40 ár frá sögulegu forsetakjöri Vigdísar Finnbogadóttur
Við fögnum þeim merku tímamótum að fjörutíu ár eru liðin frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands þann 29. júní 1980. Með kjöri Vigdísar var brotið blað í veraldarsögunni, en hún var fyrsta konan í heiminum sem kosin var forseti í lýðræðislegum kosningum. Í embættistíð sinni lagði hún mikla áherslu á íslenska tungu og menningu en ekki síður á mikilvægi tungumálakunnáttu fyrir jákvæð samskipti Íslendinga við umheiminn. Vigdís lét af embætti árið 1996.
Farsælt samstarf Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Landsbankans
Árið 2001 varð Vigdís við þeirri umleitan Háskóla Íslands að Stofnun í erlendum tungumálum yrði við hana kennd. Stofnuninni er ætlað að efla rannsóknir og kennslu í erlendum tungumálum og vekja athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og menningarlæsis.
Landsbankinn hefur átt mjög farsælt samstarf við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í gegnum tíðina og hefur stutt dyggilega við starfsemi hennar. Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar hefur hlotið viðurkenningu Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og er starfrækt í Veröld – húsi Vigdísar sem var vígt 20. apríl 2017.
Vigdís talsmaður tungumála á heimsvísu
Vigdís hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO (Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna UNESCO í tungumálum) frá árinu 1999. Hlutverk velgjörðarsendiherra felst í því að vekja athygli á mikilvægi tungumála fyrir menningarlega fjölbreytni og standa vörð um tungumál sem eru í útrýmingarhættu.
Áhugi Vigdísar á tungumálum og menningarlæsi á sér langa sögu. Hún stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum í Grenoble og við Sorbonne-háskóla í París og hún er með BA-próf í frönsku frá Háskóla Íslands. Hún nam leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla og kenndi um árabil erlend tungumál í framhaldsskólum og við Háskóla Íslands. Þá var hún brautryðjandi á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu hér á landi. Vigdís hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa á alþjóðavettvangi og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt. Þá hefur hún verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við marga erlenda háskóla, þar á meðal háskólana í Grenoble og Bordeaux í Frakklandi, Smith College í Bandaríkjunum, háskólana í Manitoba í Kanada og Gautaborg í Svíþjóð, Gashuin háskóla í Tókýó auk Háskóla Íslands.
Landsbankinn óskar Vigdísi og þjóðinni allri hjartanlega til hamingju með þessi merku tímamót.
Mynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur