Landsnet fær sjálfbærnimerki Landsbankans
Landsnet hf. hefur fengið sjálfbærnimerki Landsbankans vegna flutnings á raforku með lágu kolefnisspori. Merkið er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn verkefni.
„Flutningskerfi raforku er lykilinnviður á Íslandi. Heimili og fyrirtæki nýta rafmagn á hverjum degi og aðgengi að raforku er ein af forsendum uppbyggingar nýrrar atvinnustarfsemi. Raforkuflutningur hefur líka áhrif á loftslagsmál. Til að orkuskipti geti átt sér stað þarf að styrkja flutningskerfið. Lánveitendur fyrirtækisins undanfarið ár hafa staðfest að starfsemi Landsnets fellur að viðmiðum bankanna varðandi mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum og sjálfbæra innviði. Við hjá Landsneti tökum með stolti á móti sjálfbærnimerki Landsbankans,“ segir Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets.
Sjálfbær fjármögnun
Fyrirtæki geta óskað eftir því að fá sjálfbærnimerki Landsbankans ef fyrirtækið, eða verkefnið sem verið er að fjármagna, uppfyllir skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans. Dæmi um sjálfbær verkefni eru til að mynda orkuskipti í samgöngum, endurnýjanleg raforkuframleiðsla, sjálfbærnivottaðar fiskveiðar, vistvænar byggingar og verkefni sem stuðla að félagslegri uppbyggingu.
Á myndinni eru Árni Þór Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs hjá Landsbankanum, Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets og Ingvar H. Ragnarsson, forstöðumaður fjárstýringar og ráðgjafar Landsnets.