Fyrsta fyrirtækið sem fær sjálfbærnimerki Landsbankans
Þegar fyrirtæki sækir um lán hjá Landsbankanum getur það nú í fyrsta sinn óskað eftir því að fá sjálfbærnimerki bankans. Til að hljóta merkið þarf verkefnið sem verið er að fjármagna að uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem skilgreind eru í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og falla undir einn af þeim verkefnaflokkum sem tilgreindir eru þar. Dæmi um sjálfbær verkefni eru til að mynda orkuskipti i samgöngum, endurnýjanleg raforkuframleiðsla, sjálfbærnivottaðar fiskveiðar, vistvænar byggingar og verkefni sem stuðla að félagslegri uppbyggingu.
Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans:
„Sjálfbærnimerkið gerir viðskiptavinum okkar kleift að greina frá því að þeir taki mið af umhverfinu og samfélaginu í sinni vinnu. Útgerðarfélag Reykjavíkur er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur unnið að sjálfbærni lengi í sínum rekstri með góðum árangri. Það gleður okkur að veita þeim sjálfbærnimerki bankans vegna MSC vottaðra fiskveiða. Með sjálfbærnimerkinu viljum við styðja viðskiptavini okkar á sjálfbærnivegferð þeirra enda er það arðbært fyrir reksturinn til langs tíma. Við viljum ekki síður leggja okkar af mörkum til loftslagsmála en stóru tækifæri bankans til þess liggja aðallega í gegnum útlán og fjárfestingar.“
Runólfur V. Guðmundsson forstjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur:
„Við hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur erum gríðarlega stolt af því að lántaka okkar fái sjálfbærnimerki Landsbankans. Í ljósi þess hve samstarf ÚR og Landsbankans hefur gengið vel með gagnkvæmri virðingu og trausti í gegnum tíðina er viðurkenningin okkur enn mikilvægari og hvatning um að halda áfram að vinna að góðum markmiðum.“