Lánasjóður sveitarfélaga fær vottun á umgjörð um græn skuldabréf
Lánasjóður sveitarfélaga hefur fengið vottun á umgjörð félagsins í þeim tilgangi að gefa út græn skuldabréf (e. Green Bond Framework). Tilgangur fyrirhugaðrar skuldabréfaútgáfu er að fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftslagbreytingum í samræmi við umhverfisstefnu Lánasjóðsins.
Verkefnin sem fjármögnuð verða með grænum skuldabréfum þurfa að uppfylla þau skilyrði sem koma fram í umgjörð Lánasjóðsins en hann byggir á alþjóðlegum viðmiðum (e.Green Bond Principles) sem International Capital Market Association (ICMA) hefur sett saman og byggja á eftirfarandi stoðum:
- Ráðstöfun fjármuna
- Ferli um mat og val á verkefnum
- Stýringu fjármuna
- Upplýsingagjöf
Umgjörðin hefur hlotið vottun frá Sustainalytics sem er leiðandi viðurkenndur vottunaraðili á heimsvísu. Samkvæmt vottuninni er umgjörð Lánasjóðsins trúverðug, áhrifarík, gagnsæ og í samræmi við ofangreind viðmið ICMA.
Dæmi um fjárfestingar sem gætu fallið undir kröfur umgjarðarinnar eru umhverfisvænar samgöngur, vistvænar byggingar, endurnýjanleg orka og orkunýtni, fráveitur og meðhöndlun aukaafurða (úrgangs).
Markaðir Landsbankans er samstarfsaðili Lánasjóðsins við gerð umgjörðarinnar sem og sölu og útgáfu grænu skuldabréfanna.
Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitafélaga segir: „Það er mikilvægt fyrir Lánasjóðinn að geta tekið virkan þátt í vinnu sveitarfélaga í umhverfis- og loftslagsmálum. Lánasjóðurinn vill gera hvað hann getur til að styðja við markmið stjórnvalda í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Samvinnan við Landsbankann í þessu verkefni hefur verið ómetanleg og við hlökkum til að taka næstu skref.“
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Markaða Landsbankans segir: „Fjármagnsmarkaðurinn gegnir mikilvægu hlutverki við að stuðla að útgáfu grænna skuldabréfa. Landsbankinn hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á ábyrgar fjárfestingar. Græn skuldabréf eru eignaflokkur sem fellur undir ábyrgar fjárfestingar og því hefur verið sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í þessari vegferð með Lánasjóði sveitarfélaga.“