Fyrsta farþegaflug rafmagnsflugvélar á Íslandi
Mörkuð voru tímamót í flugsögu Íslands 23. september þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, voru fyrstu farþegar rafmagnsflugvélar á Íslandi í fyrstu tveimur farþegaflugunum. Viðburðurinn fór fram á Reykjavíkurflugvelli og þar voru stigin mikilvæg skref í orkuskiptum flugsamgangna.
Landsbankinn er einn af bakhjörlum verkefnisins. Flugvélin sem ber skráninguna TF-KWH er tveggja sæta af gerðinni Pipistrel og er framleidd í Slóveníu. Hún er á stærð við þær vélar sem notaðar eru í flugkennslu hér á landi og er fyrsta rafdrifna flugvélin sem fær flughæfiskírteini á Íslandi.
Guðni Th. Jóhannesson var fyrsti farþeginn.
TF-KWH á Reykjavíkurflugvelli.
Félagið Rafmagnsflug ehf. flutti rafmagnsflugvélina til landsins með það að markmiði að taka frumkvæði í orkuskiptum í flugi, þjálfa starfsfólk í þessari nýju tækni og kynna hana fyrir landsmönnum. Rafmagnsflug ehf. var stofnað af Matthíasi Sveinbjörnssyni og Friðriki Pálssyni í árslok 2021.
Bakhjarlar félagsins eru fyrirtæki og einstaklingar sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að flýta orkuskiptum í flugi og kynna þær tækninýjungar sem unnið er að um þessar mundir. Samstarf milli hagaðila er lykilatriði þegar kemur að orkuskiptum.
Katrín Jakobsdóttir og Matthías Sveinbjörnsson í vélinni.
Guðni Th. Jóhannesson ávarpar viðstadda í tilefni dagsins.
Stærstu bakhjarlarnir eru Icelandair, Isavia, Landsvirkjun og Hótel Rangá. Aðrir bakhjarlar eru Landsbankinn, Flugskólinn Geirfugl, Flugskóli Reykjavíkur, Flugakademía Íslands, ásamt Matthíasi, Friðriki og Herjólfi Guðbjartssyni.
Flugvélin verður notuð í flugkennslu en auk þess er gert ráð fyrir að almenningur muni geta keypt sér útsýnisflug með þessari fyrstu rafmagnsflugvél á Íslandi.