Um 130 manns sóttu fræðslufund um netöryggi fyrir eldri borgara
Landsbankinn, í samvinnu við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, stóð þann 5. október 2022 fyrir fræðslufundi um netöryggismál. Mikill áhugi er á málefninu og alls komu um 130 félagsmenn í FEB á fundinn.
Miðað við þau mál sem hafa borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017 eru yfir helmingur þeirra sem urðu fyrir tjóni af völdum netglæpa yfir 67 ára. Þörfin fyrir fræðslu og upplýsingar fyrir þennan hóp er því mikil og var þetta annar fræðslufundurinn sem bankinn heldur í samvinnu við FEB á þessu ári.
Fundurinn var haldinn í sal FEB í Stangarhyl 4 og var vel sóttur.
Brynja María Ólafsdóttir, sérfræðingur í regluvörslu hjá bankanum. Myndir: Heiða Helgadóttir.
Á fundinum fjallaði Brynja María Ólafsdóttir, sérfræðingur í regluvörslu hjá bankanum, um helstu aðferðir netsvikara og hvernig hægt er að verjast þeim.
Hún ræddi m.a. um að úti í heimi eru skipulagðir glæpahópar sem hafa það eina markmið að svíkja fé út úr fólki. Slíkir hópar eru sérfræðingar í að nýta sér góðmennsku og traust fólks til að sannfæra það um að hjálpa öðrum og/eða sannfæra einstaklinga um að þeim bjóðist frábær fjárfestingartækifæri. Það er einmitt í svokölluðum fjárfestingasvikum þar sem mesta tjónið verður og hafa fjórir eldri borgarar tapað yfir 60 milljónum króna í svikum af því tagi hér á landi. Brynja brýndi fyrir fundargestum að hafa í huga að ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá sé það sjaldnast satt. Þá sé afar mikilvægt að láta aldrei persónu- eða fjármálaupplýsingar af hendi til ókunnugra eða gefa öðrum, hvað þá ókunnugum, aðgang að tölvu eða síma.
Við vekjum athygli á að á vef bankans er mikið af fræðsluefni um netöryggi, bæði greinar og myndbönd.