Efstur banka í Ánægjuvoginni þriðja árið í röð
Landsbankinn mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni 2021 hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu og er þetta þriðja árið í röð sem bankinn fær þessa viðurkenningu.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Það eru frábærar fréttir að Landsbankinn hafi þriðja árið í röð mælst efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni. Viðurkenningin er hvatning til okkar frá viðskiptavinum um að halda áfram að leggja okkur fram við að gera þjónustuna einfaldari, þægilegri og betri.
Með stefnu okkar, Landsbanka nýrra tíma, ætlum við að einfalda líf viðskiptavina og ánægja viðskiptavina er okkar helsta markmið. Þessi viðurkenning er til marks um að við séum á réttri leið. Það er fullt af tækifærum fram undan og við erum full af orku og metnaði.
Viðskiptavinir kunna vel að meta að við leggjum okkur fram um að veita góða þjónustu. Á meðan sum eru ánægð vegna þess að þeim finnst appið okkar vera besta bankaappið, þá eru önnur fyrst og fremst ánægð vegna þess að þau fengu trausta ráðgjöf og góð kjör á íbúðalánið. Tugir nýrra stafrænna lausna undanfarin ár styrkja og efla þjónustu bankans og gerir starfsfólki bankans um land allt kleift að einbeita sér að því að finna lausnir og aðstoða viðskiptavini, bæði einstaklinga og fyrirtæki.
Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei verið hærri og fyrirtækjum í viðskiptum hefur aldrei fjölgað jafn mikið. Allt virkar þetta sem vítamínsprauta á starfsfólk bankans sem hefur gríðarlegan metnað fyrir því að gera vel.
Við erum stolt af þessum árangri sem næst með því að allt starfsfólk bankans stefnir í sömu átt. Fyrst og fremst erum við þakklát viðskiptavinum fyrir að velja Landsbankann.“
Íslenska ánægjuvogin er félag í eigu Stjórnvísi og er framkvæmd í höndum Prósents.