Besti banki á Íslandi að mati Euromoney, þriðja árið í röð
Euromoney útnefnir árlega bestu banka víða um heim og veitir þeim viðurkenninguna Award for Excellence. Við útnefninguna er litið til ýmissa þátta í rekstri og stefnu bankanna, m.a. afkomu og arðsemi, nýsköpunar og þjónustu.
Í umsögn Euromoney vegna verðlaunanna 2021 segir að Landsbankinn sé sem fyrr leiðandi á íslenskum bankamarkaði, ekki aðeins vegna þess að hann sé stærsti bankinn þegar litið sé til efnahagsreiknings, lánasafns og markaðshlutdeildar á íbúðalánamarkaði, heldur sé hann einnig í forystu hvað varðar arðsemi og vaxtatekjur. Kostnaðarhlutfall bankans hafi verið 47,4% árið 2020 og arðsemi eiginfjár 8,6% á því tímabili sem verðlaunin taka til, þ.e. frá 2. ársfjórðungi 2020 til og með 1. ársfjórðungs 2021. Euromoney bendir einnig á árangur bankans í stafrænni þróun og að bankinn hafi verið fyrsti íslenski bankinn til að afla alþjóðlegs lánshæfismat á sértryggð skuldabréf sín. Þá hafi bankinn gefið út sína fyrstu sjálfbæru fjármálaumgjörð og sín fyrstu grænu skuldabréf.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Við ætlum að einfalda viðskiptavinum okkar lífið, bjóða samkeppnishæf kjör og tryggja að rekstur bankans verði áfram traustur. Það er ánægjuleg viðurkenning á þessari stefnu að Euromoney hefur nú útnefnt Landsbankann sem besta banka á Íslandi þriðja árið í röð. Viðurkenning Euromoney er mikilvæg en það er ekki síður mikilvægt að við finnum það í samskiptum við viðskiptavini og sjáum í könnunum að viðskiptavinir okkar eru ánægðari. Sífellt fleiri viðskiptavinir bætast í hópinn því það hefur spurst út að hjá okkur færðu betri þjónustu auk þess sem hagstæðustu kjörin á óverðtryggðum íbúðalánum laða marga til bankans.“