Ljósleiðarinn fær sjálfbærnimerki Landsbankans
Ljósleiðarinn ehf. hefur fengið sjálfbærnimerki Landsbankans vegna uppsetningar og rekstrar ljósleiðara. Merkið er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn verkefni.
Birna Bragadóttir, stjórnarformaður Ljósleiðarans:
„Við erum afar ánægð með að fá þessa viðurkenningu frá Landsbankanum. Hún staðfestir að starfsemi Ljósleiðarans stenst strangar kröfur um samfélagslega ábyrgð. Við stefnum að því að reksturinn hjá okkur verði kolefnishlutlaus innan skamms en í eðli sínu er rekstur okkar öfluga ljósleiðaranets, sem knúið er grænni orku, umhverfisvænn því hann hefur gert svo gríðarlega mörgum kleift að smækka líka sín kolefnisspor.“
Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Landsbankans:
„Það er mjög ánægjulegt að veita Ljósleiðaranum sjálfbærnimerki bankans vegna lagningar og rekstrar á ljósleiðara. Með sjálfbærnimerkinu viljum við styðja viðskiptavini okkar í sjálfbærnivinnu þeirra. Ljósleiðarinn hefur frá stofnun veitt heimilum og fyrirtækjum aðgang að hágæða ljósleiðara í stað samskiptakerfa sem nýta koparbúnað. Það samræmist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun vel.“
Sjálfbær fjármögnun
Fyrirtæki geta óskað eftir því að fá sjálfbærnimerki Landsbankans ef fyrirtækið, eða verkefnið sem verið er að fjármagna, uppfyllir skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans. Dæmi um sjálfbær verkefni eru til að mynda orkuskipti í samgöngum, endurnýjanleg raforkuframleiðsla, sjálfbærnivottaðar fiskveiðar, vistvænar byggingar og verkefni sem stuðla að félagslegri uppbyggingu.
Á meðfylgjandi mynd að ofan eru Árni Þór Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Landsbankans, Birna Bragadóttir stjórnarformaður Ljósleiðarans og Reynir Smári Atlason sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum.