Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans ráðgjafi við sölu á Eldum rétt til Haga
Hagar hf. og eigendur Eldum rétt ehf. hafa gert samkomulag um kaup Haga á öllu hlutafé Eldum rétt. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi seljenda í viðskiptunum.
Eldum rétt var stofnað árið 2014 en fyrirtækið sérhæfir sig í gerð matarpakka sem viðskiptavinir geta pantað á netinu. Í tilkynningu frá Högum segir m.a. að stjórnendur og starfsfólk Eldum rétt hafi skapað sterkt vörumerki og sýn til framtíðar sem tóni vel við tíðarandann og aukna áherslu á sjálfbærni og umhverfi. Vinsældir fyrirtækisins byggi þó ekki síst á gæðum hráefnis og uppskrifta og einstaklega lipurri og áreiðanlegri þjónustu. Fyrirtækið verði rekið áfram í sömu mynd en með nýjum eigendum verði hægt að ráðast í skemmtileg verkefni og hraða allri framþróun félagsins.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.