Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra.