Opinn fundur á Akureyri um varnir gegn fjársvikum
Landsbankinn og Samtök atvinnurekenda á Akureyri standa fyrir opnum fundi á Akureyri fimmtudaginn 15. mars um hvernig fyrirtæki geta varist fjársvikum. Tilraunum til slíkra svika hefur fjölgað á undanförnum árum en í mörgum tilfellum senda svikararnir fölsk skilaboð í nafni stjórnenda til að komast inn fyrir varnir fyrirtækja.
Tilraunum til að svíkja fé af fyrirtækjum hefur fjölgað mikið undanfarin tvö ár. Fyrirtæki geta varið sig gegn ýmis konar netárásum með öryggiskerfum en þau duga skammt við að verjast fyrirmælafölsun en eitt mikilvægasta vopnið gegn fyrirmælafölsun er fræðsla og vitundarvakning hjá starfsfólki fyrirtækja. Fyrirmælafölsun er stundum einnig nefnd stjórnendasvik (e. CEO-fraud). Svikin fara þannig fram að fjársvikararnir villa á sér heimildir og þykjast vera stjórnendur í fyrirtækinu sem svikatilraunin beinist gegn og senda trúverðug fyrirmæli á starfsmenn um að millifæra fé með hraði.
Á fundinum fjalla þeir Hákon L. Åkerlund og Guðmundur Ö. Ingvarsson, sérfræðingar í öryggismálum hjá Landsbankanum, um einkenni svikatilraunanna og varnir gegn þeim.
Fundurinn verður haldinn á efri hæð Greifans við Glerárgötu 20, fimmtudaginn 15. mars kl. 12.00–13.00. Húsið verður opnað kl. 11.45 og fundur hefst stundvíslega kl. 12.00.
Landsbankinn leggur mikla áherslu á öryggismál. Á Umræðunni, efnis- og fréttaveitu bankans, er ítarleg umfjöllun um netöryggismál sem á erindi við einstaklinga og fyrirtæki.