Hagnaður Landsbréfa 1.410 milljónir á árinu 2021
Landsbréf hf. hafa birt ársreikning vegna reksturs ársins 2021. Helstu niðurstöður eru þessar:
- Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 1.410 milljónum króna eftir skatta á árinu 2021, samanborið við 768 milljónir á árinu 2020.
- Hreinar rekstrartekjur námu 2.937 milljónum króna á árinu 2021, samanborið við 1.964 milljónir króna á árinu 2020.
- Eigið fé í árslok 2021 var 5.969 milljónir króna samanborið við 5.059 milljónir króna í árslok 2020.
- Í lok tímabilsins voru eignir í sjóðastýringu rúmir 306 milljarðar króna samanborið við 210 milljarða króna árið áður og auk þess voru í lok árs um 238 milljarðar króna í stýringu samkvæmt eignastýringarsamningum samanborið við 195 milljarða króna árið áður.
- Starfsmenn voru 21 talsins í árslok og fjölgaði um einn á árinu.
Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa:
„Árið 2021 var farsælt fyrir Landsbréf og eins fyrir þá fjölmörgu einstaklinga og lögaðila sem fjárfest hafa í sjóðum Landsbréfa. Eignir í sjóðastýringu jukust um 45% á árinu sem endurspeglar bæði góða ávöxtun sjóða Landsbréfa og ekki síður þá staðreynd að stöðugt fleiri velja sjóði Landsbréfa til að ávaxta fjármuni sína. Við erum einstaklega þakklát því trausti sem fjárfestar sýna okkur hjá Landsbréfum og höfum einsett okkur að leggja áfram metnað okkar í að ávaxta á ábyrgan hátt þá fjármuni sem okkur er falið að stýra.
Landsbréf leggja metnað sinn í að bjóða upp á fjölbreytt úrval sjóða fyrir mismunandi þarfir fjárfesta og á árinu 2021 tóku nokkrir nýir sjóðir til starfa. Þar á meðal er Horn IV slhf. sem 15 milljarða framtakssjóður og Brunnur vaxtarsjóður II slhf., sem er 8,3 milljarða vísisjóður. Af sjóðum fyrir almenna fjárfesta má nefna sérhæfða sjóðinn Landsbréf – Eignadreifing sjálfbær hs. sem er eignadreifingarsjóður sem hefur sérstakar áherslur á sjálfbærni í fjárfestingastefnu sinni. Það er ánægjulegt að sjá þær góðu viðtökur sem sjóðurinn hefur fengið, sem endurspeglar þá vitundarvakningu sem er að eiga sér stað í íslensku samfélagi um að ábyrgar fjárfestingar með áherslur á sjálfbærni er framtíðin og á því sviði viljum við hjá Landsbréfum halda áfram að vera í fararbroddi.“