Breytingar á innskráningu í netbanka og app
Við vekjum athygli á að ekki er lengur hægt að skrá sig inn í netbankann og appið með notandanafni og lykilorði. Breytingin tók gildi 10. október síðastliðinn. Tilgangurinn með breytingunni er að auka öryggi við innskráningu.
Nýjar reglur um það sem nefnist sterk auðkenning hafa tekið gildi en í þeim eru gerðar stífari kröfur um hvernig þú staðfestir netbankagreiðslur og við verslun á netinu. Samhliða þessum breytingum höfum við fjölgað innskráningarleiðum í netbanka og app en jafnramt lokað fyrir innskráningar með notandanafni.
- Þú getur skráð þig inn í netbankann með því að nota rafræn skilríki eða Auðkennisappið.
- Þú getur skráð þig inn í appið með því að nota fingrafar, andlitsgreiningu eða rafræn skilríki.
Fram til 10. október sl. var hægt að skrá sig inn í netbanka og app með því að slá inn notandanafn og lykilorð og staðfesta síðan innskráninguna með því að slá inn auðkennisnúmer sem barst með SMS-i. Þetta er ekki lengur hægt, heldur er nú gerð krafa um sterkari auðkenningu. Breytingarnar voru kynntar á innskráningarsíðu netbankans og appsins í september og október.
Öruggari innskráning
Að okkar mati eru SMS-sendingar ekki lengur örugg samskiptaleið við innskráningu. Ástæðan er meðal annars vaxandi fjöldi svika sem byggja á því að send eru SMS og tölvupóstar undir fölskum formerkjum. Þegar smellt er á hlekkinn í póstinum eða SMS-inu opnast fölsuð síða. Ef fólk slær þar inn notandanafn og lykilorð eru svikararnir komnir með þessar upplýsingar og geta notað þær í glæpsamlegum tilgangi. Bönkum ber ekki lagaleg skylda til að hætta að bjóða upp á innskráningu með SMS-um. Við teljum engu að síður rétt að gera það til að auka öryggi og minnka hættu á svikum og misnotkun á þjónustu bankans.
Um leið gerum við okkur grein fyrir að sumir viðskiptavinir geta ekki notað rafræn skilríki, Auðkennisappið eða lífkenni (fingrafar eða andlitsgreiningu). Ef þú ert í þannig stöðu biðjum við þig að hafa samband við okkur í síma 410 4000, senda okkur tölvupóst í landsbankinn@landsbankinn.is eða spjalla við okkur í netspjallinu þar sem þú getur líka pantað tíma.